Laxdæla Saga - 18. kafli

Lestrarhraði
(orð á mínútu)
Í þann tíma hófust þeir upp til mannvirðingar í Þórsnesi frændur Þorsteins, Börkur hinn digri og Þorgrímur bróðir hans. Brátt fannst það á að þeir bræður vildu þá vera þar mestir menn og mest metnir. Og er Þorsteinn finnur það þá vill hann eigi við þá bægjast, lýsir því fyrir mönnum að hann ætlar að skipta um bústaði og ætlaði að fara byggðum á Hrappsstaði í Laxárdal.

Þorsteinn surtur bjó ferð sína af vorþingi en smali var rekinn eftir ströndinni. Þorsteinn skipaði ferju og gekk þar á með tólfta mann. Var þar Þórarinn á mágur hans og Ósk Þorsteinsdóttir og Hildur hennar dóttir er enn fór með þeim og var hún þrevetur.

Þorsteinn tók útsynning hvassan. Sigla þeir inn að straumum í þann straum er hét Kolkistustraumur. Sá er í mesta lagi þeirra strauma er á Breiðafirði eru. Þeim tekst siglingin ógreitt. Heldur það mest til þess að þá var komið útfall sjávar en byrinn ekki vinveittur því að skúraveður var á og var hvasst veðrið þá er rauf en vindlítið þess í milli. Þórarinn stýrði og hafði aktaumana um herðar sér því að þröngt var á skipinu. Var hirslum mest hlaðið og varð hár farmurinn en löndin voru nær. Gekk skipið lítið því að straumurinn gerðist óður að móti. Síðan sigla þeir á sker upp og brutu ekki að. Þorsteinn bað fella seglið sem skjótast, bað menn taka forka og ráða af skipinu. Þessa ráðs var freistað og dugði eigi því að svo var djúpt á bæði borð að forkarnir kenndu eigi niður og varð þar að bíða aðfalls. Fjarar nú undan skipinu.

Þeir sáu sel í strauminum um daginn, meira miklu en aðra. Hann fór í hring um skipið um daginn og var ekki fitjaskammur. Svo sýndist þeim öllum sem mannsaugu væru í honum. Þorsteinn bað þá skjóta selinn. Þeir leita við og kom fyrir ekki. Síðan féll sjór að. Og er nær hafði að skipið mundi fljóta þá rekur á hvassviðri mikið og hvelfir skipinu og drukkna nú menn allir þeir er þar voru á skipinu nema einn maður. Þann rak á land með viðum. Sá hét Guðmundur. Þar heita síðan Guðmundareyjar.

Guðríður átti að taka arf eftir Þorstein surt föður sinn, er átti Þorkell trefill. Þessi tíðindi spyrjast víða, drukknun Þorsteins surts og þeirra manna er þar höfðu látist. Þorkell sendir þegar orð þessum manni, Guðmundi, er þar hafði á land komið. Og er hann kemur á fund Þorkels þá slær Þorkell við hann kaupi á laun að hann skyldi svo greina frásögn um líflát manna sem hann segði fyrir. Því játti Guðmundur. Heimtir nú Þorkell af honum frásögn um atburð þenna svo að margir menn voru hjá. Þá segir Guðmundur svo, kvað Þorstein hafa fyrst drukknað, þá Þórarin mág hans. Þá átti Hildur að taka féið því að hún var dóttir Þórarins, þá kvað hann meyna drukkna því að þar næst var Ósk hennar arfi, móðir hennar, og lést hún þeirra síðast. Bar þá féið allt undir Þorkel trefil því að Guðríður kona hans átti fé að taka eftir systur sína.

Nú reiðist þessi frásögn af Þorkatli og hans mönnum en Guðmundur hafði áður nokkuð öðruvísa sagt. Nú þótti þeim frændum Þórarins nokkuð ifanleg sjá saga og kölluðust eigi mundu trúnað á leggja raunarlaust og töldu þeir sér fé hálft við Þorkel. En Þorkell þykist einn eiga og bað gera til skírslu að sið þeirra. Það var þá skírsla í það mund að ganga skyldi undir jarðarmen það er torfa var ristin úr velli. Skyldu endarnir torfunnar vera fastir í vellinum en sá maður er skírsluna skyldi fram flytja skyldi þar ganga undir. Þorkell trefill grunar nokkuð hvort þannig mun farið hafa um líflát manna sem þeir Guðmundur höfðu sagt hið síðara sinni.

Ekki þóttust heiðnir menn minna eiga í ábyrgð þá er slíka hluti skyldi fremja en nú þykjast eiga kristnir menn þá er skírslur eru gervar. Þá varð sá skír er undir jarðarmen gekk ef torfan féll eigi á hann.

Þorkell gerði ráð við tvo menn að þeir skyldu sig láta á skilja um einnhvern hlut og vera þar nær staddir þá er skírslan væri frömd og koma við torfuna svo mjög að allir sæju að þeir felldu hana. Eftir þetta ræður sá til er skírsluna skyldi af höndum inna og jafnskjótt sem hann var kominn undir jarðarmenið hlaupast þessir menn að mót með vopnum sem til þess voru settir, mætast þeir hjá torfubugnum og liggja þar fallnir og fellur ofan jarðarmenið sem von var. Síðan hlaupa menn í millum þeirra og skilja þá. Var það auðvelt því að þeir börðust með engum háska. Þorkell trefill leitaði orðróms um skírsluna. Mæltu nú allir hans menn að vel mundi hlýtt hafa ef engir hefðu spillt. Síðan tók Þorkell lausafé allt en löndin leggjast upp á Hrappsstöðum.
Leturstærð
Valinn leshraði: 250 orð á mínútu

Laxdæla Saga - 18. kafli: 792 orð
Tími : 4 mínútur

Laxdæla Saga: 62.571 orð
Lesin: 8.828 orð
Tími eftir: 215 mínútur
Hér er lýsing á kortinu...