Laxdæla Saga - 21. kafli

Lestrarhraði
(orð á mínútu)
Nú kemur Höskuldur heim af þingi og spyr þessi tíðindi. Honum líkar heldur þunglega. En með því að vandamenn hans áttu hlut í þá sefaðist hann og lét vera kyrrt.

Þeim Ólafi byrjaði vel og tóku Noreg. Örn fýsir Ólaf að fara til hirðar Haralds konungs, kvað hann gera til þeirra góðan sóma er ekki voru betur menntir en Ólafur var. Ólafur kvaðst það mundu af taka. Fara þeir Ólafur og Örn nú til hirðarinnar og fá þar góðar viðtökur. Vaknar konungur þegar við Ólaf fyrir sakir frænda hans og bauð honum þegar með sér að vera. Gunnhildur lagði mikil mæti á Ólaf er hún vissi að hann var bróðurson Hrúts. En sumir menn kölluðu það að henni þætti þó skemmtan að tala við Ólaf þótt hann nyti ekki annarra að. Ólafur ógladdist er á leið veturinn. Örn spyr hvað honum væri til ekka.

Ólafur svarar: "Ferð á eg á höndum mér að fara vestur um haf og þætti mér mikið undir að þú ættir hlut í að sú yrði farin sumarlangt."

Örn bað Ólaf þess ekki fýsast, kvaðst ekki vita vonir skipa þeirra er um haf vestur mundu ganga.

Gunnhildur gekk á tal þeirra og mælti: "Nú heyri eg ykkur það tala sem eigi hefir fyrr við borið, að sinn veg þykir hvorum."

Ólafur fagnar vel Gunnhildi og lætur eigi niður falla talið. Síðan gengur Örn á brott en þau Gunnhildur taka þá tal. Segir Ólafur þá ætlan sína og svo hvað honum lá við, að Mýrkjartan konungur var móðurfaðir hans.

Þá mælti Gunnhildur: "Eg skal fá þér styrk til ferðar þessar að þú megir fara svo ríkulega þangað sem þú vilt."

Ólafur þakkar henni orð sín. Síðan lætur Gunnhildur búa skip og fær menn til, bað Ólaf á kveða hve marga menn hann vill hafa með sér vestur um hafið. En Ólafur kvað á sex tigu manna og kvaðst þó þykja miklu skipta að það lið væri líkara hermönnum en kaupmönnum. Hún kvað svo vera skyldu. Og er Örn einn nefndur með Ólafi til ferðarinnar. Þetta lið var allvel búið. Haraldur konungur og Gunnhildur leiddu Ólaf til skips og sögðust mundu leggja til með honum hamingju sína með vingan þeirri annarri er þau höfðu til lagt. Sagði Haraldur konungur að það mundi auðvelt því að þau kölluðu engan mann vænlegra hafa komið af Íslandi á þeirra dögum. Þá spurði Haraldur konungur hve gamall maður hann væri.

Ólafur svarar: "Nú er eg átján vetra."

Konungur mælti: "Miklir ágætismenn eru slíkt sem þú ert því að þú ert enn lítið af barnsaldri og sæk þegar á vorn fund er þú kemur aftur."

Síðan bað konungur og Gunnhildur Ólaf vel fara.

Stigu síðan á skip og sigla þegar á haf. Þeim byrjaði illa um sumarið. Hafa þeir þokur miklar en vinda litla og óhagstæða þá sem voru. Rak þá víða um hafið. Voru þeir flestir innanborðs að á kom hafvilla. Það varð um síðir að þoku hóf af höfði og gerðust vindar á. Var þá tekið til segls. Tókst þá umræða hvert til Írlands mundi að leita og urðu menn eigi ásáttir á það. Örn var til móts en mestur hluti manna mælti í gegn og kváðu Örn allan villast og sögðu þá ráða eiga er fleiri voru.

Síðan skutu þeir til ráða Ólafs en Ólafur segir: "Það vil eg að þeir ráði sem hyggnari eru því verr þykir mér sem oss muni duga heimskra manna brögð er þau koma fleiri saman."

