Vatnsdæla saga - 3. kafli

Lestrarhraði
(orð á mínútu)
Það var litlu síðar en þeir feðgar höfðu við talast að Þorsteinn gekk út einn saman frá drykkju og hyggur það helst fyrir sér að hann mun treysta á hamingju föður síns og verða eigi fyrir atyrðum hans heldur vildi hann nú leggja sig í nokkura mannhættu. Hann tók hest sinn og reið einn saman til skógar þangað sem honum þótti helst von illvirkjanna þó að honum þætti lítil von framgangsins við slíkt ofurefli sem hann þóttist vita að fyrir mundi búa. Vildi hann nú og heldur leggja lífið á en fara að erindislausu.

Hann hefti hest sinn við skóginn og gekk síðan í hann og fann afstíg einn er lá af þjóðgötunni. Og sem hann hafði lengi gengið fann hann í skóginum hús mikið og vel gert. Þorsteinn þóttist vita að þetta herbergi mundi sá eiga er stígana hafði bannað, hvort sem þeir voru einn eða fleiri. Síðan gekk Þorsteinn inn í skálann og fann þar stórar kistur og mart til gæða. Þar var skíðahlaði mikill en annars vegar vara í sekkum og alls kyns varningur. Þar sá hann rekkju eina. Hún var miklu meiri en nokkur sæng er Þorsteinn hafði fyrr séð. Þótti honum sá ærið hár er þetta rúm var mátulegt. Rekkjan var vel tjölduð. Þar var og borð búið með hreinum dúkum og heiðurlegum krásum og hinum besta drykk. Ekki gerði Þorsteinn að þessum hlutum. Síðan leitaði hann sér undanbragðs að hann væri eigi þegar fyrir augum þeim er skálann byggði því að hann vildi fyrr vita hvert efni honum þætti í vera en þeir tækjust orðum eða sæjust. Hann fór síðan upp í milli sekkanna í vöruhlaðann og sat þar.

Síðan heyrði hann út dyn mikinn er á leið kveldið og síðan kom inn maður og leiddi eftir sér hest. Sjá maður var harðla mikill. Hvítur var hann á hár og féll það á herðar með fögrum lokkum. Þorsteini sýndist maðurinn vera hinn fríðasti. Síðan kveikti þessi maður upp eld fyrir sér en leiddi áður hest sinn til stalls. Hann setti munnlaug fyrir sig og þó sig og þerrði á hvítum dúk. Hann renndi og af verpli vænan drykk í stórt stéttarker og tók síðan til matar. Allt sýndist Þorsteini athæfi þessa manns merkilegt og mjög hæversklegt. Miklu var hann meiri maður en Ketill faðir hans og þótti hann, sem var, manna mestur.

Og er skálabúinn var mettur sat hann við eld og sá í og mælti: "Skipun er hér á orðin. Eldurinn er nú miður fölskaður en eg hugði. Hygg eg að hann hafi verið fyrir skömmu upp kveiktur og veit eg eigi hvað það veit og má vera að menn séu komnir og sitji um líf mitt og er það eigi fyrir sakleysi og skal eg fara og leita um húsið."

Síðan tók hann sér eldiskíð og leitaði og kom þar að sem vöruhlaðinn var. Svo var þar háttað að ganga mátti af hlaðanum og í einn stóran reykbera er á var skálanum. Og er spellvirkinn kannaði hlaðann var Þorsteinn úti og gat skálabúinn eigi hitt hann því að Þorsteini var annarra forlaga auðið en vera þar drepinn. Hinn leitaði þrisvar um húsið og fann ekki.

Þá mælti skálabúinn: "Kyrrt mun eg nú vera láta og er óvíst til hvers um dregur og má vera að það komi fram um mína hagi sem mælt er að illa gefast ill ráð."

Síðan gekk hann aftur til hvílunnar og tók af sér saxið. Svo sýndist Þorsteini sem það væri hin mesta gersemi og alllíklegt til bits og gerði sér það í hug að duga mundi ef hann næði saxinu. Honum kom nú og í hug eggjan föður síns að þrótt og djarfleik mundi til þurfa að vinna slíkt afrek eða önnur en frami og fagurlegir peningar mundu í móti koma og hann mundi þá þykja betur gengið hafa en sitja við eldstó móður sinnar. Þá kom honum og í hug að faðir hans segði hann eigi betra til vopns en dóttur eða aðra konu og meiri sæmd væri frændum að skarð væri í ætt þeirra en þar sem hann var. Slíkt hvatti Þorstein fram og leitaði hann sér þá færis að hann mætti einn hefna margra vanréttis en í öðru lagi þótti honum þó skaði mikill um manninn.

