Maður er nefndur Ketill og var kallaður raumur. Hann var ríkur maður. Hann bjó á þeim bæ er í Raumsdal heitir. Það er norðarlega í Noregi. Hann var son Orms skeljamola Hrossbjarnarsonar, Jötun-Bjarnarsonar norðan úr Noregi. Þá voru fylkiskonungar í Noregi er þessi saga gerðist. Ketill var ágætur maður og vel auðigur að fé, rammur að afli og hinn röskvasti í öllum mannraunum og hafði verið í hernaði hinn fyrra hlut ævi sinnar en settist nú að búm sínum sem aldur færðist yfir hann. Hann átti Mjöll dóttur Ánar bogsveigis. Ketill átti son með henni. Hann er Þorsteinn nefndur. Hann var vænn maður sjónum. Engi var hann ágætismaður á vöxt eða afl. Hann var átján vetra þá er þetta var tíðinda en þó var athæfi Þorsteins og allur færleikur með hinu betra meðallagi að því sem þá voru ungir menn.
Í þenna tíma þóttust menn þess verða varir að úthlaupsmenn eða illvirkjar mundu vera á leið þeirri er liggur á milli Jamtalands og Raumsdals því að engir komu aftur þeir er fóru og þótt saman væru fimmtán eða tuttugu þá höfðu þó engir aftur komið og þóttust menn því vita að frágerðamaður mundi úti liggja. Menn Ketils bónda urðu minnst fyrir þessum ófriði, bæði manndrápum og fésköðum, og gerðu menn mikið orð á til ámælis að sá væri mikill vanskörungur er yfirmaður var þess héraðs að engar aðgerðir skyldu í mót koma slíkum óhæfum og kváðu Ketil nú mjög eldast en hann gaf sér fátt um en þótti þó eftir því sem þeir sögðu.