Laxdæla Saga - 9. kafli

Lestrarhraði
(orð á mínútu)
Í þenna tíma réð Noregi Hákon Aðalsteinsfóstri. Höskuldur var hirðmaður hans. Hann var jafnan sinn vetur hvort með Hákoni konungi eða að búi sínu. Var hann nafnfrægur maður bæði í Noregi og á Íslandi.

Björn hét maður. Hann bjó í Bjarnarfirði og nam þar land. Við hann er kenndur fjörðurinn. Sá fjörður skerst í land norður frá Steingrímsfirði og gengur þar fram háls í milli. Björn var stórættaður maður og auðigur að fé. Ljúfa hét kona hans. Þeirra dóttir var Jórunn. Hún var væn kona og ofláti mikill. Hún var og skörungur mikill í vitsmunum. Sá þótti þá kostur bestur í öllum Vestfjörðum.

Af þessi konu hefir Höskuldur fréttir og það með að Björn var bestur bóndi á öllum Ströndum. Höskuldur reið heiman með tíunda mann og sækir heim Björn bónda í Bjarnarfjörð. Höskuldur fékk þar góðar viðtökur því að Björn kunni góð skil á honum. Síðan vekur Höskuldur bónorð en Björn svarar því vel og kvaðst það hyggja að dóttir hans mundi eigi vera betur gift en veik þó til hennar ráða.

En er þetta mál var við Jórunni rætt þá svarar hún á þá leið: "Þann einn spurdaga höfum vér til þín Höskuldur að vér viljum þessu vel svara því að vér hyggjum að fyrir þeirri konu sé vel séð er þér er gift en þó mun faðir minn mestu af ráða því að eg mun því samþykkjast hér um sem hann vill."

En hvort sem að þessum málum var setið lengur eða skemur þá var það af ráðið að Jórunn var föstnuð Höskuldi með miklu fé. Skyldi brullaup það vera á Höskuldsstöðum.

Ríður Höskuldur nú í brott við svo búið og heim til bús síns og er nú heima til þess er boð þetta skyldi vera. Sækir Björn norðan til boðsins með fríðu föruneyti. Höskuldur hefir og marga fyrirboðsmenn, bæði vini sína og frændur, og er veisla þessi hin skörulegasta. En er veisluna þraut þá fer hver heim til sinna heimkynna með góðri vináttu og sæmilegum gjöfum.

Jórunn Bjarnardóttir situr eftir á Höskuldsstöðum og tekur við búsumsýslu með Höskuldi. Var það brátt auðsætt á hennar högum að hún mundi vera vitur og vel að sér og margt vel kunnandi og heldur skapstór jafnan. Vel var um samfarar þeirra Höskulds og ekki margt hversdaglega.

Höskuldur gerist nú höfðingi mikill. Hann var ríkur og kappsamur og skortir eigi fé. Þótti hann í engan stað minni fyrir sér en Kollur faðir hans. Höskuldur og Jórunn höfðu eigi lengi ásamt verið áður þeim varð barna auðið. Son þeirra var nefndur Þorleikur. Hann var elstur barna þeirra. Annar hét Bárður. Dóttir þeirra hét Hallgerður er síðan var kölluð langbrók. Önnur dóttir þeirra hét Þuríður. Öll voru börn þeirra efnileg. Þorleikur var mikill maður og sterkur og hinn sýnilegsti, fálátur og óþýður. Þótti mönnum sá svipur á um hans skaplyndi sem hann mundi verða engi jafnaðarmaður. Höskuldur sagði það jafnan að hann mundi mjög líkjast í ætt þeirra Strandamanna. Bárður var skörulegur maður sýnum og vel sterkur. Það bragð hafði hann á sér sem hann mundi líkari verða föðurfrændum sínum. Bárður var hægur maður í uppvexti sínum og vinsæll maður. Höskuldur unni honum mest allra barna sinna.

Stóð nú ráðahagur Höskulds með miklum blóma og virðingu.

Þenna tíma gifti Höskuldur Gró systur sína Véleifi gamla. Þeirra son var Hólmgöngu-Bersi.
Leturstærð
Valinn leshraði: 250 orð á mínútu

Laxdæla Saga - 9. kafli: 547 orð
Tími : 3 mínútur

Laxdæla Saga: 62.571 orð
Lesin: 2.919 orð
Tími eftir: 239 mínútur
Hér er lýsing á kortinu...