Þótti þá úr skorið er Ólafur mælti þetta og réð Örn leiðsögu þaðan í frá. Sigla þeir þá nætur og daga og hafa jafnan byrlítið.

Það var einhverja nótt að varðmenn hljópu upp og báðu menn vaka sem tíðast, kváðust sjá land svo nær sér að þeir stungu nær stafni að. En seglið var uppi og alllítið veðrið að. Menn hlaupa þegar upp og bað Örn beita á brott frá landinu ef þeir mættu.

Ólafur segir: "Ekki eru þau efni í um vort mál því að eg sé að boðar eru á bæði borð og allt fyrir skutstafn og felli seglið sem tíðast. En gerum ráð vor þá er ljós dagur er og menn kenna land þetta."

Síðan kasta þeir akkerum og hrífa þau þegar við. Mikil er umræða um nóttina hvar þeir mundu að komnir. En er ljós dagur var kenndu þeir að það var Írland.

Örn mælti þá: "Það hygg eg að vér höfum ekki góða aðkomu því að þetta er fjarri höfnum og þeim kaupstöðum er útlendir menn skulu hafa frið því að vér erum nú fjaraðir uppi svo sem hornsíl. Og nær ætla eg það lögum þeirra Íra þótt þeir kalli fé þetta er vér höfum með að fara með sínum föngum því að heita láta þeir það vogrek er minnur er fjarað frá skutstafni."

Ólafur kvað ekki til mundu saka "en séð hefi eg að mannsafnaður er á land upp í dag og þeim Írum þykir um vert skipkomu þessa. Hugði eg að og í dag þá er fjaran var að hér gekk upp ós við nes þetta og féll þar óvandlega sjórinn út úr ósinum. En ef skip vort er ekki sakað þá munum vér skjóta báti vorum og flytja skip vort þangað."

Leira var undir þar er þeir höfðu legið um strengina og var ekki borð sakað í skipi þeirra. Flytjast þeir Ólafur þangað og kasta þar akkerum.

En er á líður daginn þá drífur ofan mannfjöldi mikill til strandar. Síðan fara tveir menn á báti til kaupskipsins. Þeir spyrja hverjir fyrir ráði skipi þessu. Ólafur mælti og svarar svo á írsku sem þeir mæltu til. En er Írar vissu að þeir voru norrænir menn þá beiðast þeir laga að þeir skyldu ganga frá fé sínu og mundi þeim þá ekki vera gert til auvisla áður konungur ætti dóm á þeirra máli.

Ólafur kvað það lög vera ef engi væri túlkur með kaupmönnum "en eg kann yður það með sönnu að segja að þetta eru friðmenn en þó munum vér eigi upp gefast að óreyndu."

Írar æpa þá heróp og vaða út á sjóinn og ætla að leiða upp skipið undir þeim. Var ekki djúpara en þeim tók undir hendur eða í bróklinda þeim er stærstir voru. Pollurinn var svo djúpur þar er skipið flaut að eigi kenndi niður. Ólafur bað þá brjóta upp vopn sín og fylkja á skipinu allt á millum stafna. Stóðu þeir og svo þykkt að allt var skarað með skjöldum. Stóð spjótsoddur út hjá hverjum skjaldarsporði.

Ólafur gekk þá fram í stafninn og var svo búinn að hann var í brynju og hafði hjálm á höfði gullroðinn. Hann var gyrður sverði og voru gullrekin hjöltin. Hann hafði krókaspjót í hendi höggtekið og allgóð mál í. Rauðan skjöld hafði hann fyrir sér og var dregið á leó með gulli.

