Laxdæla Saga - 14. kafli

Lestrarhraði
(orð á mínútu)
Ingjaldur hét maður. Hann bjó í Sauðeyjum. Þær liggja á Breiðafirði. Hann var kallaður Sauðeyjargoði. Hann var auðigur maður og mikill fyrir sér. Hallur hét bróðir hans. Hann var mikill maður og efnilegur. Hann var félítill maður. Engi var hann nytjungur kallaður af flestum mönnum. Ekki voru þeir bræður samþykkir oftast. Þótti Ingjaldi Hallur lítt vilja sig semja í sið dugandi manna en Halli þótti Ingjaldur lítt vilja sitt ráð hefja til þroska.

Veiðistöð sú liggur á Breiðafirði er Bjarneyjar heita. Þær eyjar eru margar saman og voru mjög gagnauðgar. Í þann tíma sóttu menn þangað mjög til veiðifangs. Var og þar fjölmennt mjög öllum misserum. Mikið þótti spökum mönnum undir því að menn ættu gott saman í útverjum. Var það þá mælt að mönnum yrði ógæfra um veiðifang ef missáttir yrðu. Gáfu og flestir menn að því góðan gaum.

Það er sagt eitthvert sumar að Hallur bróðir Ingjalds Sauðeyjargoða kom í Bjarneyjar og ætlaði til fangs. Hann tók sér skipan með þeim manni er Þórólfur hét. Hann var breiðfirskur maður og hann var nálega lausingi einn félaus og þó frálegur maður. Hallur er þar um hríð og þykist hann mjög fyrir öðrum mönnum.

Það var eitt kveld að þeir koma að landi, Hallur og Þórólfur, og skyldu skipta fengi sínu. Vildi Hallur bæði kjósa og deila því að hann þóttist þar meiri maður fyrir sér. Þórólfur vildi eigi láta sinn hlut og var allstórorður. Skiptust þeir nokkurum orðum við og þótti sinn veg hvorum. Þrífur þá Hallur upp höggjárn er lá hjá honum og vill færa í höfuð Þórólfi. Nú hlaupa menn í milli þeirra og stöðva Hall en hann var hinn óðasti og gat þó engu á leið komið að því sinni og ekki varð fengi þeirra skipt. Réðst nú Þórólfur á brott um kveldið en Hallur tók einn upp fang það er þeir áttu báðir því að þá kenndi að ríkismunar. Fær nú Hallur sér mann í stað Þórólfs á skipið. Heldur nú til fangs sem áður.

Þórólfur unir illa við sinn hlut. Þykist hann mjög svívirður vera í þeirra skiptum. Er hann þar þó í eyjunum og hefir það að vísu í hug sér að rétta þenna krók er honum var svo nauðulega beygður. Hallur uggir ekki að sér og hugsar það að engir menn muni þora að halda til jafns við hann þar í átthaga hans.

Það var einn góðan veðurdag að Hallur reri og voru þeir þrír á skipi. Bítur vel á um daginn. Róa þeir heim að kveldi og eru mjög kátir. Þórólfur hefir njósn af athöfn Halls um daginn og er staddur í vörum um kveldið þá er þeir Hallur koma að landi. Hallur reri í hálsi fram. Hann hleypur fyrir borð og ætlar að taka við skipinu. Og er hann hleypur á land þá er Þórólfur þar nær staddur og höggur til hans þegar. Kom höggið á hálsinn við herðarnar og fýkur af höfuðið. Þórólfur snýr á brott eftir það en þeir félagar Halls styrma yfir honum.

Spyrjast nú þessi tíðindi um eyjarnar, víg Halls, og þykja það mikil tíðindi því að maður var kynstór þótt hann hefði engi auðnumaður verið. Þórólfur leitar nú á brott úr eyjunum því að hann veit þar engra þeirra manna von er skjóli muni skjóta yfir hann eftir þetta stórvirki. Hann átti þar og enga frændur þá er hann mætti sér trausts af vænta en þeir menn sátu nær er vís von var að um líf hans mundu sitja og höfðu mikið vald svo sem var Ingjaldur Sauðeyjargoði bróðir Halls.

