Þau Herjólfur og Þorgerður höfðu eigi lengi ásamt verið áður þeim varð sonar auðið. Sá sveinn var vatni ausinn og nafn gefið og var kallaður Hrútur. Hann var snemmendis mikill og sterkur er hann óx upp. Var hann og hverjum manni betur í vexti, hár og herðibreiður, miðmjór og limaður vel með höndum og fótum. Hrútur var allra manna fríðastur sýnum eftir því sem verið höfðu þeir Þorsteinn móðurfaðir hans eða Ketill flatnefur. Hinn mesti var hann atgervimaður fyrir allra hluta sakir.
Herjólfur tók sótt og andaðist. Það þótti mönnum mikill skaði. Eftir það fýstist Þorgerður til Íslands og vildi vitja Höskulds sonar síns því að hún unni honum um alla menn fram en Hrútur var eftir með frændum sínum vel settur.
Þorgerður bjó ferð sína til Íslands og sækir heim Höskuld son sinn í Laxárdal. Hann tók sem hann kunni best við móður sinni. Átti hún auð fjár og var með Höskuldi til dauðadags. Nokkurum vetrum síðar tók Þorgerður banasótt og andaðist og var hún í haug sett en Höskuldur tók fé allt en Hrútur bróðir hans átti hálft.
Leturstærð
Valinn leshraði: 250 orð á mínútu
Laxdæla Saga - 8. kafli: 180 orð
Tími : 1 mínúta
Laxdæla Saga: 62.571 orð
Lesin: 2.739 orð
Tími eftir: 240 mínútur