Það var eitt sinn að Ketill mælti við Þorstein son sinn: "Önnur gerist nú atferð ungra manna en þá er eg var ungur. Þá girntust menn á nokkur framaverk, annað tveggja að ráðast í hernað eða afla fjár og sóma með einhverjum atferðum þeim er nokkur mannhætta var í. En nú vilja ungir menn gerast heimaelskir og sitja við bakelda og kýla vömb sína á miði og mungáti og þverr því karlmennska og harðfengi en eg hefi því fjár aflað og virðingar að eg þorði að leggja mig í hættu og hörð einvígi. Nú hefir þú Þorsteinn lítinn kraft hlotið afls og vaxtar. Er það og líkast að þú fylgir þar eftir þinni athöfn og fari þar eljun eftir og öll tilræði því að eigi viltu víkjast eftir atferðum hinna fyrri frænda þinna og sýnir þig eftir því sem þú ert ásýndum og mun hugur fylgja vexti. Það var ríkra manna siður, konunga eða jarla, vorra jafningja, að þeir lágu í hernaði og öfluðu sér fjár og frama og skyldi það fé eigi til arfs telja, né sonur eftir föður taka, heldur skyldi það fé í haug leggja hjá sjálfum höfðingjum. Nú þótt synir þeirra tækju jarðir máttu þeir eigi haldast í sínum kostum þótt virðing félli til nema þeir legðu sig og sína menn í hættu og herskap, aflandi sér svo fjár og frægðar hver eftir annan, og stíga svo í fótspor frændum sínum. Nú ætla eg að þér séu ókunn hermannalög og mætti eg þau kenna þér. Ertu nú og svo aldurs kominn að þér væri mál að reyna þig og vita hvað hamingjan vill unna þér."
Þorsteinn svarar: "Eggjað væri nú ef nokkuð tjóaði."
Hann stóð upp og gekk í burt og var hinn reiðasti.
Skógur mikill liggur á milli Raumsdals og Upplanda er almannavegur liggur yfir þótt nú heftist fyrir þeim meinvættum er menn hugðu úti liggja þótt enginn kynni frá að segja. Nú þótti sú framaferð mest að ráða hér bætur á.