En er Írar sjá viðbúning þeirra þá skýtur þeim skelk í bringu og þykir þeim eigi jafnauðvelt féfang sem þeir hugðu til. Hnekkja Írar nú ferðinni og hlaupa saman í eitt þorp. Síðan kemur kurr mikill í lið þeirra og þykir þeim nú auðvitað að þetta var herskip og muni vera miklu fleiri skipa von, gera nú skyndilega orð til konungs. Var það og hægt því að konungur var þá skammt í brott þaðan á veislum. Hann ríður þegar með sveit manna þar til sem skipið var. Eigi var lengra á millum landsins og þess er skipið flaut en vel mátti nema tal millum manna. Oft höfðu Írar veitt þeim árásir með skotum og varð þeim Ólafi ekki mein að.

Ólafur stóð með þessum búningi sem fyrr var ritað og fannst mönnum margt um hversu skörulegur sjá maður var er þar var skipsforingi. En er skipverjar Ólafs sjá mikið riddaralið ríða til þeirra og var hið fræknlegsta þá þagna þeir því að þeim þótti mikill liðsmunur við að eiga.

En er Ólafur heyrði þenna kurr sem í sveit hans gerðist bað hann þá herða hugina "því að nú er gott efni í voru máli. Heilsuðu þeir Írar nú Mýrkjartani konungi sínum."

Síðan riðu þeir svo nær skipinu að hvorir máttu skilja hvað aðrir töluðu. Konungur spyr hver skipi stýrði. Ólafur segir nafn sitt og spurði hver sá væri hinn vasklegi riddari er hann átti þá tal við.

Sá svarar: "Eg heiti Mýrkjartan."

Ólafur mælti: "Hvort ertu konungur Íra?"

Hann kvað svo vera. Þá spyr konungur almæltra tíðinda. Ólafur leysti vel úr þeim tíðindum öllum er hann var spurður. Þá spyr konungur hvaðan þeir hefðu út látið eða hverra menn þeir væru. Og enn spyr konungur vandlegar um ætt Ólafs en fyrrum því að konungur fann að þessi maður var ríklátur og vildi eigi segja lengra en hann spurði.

Ólafur segir: "Það skal eg yður kunnigt gera að vér ýttum af Noregi en þetta eru hirðmenn Haralds konungs Gunnhildarsonar er hér eru innanborðs. En yður er það frá ætt minni að segja herra að faðir minn býr á Íslandi, er Höskuldur heitir. Hann er stórættaður maður. En móðurkyn mitt vænti eg að þér munuð séð hafa fleira en eg því að Melkorka heitir móðir mín og er mér sagt með sönnu að hún sé dóttir þín konungur og það hefir mig til rekið svo langrar ferðar og liggur mér nú mikið við hver svör þú veitir voru máli."

Konungur þagnar og á tal við menn sína. Spyrja vitrir menn konung hvað gegnast muni í þessu máli er sjá maður segir.

Konungur svarar: "Auðsætt er það á Ólafi þessum að hann er stórættaður maður, hvort sem hann er vor frændi eða eigi, og svo það að hann mælir allra manna best írsku."

Eftir það stóð konungur upp og mælti: "Nú skal veita svör þínu máli, að eg vil öllum yður grið gefa skipverjum. En um frændsemi þá er þú telur við oss munum vér tala fleira áður en eg veiti því andsvör."

Síðan fara bryggjur á land og gengur Ólafur á land og förunautar hans af skipinu. Finnst þeim Írum nú mikið um hversu virðulegur þessi maður er og víglegur. Fagnar Ólafur þá konungi vel og tekur ofan hjálminn og lýtur konungi en konungur tekur honum þá með allri blíðu. Taka þeir þá tal með sér. Flytur Ólafur þá enn sitt mál af nýju og talar bæði langt erindi og snjallt. Lauk svo málinu að hann kvaðst þar hafa gull það á hendi er Melkorka seldi honum að skilnaði á Íslandi "og sagði svo að þú konungur gæfir henni að tannfé."

Konungur tók við og leit á gullið og gerðist rauður mjög ásýndar.

