Laxdæla Saga - 33. kafli

Lestrarhraði
(orð á mínútu)
Gestur Oddleifsson bjó vestur á Barðaströnd í Haga. Hann var höfðingi mikill og spekingur að viti, framsýnn um marga hluti, vel vingaður við alla hina stærri menn og margir sóttu ráð að honum. Hann reið hvert sumar til þings og hafði jafnan gistingarstað á Hóli.

Einhverju sinni bar enn svo til að Gestur reið til þings og gisti á Hóli. Hann býst um morguninn snemma því að leið var löng. Hann ætlaði um kveldið í Þykkvaskóg til Ármóðs mágs síns. Hann átti Þórunni systur Gests. Þeirra synir voru þeir Örnólfur og Halldór.

Gestur ríður nú um daginn vestan úr Saurbæ og kemur til Sælingsdalslaugar og dvelst þar um hríð. Guðrún kom til laugar og fagnar vel Gesti frænda sínum. Gestur tók henni vel og taka þau tal saman og voru þau bæði vitur og orðig.

En er á líður daginn mælti Guðrún: "Það vildi eg frændi að þú riðir til vor í kveld með allan flokk þinn. Er það og vilji föður míns þótt hann unni mér virðingar að bera þetta erindi og það með að þú gistir þar hvert sinn er þú ríður vestur eða vestan."

Gestur tók þessu vel og kvað þetta skörulegt erindi en kvaðst þó mundu ríða svo sem hann hafði ætlað.

Guðrún mælti: "Dreymt hefir mig margt í vetur en fjórir eru þeir draumar er mér afla mikillar áhyggju en engi maður hefir þá svo ráðið að mér líki og bið eg þó eigi þess að þeir séu í vil ráðnir."

Gestur mælti þá: "Seg þú drauma þína. Vera má að vér gerum af nokkuð."

Guðrún segir: "Úti þóttist eg vera stödd við læk nokkurn og hafði eg krókfald á höfði og þótti mér illa sama og var eg fúsari að breyta faldinum en margir töldu um að eg skyldi það eigi gera. En eg hlýddi ekki á það og greip eg af höfði mér faldinn og kastaði eg út á lækinn og var þessi draumur eigi lengri."

Og enn mælti Guðrún: "Það var upphaf að öðrum draum að eg þóttist vera stödd hjá vatni einu. Svo þótti mér sem kominn væri silfurhringur á hönd mér og þóttist eg eiga og einkar vel sama. Þótti mér það vera allmikil gersemi og ætlaði eg lengi að eiga. Og er mér voru minnstar vonir þá renndi hringurinn af hendi mér og á vatnið og sá eg hann aldrei síðan. Þótti mér sjá skaði miklu meiri en eg mætti að líkindum ráða þótt eg hefði einum grip týnt. Síðan vaknaði eg."

Gestur svarar þessu einu: "Era sjá draumur minni."

Enn mælti Guðrún: "Sá er hinn þriðji draumur minn að eg þóttist hafa gullhring á hendi og þóttist eg eiga hringinn og þótti mér bættur skaðinn. Kom mér það í hug að eg mundi þessa hrings lengur njóta en hins fyrra. En eigi þótti mér þessi gripur því betur sama sem gull er dýrra en silfur. Síðan þóttist eg falla og vilja styðja mig með hendinni en gullhringurinn mætti steini nokkurum og stökk í tvo hluti og þótti mér dreyra úr hlutunum. Það þótti mér líkara harmi en skaða er eg þóttist þá bera eftir. Kom mér þá í hug að brestur hafði verið á hringnum og þá er eg hugði að brotunum eftir þá þóttist eg sjá fleiri brestina á og þótti mér þó sem heill mundi ef eg hefði betur til gætt og var eigi þessi draumur lengri."

Gestur svarar: "Ekki fara í þurrð draumarnir."

Og enn mælti Guðrún: "Sá var hinn fjórði draumur minn að eg þóttist hafa hjálm á höfði af gulli og mjög gimsteinum settan. Eg þóttist eiga þá gersemi. En það þótti mér helst að að hann var nokkurs til þungur því að eg fékk varla valdið og bar eg hallt höfuðið og gaf eg þó hjálminum enga sök á því og ætlaði ekki að lóga honum. En þó steyptist hann af höfði mér og út á Hvammsfjörð og eftir það vaknaði eg. Eru þér nú sagðir draumarnir allir."

Gestur svarar: "Glöggt fæ eg séð hvað draumar þessir eru en mjög mun þér samstaft þykja því að eg mun næsta einn veg alla ráða. Bændur muntu eiga fjóra og væntir mig þá er þú ert hinum fyrsta gift að það sé þér ekki girndaráð. Þar er þú þóttist hafa mikinn fald á höfði og þótti þér illa sama, þar muntu lítið unna honum. Og þar er þú tókst af höfði þér faldinn og kastaðir á vatnið, þar muntu ganga frá honum. Því kalla menn á sæ kastað er maður lætur eigu sína og tekur ekki í mót."

