Laxdæla Saga - 44. kafli

Lestrarhraði
(orð á mínútu)
Þeir Kjartan og Kálfur sigla nú í haf. Þeim byrjaði vel og voru litla hríð úti, tóku Hvítá í Borgarfirði. Þessi tíðindi spyrjast víða, útkoma Kjartans. Þetta fréttir Ólafur faðir hans og aðrir frændur hans og verða fegnir mjög. Ríður Ólafur þegar vestan úr Dölum og suður til Borgarfjarðar. Verður þar mikill fagnafundur með þeim feðgum. Býður Ólafur Kjartani til sín við svo marga menn sem hann vildi. Kjartan tók því vel, kvaðst sér þá vist ætla að hafa. Ríður Ólafur nú heim í Hjarðarholt en Kjartan er að skipi um sumarið. Hann spyr nú gjaforð Guðrúnar og brá sér ekki við það en mörgum var á því kvíðustaður áður.

Guðmundur Sölmundarson mágur Kjartans og Þuríður systir hans komu til skips. Kjartan fagnar þeim vel. Ásgeir æðikollur kom og til skips að finna Kálf son sinn. Þar var í ferð með honum Hrefna dóttir hans. Hún var hin fríðasta kona. Kjartan bauð Þuríði systur sinni að hafa slíkt af varningi sem hún vildi. Slíkt hið sama mælti Kálfur við Hrefnu. Kálfur lýkur nú upp einni mikilli kistu og bað þær þar til ganga.

Um daginn gerði á hvasst veður og hljópu þeir Kjartan þá út að festa skip sitt og er þeir höfðu því lokið ganga þeir heim til búðanna. Gengur Kálfur inn fyrri í búðina. Þær Þuríður og Hrefna hafa þá mjög borið úr kistunni. Þá þrífur Hrefna upp moturinn og rekur í sundur. Tala þær um að það sé hin mesta gersemi. Þá segir Hrefna að hún vill falda sér við moturinn. Þuríður kvað það ráðlegt og nú gerir Hrefna svo. Kálfur sér þetta og lét eigi hafa vel til tekist og bað hana taka ofan sem skjótast "því að sjá einn er svo hlutur að við Kjartan eigum eigi báðir saman."

Og er þau tala þetta þá kemur Kjartan inn í búðina. Hann hafði heyrt tal þeirra og tók undir þegar og kvað ekki saka. Hrefna sat þá enn með faldinum.

Kjartan hyggur að henni vandlega og mælti: "Vel þykir mér þér sama moturinn Hrefna," segir hann, "ætla eg og að það sé best fallið að eg eigi allt saman, motur og mey."

Þá svarar Hrefna: "Það munu menn ætla að þú munir eigi kvongast vilja bráðendis en geta þá konu er þú biður."

Kjartan segir að eigi mundi mikið undir hverja hann ætti en lést engrar skyldu lengi vonbiðill vera.

Hrefna tekur nú ofan faldinn og selur Kjartani moturinn og hann varðveitir.

Guðmundur og þau Þuríður buðu Kjartani norður þangað til sín til kynnisvistar um veturinn. Kjartan hét ferð sinni. Kálfur Ásgeirsson réðst norður með föður sínum. Skipta þeir Kjartan nú félagi sínu og fór það allt í makindi og vinskap.

Kjartan ríður og frá skipi og vestur í Dali. Þeir voru tólf saman. Kemur Kjartan heim í Hjarðarholt og verða allir menn honum fegnir. Kjartan lætur flytja fé sitt sunnan frá skipi um haustið. Þessir tólf menn voru allir í Hjarðarholti um veturinn.

Þeir Ólafur og Ósvífur héldu hinum sama hætti um heimboð. Skyldu sitt haust hvorir aðra heim sækja. Þetta haust skyldi vera boð að Laugum en Ólafur til sækja og þeir Hjarðhyltingar.

Guðrún mælti nú við Bolla að henni þótti hann eigi hafa sér allt satt til sagt um útkomu Kjartans. Bolli kvaðst það sagt hafa sem hann vissi þar af sannast. Guðrún talaði fátt til þessa efnis en það var auðfynt að henni líkaði illa því að það ætluðu flestir menn að henni væri enn mikil eftirsjá að um Kjartan þó að hún hyldi yfir.

Líður nú þar til er haustboðið skyldi vera að Laugum. Ólafur bjóst til ferðar og bað Kjartan fara með sér. Kjartan kvaðst mundu heima vera að gæta bús. Ólafur bað hann eigi það gera að styggjast við frændur sína: "Minnstu á það Kjartan að þú hefir engum manni jafn mikið unnt sem Bolla fóstbróður þínum. Er það minn vilji að þú farir. Mun og brátt semjast með ykkur frændum ef þið finnist sjálfir."

Kjartan gerir svo sem faðir hans beiðist og tekur hann nú upp skarlatsklæði sín þau er Ólafur konungur gaf honum að skilnaði og bjó sig við skart. Hann gyrti sig með sverðinu konungsnaut. Hann hafði á höfði hjálm gullroðinn og skjöld á hlið rauðan og dreginn á með gulli krossinn helgi. Hann hafði í hendi spjót og gullrekinn falurinn á. Allir menn hans voru í litklæðum. Þeir voru alls á þriðja tigi manna. Þeir ríða nú heiman úr Hjarðarholti og fóru þar til er þeir komu til Lauga. Var þar mikið fjölmenni fyrir.
Leturstærð
Valinn leshraði: 250 orð á mínútu

Laxdæla Saga - 44. kafli: 749 orð
Tími : 3 mínútur

Laxdæla Saga: 62.571 orð
Lesin: 32.209 orð
Tími eftir: 122 mínútur
Hér er lýsing á kortinu...