Ólafur Höskuldsson sat í búi sínu í miklum sóma sem fyrr var ritað.
Guðmundur hét maður Sölmundarson. Hann bjó í Ásbjarnarnesi norður í Víðidal. Guðmundur var auðigur maður. Hann bað Þuríðar og gat hana með miklu fé. Þuríður var vitur kona og skapstór og skörungur mikill. Hallur hét son þeirra, og Barði, Steinn og Steingrímur. Guðrún hét dóttir þeirra, og Ólöf.
Þorbjörg dóttir Ólafs var kvenna vænst og þrekleg. Hún var kölluð Þorbjörg digra og var gift vestur í Vatnsfjörð Ásgeiri Snartarsyni. Hann var göfugur maður. Þeirra son var Kjartan faðir Þorvalds, föður Þórðar, föður Snorra, föður Þorvalds. Þaðan er komið Vatnsfirðingakyn. Síðan átti Þorbjörgu Vermundur Þorgrímsson. Þeirra dóttir var Þorfinna er átti Þorsteinn Kuggason.
Bergþóra Ólafsdóttir var gift vestur í Djúpafjörð Þórhalli goða syni Odda Ýrarsonar. Þeirra son var Kjartan faðir Smið-Sturlu. Hann var fóstri Þórðar Gilssonar föður Sturlu.
Ólafur pái átti marga kostgripi í ganganda fé. Hann átti uxa góðan er Harri hét, apalgrár að lit, meiri en önnur naut. Hann hafði fjögur horn. Voru tvö mikil og stóðu fagurt en þriðja stóð í loft upp. Hið fjórða stóð úr enni og niður fyrir augu honum. Það var brunnvaka hans. Hann krafsaði sem hross.
Einn fellivetur mikinn gekk hann úr Hjarðarholti og þangað sem nú heita Harrastaðir í Breiðafjarðardali. Þar gekk hann um veturinn með sextán nautum og kom þeim öllum á gras. Um vorið gekk hann heim í haga þar sem heitir Harraból í Hjarðarholtslandi.
Þá er Harri var átján vetra gamall þá féll brunnvaka hans af höfði honum og það sama haust lét Ólafur höggva hann. Hina næstu nótt eftir dreymdi Ólaf að kona kom að honum. Sú var mikil og reiðuleg.
Hún tók til orða: "Er þér svefnhöfugt?"
Hann kvaðst vaka.
Konan mælti: "Þér er svefns en þó mun fyrir hitt ganga. Son minn hefir þú drepa látið og látið koma ógervilegan mér til handa og fyrir þá sök skaltu eiga að sjá þinn son alblóðgan af mínu tilstilli. Skal eg og þann til velja er eg veit að þér er ófalastur."
Síðan hvarf hún á brott.
Ólafur vaknaði og þóttist sjá svip konunnar. Ólafi þótti mikils um vert drauminn og segir vinum sínum og varð ekki ráðinn svo að honum líki. Þeir þóttu honum best um tala er það mæltu að það væri draumskrök er fyrir hann hafði borið.