Og enn mælti Gestur: "Sá var draumur þinn annar að þú þóttist hafa silfurhring á hendi. Þar muntu vera gift öðrum manni ágætum. Þeim muntu unna mikið og njóta skamma stund. Kemur mér ekki það að óvörum þótt þú missir hans með drukknun og eigi geri eg þann draum lengra. Sá var hinn þriðji draumur þinn að þú þóttist hafa gullhring á hendi. Þar muntu eiga hinn þriðja bónda. Ekki mun sá því meira verður sem þér þótti sá málmurinn torugætari og dýrri en nær er það mínu hugboði að í það mund muni orðið siðaskipti og muni sá þinn bóndi hafa tekið við þeim sið er vér hyggjum að miklu sé betri og háleitari. En þar er þér þótti hringurinn í sundur stökkva, nokkuð af þinni vangeymslu, og sást blóð koma úr hlutunum, þá mun sá þinn bóndi vera veginn. Muntu þá þykjast glöggst sjá þá þverbresti er á þeim ráðahag hafa verið."

Og enn mælti Gestur: "Sjá er hinn fjórði draumur þinn að þú þóttist hafa hjálm á höfði af gulli og settan gimsteinum og varð þér þungbær. Þar munt þú eiga hinn fjórða bónda. Sá mun vera mestur höfðingi og mun bera heldur ægishjálm yfir þér. Og þar er þér þótti hann steypast út á Hvammsfjörð þá mun hann þann sama fjörð hitta á efstum stundum síns lífs. Geri eg nú þenna draum ekki lengra."

Guðrúnu setti dreyrrauða meðan draumarnir voru ráðnir en engi hafði hún orð um fyrr en Gestur lauk sínu máli.

Þá segir Guðrún: "Hitta mundir þú fegri spár í þessu máli ef svo væri í hendur þér búið af mér en haf þó þökk fyrir er þú hefir ráðið draumana. En mikið er til að hyggja ef þetta allt skal eftir ganga."

Guðrún bauð þá Gesti af nýju að hann skyldi þar dveljast um daginn, kvað þá Ósvífur margt spaklegt tala mundu.

Hann svarar: "Ríða mun eg sem eg hefi á kveðið en segja skaltu föður þínum kveðju mína og seg honum þau mín orð að koma mun þar að skemmra mun í milli bústaða okkarra Ósvífurs og mun okkur þá hægt um tal ef okkur er þá leyft að talast við."

Síðan fór Guðrún heim en Gestur reið í brott og mætti heimamanni Ólafs við túngarð. Hann bauð Gesti í Hjarðarholt að orðsending Ólafs. Gestur kvaðst vilja finna Ólaf um daginn en gista í Þykkvaskógi. Snýr húskarl þegar heim og segir Ólafi svo skapað. Ólafur lét taka hesta og reið hann í mót Gesti við nokkura menn. Þeir Gestur finnast inn við Ljá. Ólafur fagnar honum vel og bauð honum til sín með allan flokk sinn. Gestur þakkar honum boðið og kvaðst ríða mundu á bæinn og sjá híbýli hans en gista Ármóð. Gestur dvaldist litla hríð og sá þó víða á bæinn og lét vel yfir, kvað eigi þar fé til sparað bæjar þess. Ólafur reið á leið með Gesti til Laxár. Þeir fóstbræður höfðu verið á sundi um daginn. Réðu þeir Ólafssynir mest fyrir þeirri skemmtun. Margir voru ungir menn af öðrum bæjum á sundi. Þá hlupu þeir Kjartan og Bolli af sundi er flokkurinn reið að, voru þá mjög klæddir er þeir Gestur og Ólafur riðu að. Gestur leit á þessa hina ungu menn um stund og sagði Ólafi hvar Kjartan sat og svo B olli og þá rétti Gestur spjótshalann að sérhverjum þeirra Ólafssona og nefndi þá alla er þar voru. En margir voru þar aðrir menn allvænlegir, þeir er þá voru af sundi komnir og sátu á árbakkanum hjá þeim Kjartani. Ekki kvaðst Gestur þekkja ættarbragð Ólafs á þeim mönnum.

Þá mælti Ólafur: "Eigi má ofsögum segja frá vitsmunum þínum Gestur er þú kennir óséna menn og það vil eg að þú segir mér hver þeirra hinna ungu manna mun mestur verða fyrir sér."

Gestur svarar: "Það mun mjög ganga eftir ástríki þínu að um Kjartan mun þykja mest vert meðan hann er uppi."

Síðan keyrði Gestur hestinn og reið í brott.

En nokkuru síðar ríður Þórður hinn lági son hans hjá honum og mælti: "Hvað ber nú þess við faðir minn er þér hrynja tár?"

Gestur svarar: "Þarfleysa er að segja það en eigi nenni eg að þegja yfir því er á þínum dögum mun fram koma. En ekki kemur mér að óvörum þótt Bolli standi yfir höfuðsvörðum Kjartans og hann vinni sér þá og höfuðbana og er þetta illt að vita um svo mikla ágætismenn."

Síðan riðu þeir til þings og er kyrrt þingið.
Leturstærð
Valinn leshraði: 250 orð á mínútu

Laxdæla Saga - 33. kafli: 1.493 orð
Tími : 6 mínútur

Laxdæla Saga: 62.571 orð
Lesin: 20.601 orð
Tími eftir: 168 mínútur
Hér er lýsing á kortinu...