Laxdæla Saga - 7. kafli

Lestrarhraði
(orð á mínútu)
Ólafur feilan var yngstur barna Þorsteins. Hann var mikill maður og sterkur, fríður sýnum og atgervimaður hinn mesti. Hann mat Unnur umfram alla menn og lýsti því fyrir mönnum að hún ætlaði Ólafi allar eignir eftir sinn dag í Hvammi. Unnur gerðist þá mjög ellimóð.

Hún kallar til sín Ólaf feilan og mælti: "Það hefir mér komið í hug frændi að þú munir staðfesta ráð þitt og kvænast."

Ólafur tók því vel og kveðst hennar forsjá hlíta mundu um það mál.

Unnur mælti: "Svo hefi eg helst ætlað að boð þitt muni vera að áliðnu sumri þessu því að þá er auðveldast að afla allra tilfanga því að það er nær minni ætlan að vinir vorir muni þá mjög fjölmenna hingað því að eg ætla þessa veislu síðast að búa."

Ólafur svarar: "Þetta er vel mælt. En þeirrar einnar konu ætla eg að fá að sú ræni þig hvorki fé né ráðum."

Það sama haust fékk Ólafur feilan Álfdísar. Þeirra boð var í Hvammi. Unnur hafði mikinn fékostnað fyrir veislunni því að hún lét víða bjóða tignum mönnum úr öðrum sveitum. Hún bauð Birni bróður sínum og Helga bróður sínum bjólan. Komu þeir fjölmennir. Þar kom Dala-Kollur mágur hennar og Hörður úr Hörðadal og margt annað stórmenni. Boðið var allfjölmennt og kom þó hvergi nær svo margt manna sem Unnur hafði boðið fyrir því að Eyfirðingar áttu farveg langan.

Elli sótti þá fast að Unni svo að hún reis ekki upp fyrir miðjan dag en hún lagðist snemma niður. Engum manni leyfði hún að sækja ráð að sér þess á milli er hún fór að sofa á kveldið og hins er hún var klædd. Reiðulega svarar hún ef nokkur spurði að mætti hennar.

Þann dag svaf Unnur í lengra lagi en þó var hún á fótum er boðsmenn komu og gekk á mót þeim og fagnaði frændum sínum og vinum með sæmd, kvað þá ástsamlega gert hafa er þeir höfðu sótt þangað langan veg, "nefni eg til þess Björn og Helga og öllum vil eg yður þakka er hér eruð komnir."

Síðan gekk Unnur inn í skála og sveit mikil með henni. Og er skálinn var alskipaður fannst mönnum mikið um hversu veisla sú var sköruleg.

Þá mælti Unnur: "Björn kveð eg að þessu bróður minn og Helga og aðra frændur vora og vini: Bólstað þenna með slíkum búnaði sem nú megið þér sjá sel eg í hendur Ólafi frænda mínum til eignar og forráða."

Eftir það stóð Unnur upp og kvaðst ganga mundu til þeirrar skemmu sem hún var vön að sofa í, bað að það skyldi hver hafa að skemmtan sem þá væri næst skapi en mungát skyldi skemmta alþýðunni. Svo segja menn að Unnur hafi bæði verið há og þrekleg. Hún gekk hart utar eftir skálanum. Fundust mönnum orð um að konan var enn virðuleg. Drukku menn um kveldið þangað til að mönnum þótti mál að sofa.

En um daginn eftir gekk Ólafur feilan til svefnstofu Unnar frændkonu sinnar. Og er hann kom í stofuna sat Unnur upp við hægindin. Hún var þá önduð. Gekk Ólafur eftir það í skálann og sagði tíðindi þessi. Þótti mönnum mikils um vert hversu Unnur hafði haldið virðingu sinni til dauðadags. Var nú drukkið allt saman, brullaup Ólafs og erfi Unnar. Og hinn síðasta dag boðsins var Unnur flutt til haugs þess er henni var búinn. Hún var lögð í skip í hauginum og mikið fé var í haug lagt með henni. Var eftir það aftur kastaður haugurinn.