Síðan sofnar skálabúinn en Þorsteinn gerir tilraun með nokkuru harki hve fast hann svæfi. Hann vaknaði við og snerist á hlið. Og enn leið stund og gerði Þorsteinn tilraun aðra og vaknaði hann enn við og þó minnur. Hið þriðja sinn gekk Þorsteinn fram og drap mikið högg á rúmstokkinn og fann að þá var allt kyrrt um hann. Síðan kveikti Þorsteinn log og gekk að rekkjunni og vill vita ef hann væri á burtu. Þorsteinn sér að hann liggur þar og svaf í silkiskyrtu gullsaumaðri og horfði í loft upp. Þorsteinn brá þá saxinu og lagði fyrir brjóst hinum mikla manni og veitti honum mikið sár. Þessi brást við fast og þreif til Þorsteins og kippti honum upp í rúmið hjá sér en saxið stóð í sárinu en svo fast hafði Þorsteinn til lagið að oddurinn stóð í beðinn en þessi maður var fárrammur og lét þar standa saxið sem komið var en Þorsteinn lá í milli þilis og hans.

Hinn sári maður mælti: "Hver er sjá maður er mér hefir áverka veittan?"

Hann svarar: "Þorsteinn heiti eg og er eg son Ketils raums."

Maðurinn mælti: "Eg þóttist vita áður nafn þitt en þó þykist eg frá ykkur feðgum þessa hafa síst maklegur verið því að eg hefi ykkur lítið eða ekki mein gert. En nú varstu heldur til skjótur en eg heldur til seinn því að nú var eg á brott búinn að hverfa frá þessu óráði en á eg kost alls við þig hvort eg læt þig lifa eða deyja. Nú ef eg geri eftir verðleik og sem þú hefir til stefnt þá segði engi frá okkarri sameign. En eg ætla það nú ráðlegast að láta þig þiggja líf þitt og mætti mér verða að þér gagn ef svo vildi takast. Nú vil eg og segja þér nafn mitt. Eg heiti Jökull og er eg son Ingimundar jarls af Gautlandi. En eftir hætti ríkra manna sona aflaði eg mér fjár þótt heldur væri freklega að ort. En nú var eg búinn til burtferðar. Nú ef þér þykir nokkuð veitt í lífgjöf þinni þá far á fund föður míns en hitt þó fyrr að máli móður mína er Vigdís heitir og seg henni einni saman þenna atburð og ber henni ástsamlega kveðju mína og seg að hún komi þér í frið við jarl og fulla vingan með þeim hætti að hann gifti þér dóttur sína en systur mína er Þórdís heitir. Nú er hér gull er þú skalt bera til jarteina að eg sendi þig. Og þótt henni þyki mikill harmur sinn eftir mig þá vænti eg að hún virði meira ást og orðsending mína en tilgerning þinn. En mér segir svo hugur um að þú munir gæfumaður verða. Nú ef þér verður sona auðið eða þínum sonum þá láttu eigi nafn mitt niðri liggja og vænti eg mér þar gæða af og hefi eg það fyrir lífgjöfina."

Þorsteinn bað hann nú gera sem honum líkaði um lífgjöf við sig og aðra hluti og kvaðst þar einkis mundu um biðja.

Jökull kvað nú vera hans líf undir sér "og allmjög muntu eggjaður verið hafa þessa verks af föður þínum enda hafa mig nú að fullu bitið hans ráð og sé eg að þér líkar þótt við deyjum báðir en meiri forlaga mun þér auðið verða. Eigi eru þeir forustulausir er þú ert fyrirmaður, sakir áræðis og karlmennsku, og betur er þá séð fyrir kosti systur minnar að þú fáir hennar en víkingar fái hana að herfangi. Nú þótt þér sé til boðið í Gautlandi þá far þú heldur til eigna þinna í Raumsdal því að eigi munu föðurfrændur mínir þér ríkis unna eftir hans dag en verða má að hörmungarvíg liggi í kyni yðru og munu menn missa saklausra frænda sinna. Nú seg eigi til nafns míns alþýðu nema föður þínum og frændum mínum því að ævin hefir ófögur verið enda er nú goldið að verðugu og fer svo flestum ranglætismönnum. Nú tak hér gullið og haf til jarteina en kipp í braut saxinu og mun þá eigi langt verða okkað viðtal."

Síðan kippti Þorsteinn í burt saxinu en Jökull dó.
Leturstærð
Valinn leshraði: 250 orð á mínútu

Vatnsdæla saga - 3. kafli: 1.386 orð
Tími : 6 mínútur

Vatnsdæla saga: 29.308 orð
Lesin: 581 orð
Tími eftir: 115 mínútur
Hér er lýsing á kortinu...