Vatnsdæla saga - 7. kafli

Lestrarhraði
(orð á mínútu)
Ingimundur jarl andaðist litlu síðar en Þorsteinn fór heim til eigna sinna og tók við föðurleifð sinni. Hann var í hernaði á sumrum og aflaði fjár og virðingar en sat heima að búm sínum að vetrum og þótti hinn mesti sómamaður.

Ingjaldur hét maður er bjó í Hefni, ey norður á Hálogalandi. Hann var bóndi hraustur og var í hernaði á sumrum en sat um kyrrt á vetrum. Það var vingott með þeim Ingjaldi og Þorsteini. Ingjaldur var góður búþegn og mikilhæfur maður.

Þorsteinn átti son við konu sinni og er sveinninn var fæddur var hann borinn að föður sínum.

Þorsteinn leit á hann og mælti: "Sjá sveinn skal heita Ingimundur eftir móðurföður sínum og vænti eg honum hamingju sakir nafns."

Sveinninn var snemma með miklum þroska.

Þeir Þorsteinn og Ingjaldur áttu vinaboð saman á hverju hausti þá er þeir komu úr víkingu. Og eitt sinn er Ingjaldur var að veislu hjá Þorsteini þá rann sveinninn Ingimundur að Ingjaldi.

Hann mælti þá: "Hamingjusamlegur sveinn ertu og fyrir vináttu okkar föður þíns þá vil eg bjóða þér heim til mín til slíks fósturs sem eg kann að veita þér best."

Þorsteinn kvaðst þiggja mundu boðið og fór sveinninn heim með Ingjaldi. Grímur hét son Ingjalds en annar Hrómundur. Þeir voru vænlegir menn og gerðust fóstbræður Ingimundar. Þeir Þorsteinn og Ingjaldur héldu uppteknum hætti um heimboð og veislugerðir og þóttust menn hafa iðgjöld Ketils þar sem Þorsteinn var þótt hann væri maður minni vexti eða eigi svo sterkur sem hann var.

Það var eitt sinn þá er Ingimundur hitti föður sinn að hann mælti: "Gott fóstur hefir þú mér fengið en nú vil eg að þú fáir mér skip og vil eg herja í sumar eftir hætti hinna fyrri frænda minna. Er eg nú svo aldurs kominn að eg má vel slíkt starfa og vil eg kosta til þessar ferðar sjálfur og þú en eigi fóstri minn en veit eg að eg má hafa af honum slíkt er eg vil."

Þorsteinn kvað þessa vel leitað "og mun eg fá þér eitt skip."

Ingimundur kvað eigi mega minna við hlíta og fór heim og segir fóstra sínum.

Ingjaldur svarar: "Það er gott tillag en eg skal fá Grími annað skip og skuluð þið fara báðir samt með forsjá og athygli. Varist og að leggja þar að sem ofurefli er fyrir. Er og það meiri virðing að aukast af litlum efnum en að hefjast hátt og setjast með lægingu."

Síðan réðust þeir í hernað Ingimundur og Grímur og fóru vel með víkingskap sínum, lögðu eigi að þar að eigi sætti ráði og fengu fimm skip að hausti og voru öll vel búin að vopnum og mönnum og öllum herskap. Það sýndist brátt að Ingimundur var djarfur í framgöngu og góður drengur, traustur til vopns og harðfengi, vinhollur og góðgjarn, fastnæmur við vini sína og svo mátti höfðingja best farið vera sem honum var í fornum sið.

Hann lýsir yfir því fyrir Grími að hann ætlaði heim til föður síns að hausti og vera þar um veturinn nokkura stund með tuttugu menn. Og svo gerðu þeir.

Það fannst á heldur að Þorsteini þótti nokkuð svo vita ofsa þarvist þeirra og eigi með fullri forsjá.

Ingimundur svarar: "Eigi líst mér svo og eigi áttu svo að mæla og sannlegra er hitt að þú beiðist slíks í móti sem þú vilt af fjáraflanum eftir siðvenju hermanna og neyta þess svo að sæmd fylgi. Nú samir þér vel að veita oss vistina með vorum tilföngum."

Þórdís mælti: "Vel er slíkt mælt og drengilega og svo mundi gert hafa móðurfaðir þinn."

Þorsteinn mælti: "Eg skal og svo gera og er skörulega mælt."

Þar eru þeir um veturinn fram um jól og er þar góð vist og glaðleg. Öllum þótti mikils um Ingimund vert, bæði um háttu hans og yfirbragð. Hann var kænn við alla leika og að allri atgervi vel fær og óágjarn við sér minni menn en harðfengur og framgjarn við sína óvini.

Og er jól leið mælti Ingimundur til föður síns: "Nú munum vér kumpánar fara til fóstra míns og vera þar það er eftir er vetrar því að hann mun kunna þökk að vér séum þar."

Þorsteinn mælti: "Hitt þætti mér nú ráð að þú værir með oss í vetur frændi."