Þórólfur fékk sér flutning inn til meginlands. Hann fer mjög huldu höfði. Er ekki af sagt hans ferð áður hann kemur einn dag að kveldi á Goddastaði. Vigdís kona Þórðar godda var nokkuð skyld Þórólfi og sneri hann því þangað til bæjar. Spurn hafði Þórólfur af því áður hversu þar var háttað, að Vigdís var meiri skörungur í skapi en Þórður bóndi hennar. Og þegar um kveldið er Þórólfur var þar kominn gengur hann til fundar við Vigdísi og segir henni til sinna vandræða og biður hana ásjá.

Vigdís svarar á þá leið hans máli: "Ekki dylst eg við skuldleika okkra. Þykir mér og þann veg aðeins verk þetta er þú hefir unnið að eg kalla þig ekki að verra dreng. En þó sýnist mér svo sem þeir menn muni veðsetja bæði sig og fé sitt er þér veita ásjá svo stórir menn sem hér munu veita eftirsjár. En Þórður bóndi minn," segir hún, "er ekki garpmenni mikið en úrráð vor kvenna verða jafnan með lítilli forsjá ef nokkurs þarf við. En þó nenni eg eigi með öllu að víkjast undan við þig alls þú hefir þó hér til nokkurrar ásjá ætlað."

Eftir það leiðir Vigdís hann í útibúr eitt og biður hann þar bíða sín. Setur hún þar lás fyrir.

Síðan gekk hún til Þórðar og mælti: "Hér er kominn maður til gistingar sá er Þórólfur heitir en hann er skyldur mér nokkuð. Þættist hann þurfa hér lengri dvöl ef þú vildir að svo væri."

Þórði kvaðst ekki vera um mannasetur, bað hann hvílast þar um daginn eftir ef honum væri ekki á höndum en verða í brottu sem skjótast ellegar.

Vigdís svarar: "Veitt hefi eg honum áður gisting og mun eg þau orð eigi aftur taka þótt hann eigi sér eigi jafna vini alla."

Eftir það sagði hún Þórði vígið Halls og svo það að Þórólfur hafði vegið hann, er þá var þar kominn.

Þórður varð styggur við þetta, kvaðst það víst vita að Ingjaldur mundi mikið fé taka af honum fyrir þessa björg er nú var veitt honum "er hér hafa hurðir verið loknar eftir þessum manni."

Vigdís svarar: "Eigi skal Ingjaldur fé taka af þér fyrir einnar nætur björg því að hann skal hér vera í allan vetur."

Þórður mælti: "Þann veg máttu mér mest upp tefla og að móti er það mínu skapi að slíkur óhappamaður sé hér."

En þó var Þórólfur þar um veturinn.

Þetta spurði Ingjaldur er eftir bróður sinn átti að mæla. Hann býr ferð sína í Dali inn að áliðnum vetri, setti fram ferju er hann átti. Þeir voru tólf saman. Þeir sigla vestan útnyrðing hvassan og lenda í Laxárósi um kveldið, setja upp ferjuna en fara á Goddastaði um kveldið og koma ekki á óvart. Er þar tekið vel við þeim.

Ingjaldur brá Þórði á mál og sagði honum erindi sitt að hann kveðst þar hafa spurt til Þórólfs bróðurbana síns. Þórður kvað það engu gegna.

Ingjaldur bað hann eigi þræta "og skulum við eiga kaup saman, að þú sel manninn fram og lát mig eigi þurfa þraut til en eg hefi hér þrjár merkur silfurs er þú skalt eignast. Upp mun eg og gefa þér sakir þær er þú hefir gert á hendur þér í björgum við Þórólf."

Þórði þótti féið fagurt en var heitið uppgjöf um sakir þær er hann hafði áður kvítt mest að hann mundi féskurð af hljóta.

Þórður mælti þá: "Nú mun eg sveipa af fyrir mönnum um tal okkart en þetta mun þó verða kaup okkart."

Þeir sváfu til þess er á leið nóttina og var stund til dags.
Leturstærð
Valinn leshraði: 250 orð á mínútu

Laxdæla Saga - 14. kafli: 1.180 orð
Tími : 5 mínútur

Laxdæla Saga: 62.571 orð
Lesin: 5.675 orð
Tími eftir: 228 mínútur
Hér er lýsing á kortinu...