Ólafur feilan tók þá við búi í Hvammi og allri fjárvarðveislu að ráði þeirra frænda sinna er hann höfðu heim sótt. En er veisluna þrýtur gefur Ólafur stórmannlegar gjafir þeim mönnum er þar voru mest verðir áður á brott fóru.

Ólafur gerðist ríkur maður og höfðingi mikill. Hann bjó í Hvammi til elli. Börn þeirra Ólafs og Álfdísar voru Þórður gellir er átti Hróðnýju dóttur Miðfjarðar-Skeggja. Þeirra synir voru Eyjólfur grái, Þórarinn fylsenni, Þorkell kuggi. Dóttir Ólafs feilans var Þóra er átti Þorsteinn þorskabítur son Þórólfs Mostrarskeggs. Þeirra synir voru Börkur hinn digri og Þorgrímur faðir Snorra goða. Helga hét önnur dóttir Ólafs. Hana átti Gunnar Hlífarson. Þeirra dóttir var Jófríður er átti Þóroddur son Tungu-Odds en síðan Þorsteinn Egilsson. Þórunn hét enn dóttir hans. Hana átti Hersteinn son Þorkels Blund-Ketilssonar. Þórdís hét hin þriðja dóttir Ólafs. Hana átti Þórarinn Ragabróðir lögsögumaður.

Í þenna tíma er Ólafur bjó í Hvammi tekur Dala-Kollur mágur hans sótt og andaðist.

Höskuldur son Kolls var á ungum aldri er faðir hans andaðist. Hann var fyrr fullkominn að hyggju en vetratölu. Höskuldur var vænn maður og gervilegur. Hann tók við föðurleifð sinni og búi. Er sá bær við hann kenndur er Kollur hafði búið á. Hann var kallaður síðan á Höskuldsstöðum. Brátt varð Höskuldur vinsæll í búi sínu því að margar stoðar runnu undir, bæði frændur og vinir er Kollur faðir hans hafði sér aflað.

En Þorgerður Þorsteinsdóttir móðir Höskulds var þá enn ung kona og hin vænsta. Hún nam eigi yndi á Íslandi eftir dauða Kolls. Lýsir hún því fyrir Höskuldi syni sínum að hún vill fara utan með fjárhlut þann sem hún hlaut. Höskuldur kvaðst það mikið þykja ef þau skulu skilja en kvaðst þó eigi mundu þetta gera að móti henni heldur en annað.

Síðan kaupir Höskuldur skip hálft til handa móður sinni er uppi stóð í Dögurðarnesi. Réðst Þorgerður þar til skips með miklum fjárhlutum. En eftir það siglir Þorgerður á haf og verður skip það vel reiðfara og kemur við Noreg.

Þorgerður átti í Noregi mikið ætterni og marga göfga frændur. Þeir fögnuðu henni vel og buðu henni alla kosti þá sem hún vildi með þeim þiggja. Hún Þorgerður tók því vel, segir að það er hennar ætlan að staðfestast þar í landi.

Þorgerður var eigi lengi ekkja áður maður varð til að biðja hennar. Sá er nefndur Herjólfur. Hann var lendur maður að virðingu, auðigur og mikils virður. Herjólfur var mikill maður og sterkur. Ekki var hann fríður maður sýnum og þó hinn skörulegsti í yfirbragði. Allra manna var hann best vígur.

Og er að þessum málum var setið átti Þorgerður svör að veita er hún var ekkja. Og með frænda sinna ráði veikst hún eigi undan þessum ráðahag og giftist Þorgerður Herjólfi og fer heim til bús með honum. Takast með þeim góðar ástir. Sýnir Þorgerður það brátt af sér að hún er hinn mesti skörungur. Þykir ráðahagur hans nú miklu betri en áður og virðulegri er hann hefir fengið slíkrar konu sem Þorgerður var.
Leturstærð
Valinn leshraði: 250 orð á mínútu

Laxdæla Saga - 7. kafli: 1.074 orð
Tími : 5 mínútur

Laxdæla Saga: 62.571 orð
Lesin: 1.665 orð
Tími eftir: 244 mínútur
Hér er lýsing á kortinu...