Ingimundur kvaðst fyrir hinu ráð hafa gert og svo gerðu þeir. Ingjaldur tók við þeim forkunnar vel og sýndi á sér aufúsusvip og voru þeir þar um veturinn það er eftir var. Og er voraði þá segir Ingimundur að hann vill að þeir búi ferð sína í hernað, segir þá nú til alls betur færa en fyrr. Ingjaldur kvað það sannindi.

Síðan fóru þeir annað sumar í hernað og fengu miklar tekjur fjár af reyfurum og ránsmönnum þeim sem lögðust á fé bænda eða kaupmanna, fóru svo um sumarið.

Þá mælti Ingimundur: "Ef eigi verða stórar mannraunir í vorum ferðum þá er einsætt að fara með hernaðinum drengilega."

Allir hlýddu hans boði og banni.

Og er nokkuð svo var haustað komu þeir við Svíasker. Þar voru víkingar fyrir og bjuggust þegar hvorirtveggju til bardaga og börðust fyrst með skotum og grjóti. Engi var liðsmunur. Þar urðu margir menn sárir af hvorumtveggjum. Ingimundur fékk þar góðan orðstír þann dag og sannlega þóttust þeir góðum höfðingja þjóna er hans menn voru. Og er kveldaði varð á hvíld nokkur bardaganum.

Ingimundur mælti þá: "Látum eigi það á finnast að vér letjumst þótt þessi fundur hafi hóti heldur verið með nokkurri mannhættu."

Þá stóð maður upp á skipi þeirra sem fyrir voru. Hann var bæði mikill og vasklegur.

Sjá mælti: "Hverjir eru þessir menn er við oss hafa barist í dag? En það er ósiðlegt að menn hafast eigi orð við. Eru hér og engar sakir í milli áður svo að eg viti."

Ingimundur svarar: "Ef þú spyrð að forráðsmönnum vors liðs þá heitir annar Ingimundur en annar Grímur. Eða hver ertu?"

Hann svarar: "Sæmundur er mitt nafn. Er eg og formaður þessa liðs, sygnskur maður að ætterni. Kunnigt er mér og um yður frændur og þar sem vér erum samlendir menn þá samir oss betur að vera eins liðs en berjast. Höfum vér og góða eina frétt til yðvar. Nú viljum vér mæla til vinganar við yður, eigi fyrir því að vér þurfum friðar að biðja fyrir liðsmunar sakir."

Ingimundur svarar: "Vel viljum vér þetta mál virða og leggja eigi til hallmælis. Nú munum vér eigi kjósa oss þann hlut til handa að girnast við yður til óviss frama en hafa nú handtekinn frið og vináttu yðra."

Nú settu þeir grið og frið sín í milli og héldu síðan allir saman það er eftir var sumarsins og varð þeim nú gott til fjár og sóma og sigldu um Sognsjó um haustið. Sæmundur kvað þá þar skiljast mundu og finnast þar að sumri með vináttu. Ingimundur játtar því. Sæmundur hélt nú í fjörðinn en Ingimundur sigldi norður með landi og hafði mörg skip og mikið fé. Hann fór til föður síns með sex tigu manna.

Grímur mælti: "Ætlar þú eigi nú fóstbróðir að föður þínum þyki ærnir gestir?"

Hann kvaðst ætla að nú væri nær hófi. Þorsteinn gekk í mót syni sínum og bauð honum með allri ölúð. Ingimundur kvaðst svo gera mundu.

Þorsteinn veitti þeim stórmannlega um veturinn og kvaðst vel við una að eiga þvílíkan son og kvaðst hafa snemma séð á honum frændagiftu "og svo sem eg sé að þinn þroski vex þá skaltu hafa af mér því meiri sóma."

Ingimundur var þar um veturinn og þótti mjög fara vaxandi hans virðing. Því meira lét hann til sín koma um fégjafir og aðra stórmennsku sem föngin voru nægri.

En er voraði þá ræddu þeir um ferðir sínar fóstbræður. Grímur kvaðst eigi mundu um breyta og fylgja honum. Síðan réðust þeir í hernað og kom Sæmundur til móts við þá sem mælt var og fóru allir samt um sumarið. Þeir áttu saman félag um þrjú sumur í samt fyrir vestan haf og öfluðu fjár og góðs orðróms. Ingimundur var fyrir þeim öllum um ráðagerðir og vitsmuni og allan skörungskap og var þeirra félagsskapur að öllu merkilegur. Ingimundur var með föður sínum á vetrum. Þóttist Þorsteinn og aldrei fullmikinn geta gert sóma Ingimundar sonar síns þegar hann sá hvelíkur maður hann vildi verða.
Leturstærð
Valinn leshraði: 250 orð á mínútu

Vatnsdæla saga - 7. kafli: 1.365 orð
Tími : 6 mínútur

Vatnsdæla saga: 29.308 orð
Lesin: 3.553 orð
Tími eftir: 104 mínútur
Hér er lýsing á kortinu...