Síðan mælti konungur: "Sannar eru jartegnir en fyrir engan mun eru þær ómerkilegri er þú hefir svo mikið ættarbragð af móður þinni að vel má þig þar af kenna. Og fyrir þessa hluti þá vil eg að vísu við ganga þinni frændsemi Ólafur að þeirra manna vitni er hér eru hjá og tal mitt heyra. Skal það og fylgja að eg vil þér bjóða til hirðar minnar með alla þína sveit. En sómi yðvar mun þar við liggja hvert mannkaup mér þykir í þér þá er eg reyni þig meir."

Síðan lætur konungur fá þeim hesta til reiðar en hann setur menn til að búa um skip þeirra og annast varnað þann er þeir áttu.

Konungur reið þá til Dyflinnar og þykja mönnum þetta mikil tíðindi er þar var dótturson konungs í för með honum, þeirrar er þaðan var fyrir löngu hertekin fimmtán vetra gömul. En þó brá fóstru Melkorku mest við þessi tíðindi, er þá lá í kör og sótti bæði að stríð og elli. En þó gekk hún þá staflaust á fund Ólafs.

Þá mælti konungur til Ólafs: "Hér er nú komin fóstra Melkorku og mun hún vilja hafa tíðindasögn af þér um hennar hag."

Ólafur tók við henni báðum höndum og setti kerlingu á kné sér og sagði að fóstra hennar sat í góðum kostum á Íslandi. Þá seldi Ólafur henni hnífinn og beltið og kenndi kerling gripina og varð grátfegin, kvað það bæði vera að sonur Melkorku var skörulegur "enda á hann til þess varið."

Var kerling hress þann vetur allan.

Konungur var lítt í kyrrsæti því að þá var jafnan herskátt um Vesturlöndin. Rak konungur af sér þann vetur víkinga og úthlaupsmenn. Var Ólafur með sveit sína á konungsskipi og þótti sú sveit heldur úrig viðskiptis þeim er í móti voru. Konungur hafði þá tal við Ólaf og hans félaga og alla ráðagerð því að honum reyndist Ólafur bæði vitur og framgjarn í öllum mannraunum.

En að áliðnum vetri stefndi konungur þing og varð allfjölmennt. Konungur stóð upp og talaði.

Hann hóf svo mál sitt: "Það er yður kunnigt að hér kom sá maður í fyrra haust er dótturson minn er en þó stórættaður í föðurkyn. Virðist mér Ólafur svo mikill atgervimaður og skörungur að vér eigum eigi slíkra manna hér kost. Nú vil eg bjóða honum konungdóm eftir minn dag því að Ólafur er betur til yfirmanns fallinn en mínir synir."

Ólafur þakkar honum boð þetta með mikilli snilld og fögrum orðum en kvaðst þó eigi mundu á hætta hversu synir hans þyldu það þá er Mýrkjartans missti við, kvað betra vera að fá skjóta sæmd en langa svívirðing, kvaðst til Noregs fara vilja þegar skipum væri óhætt að halda á millum landa, kvað móður sína mundu hafa lítið yndi ef hann kæmi eigi aftur. Konungur bað Ólaf ráða. Síðan var slitið þinginu.

En er skip Ólafs var albúið þá fylgir konungur Ólafi til skips og gaf honum spjót gullrekið og sverð búið og mikið fé annað. Ólafur beiddist að flytja fóstru Melkorku á brott með sér. Konungur kvað þess enga þörf og fór hún eigi. Stigu þeir Ólafur á skip sitt og skiljast þeir konungur með allmikilli vináttu.

Eftir það sigla þeir Ólafur á haf. Þeim byrjaði vel og tóku Noreg og er Ólafs för allfræg, setja nú upp skipið. Fær Ólafur sér hesta og sækir nú á fund Haralds konungs með sínu föruneyti.
Leturstærð
Valinn leshraði: 250 orð á mínútu

Laxdæla Saga - 21. kafli: 2.293 orð
Tími : 10 mínútur

Laxdæla Saga: 62.571 orð
Lesin: 11.621 orð
Tími eftir: 204 mínútur
Hér er lýsing á kortinu...