Vatnsdæla saga - 14. kafli

Lestrarhraði
(orð á mínútu)
Nú lætur Ingimundur í haf þegar hann var búinn með sitt föruneyti og áttu góða útivist og komu út vestur fyrir Ísland og sigldu inn á Borgarfjörð í Leiruvog. Brátt spurðist skipkoman.

Grímur reið til skips og fagnaði vel fóstbróður sínum og kvaðst mikla þökk kunna hans þarkomu "og kemur hér nú að því sem mælt er að torsótt er að forðast forlögin."

Ingimundur kvað það satt vera "og verður eigi við gert fóstbróðir."

Grímur mælti: "Það er mitt boð að þú farir heim til mín og lið þitt allt og haf allt það af mínu fé er þú vilt, hvort það eru lönd eða aðrir aurar."

Ingimundur þakkar boðið og kvaðst mundu vera hjá honum í vetur "en þar sem eg hefi breytt ráðahag mínum til þessar ferðar þá mun eg þangað á leita sem mér var á vísað til landnáma, af tómi."

Ingimundur fór á Hvanneyri, kona hans og synir en lið hans var þar allt umhverfis. Grímur veitti þeim stórmannlega og lét ekki undan dregið þeim til sæmdar um veturinn. En er voraði þá lét Grímur enn sem fyrr innan handar allt það er hann átti um land eða aðra hluti.

Ingimundur kvað honum fara allt sem best sem von var að "en norður mun eg halda en um flutning og farargreiða verðum vér þín að njóta."

Grímur kvað svo vera skyldu. Slíkt sama gerði og Hrómundur því að allir fögnuðu Ingimundi ágæta vel.

Hann fór norður um sumarið í landaleitun og fór upp Norðurárdal og kom ofan í eyðifjörð einn. Og um daginn er þeir fóru með þeim firði þá hlupu úr fjalli að þeim tveir sauðir. Það voru hrútar.

Þá mælti Ingimundur: "Það mun vel fallið að þessi fjörður heiti Hrútafjörður."

Síðan komu þeir í fjörðinn og gerði þá þoku mikla. Þeir komu á eyri eina. Fundu þeir þar borð stórt nýrekið.

Þá mælti Ingimundur: "Það mun ætlað að vér skulum hér örnefni gefa og mun það haldast og köllum eyrina Borðeyri."

Þá leið á sumarið því að mart var að færa en farið síð og komu nær vetri í dal þann er allur var víði vaxinn.

Þá mælti Ingimundur: "Sjá dalur er mjög víði vaxinn. Köllum hann Víðidal og hér ætla eg líkast til vetursetu."

Þeir voru þar vetur annan og gerðu sér þar skála er nú heitir Ingimundarhóll.

Þá mælti Ingimundur: "Nú mun eigi vera vistin jafnglöð sem í Noregi en eigi þarf nú að minnast á það því að margir góðir drengir eru hér enn saman komnir til gamans og gleðjumst enn eftir tilföngum."

Allir tóku vel undir. Þar voru þeir um veturinn og höfðu leika og alls kyns gleði.
Leturstærð
Valinn leshraði: 250 orð á mínútu

Vatnsdæla saga - 14. kafli: 438 orð
Tími : 2 mínútur

Vatnsdæla saga: 29.308 orð
Lesin: 8.060 orð
Tími eftir: 85 mínútur
Hér er lýsing á kortinu...