Vatnsdæla saga - 8. kafli

Lestrarhraði
(orð á mínútu)
Þess er getið hið síðasta sumar er þeir Sæmundur áttu fé saman og komu þá með miklu meira herfangi en fyrr þá gerðust þau tíðindi í Noregi að her safnaðist saman austur við Jaðar og var þá kominn nálega allur landher í tvo staði. Var þar öðrum megin Haraldur er var kallaður lúfa. Hann barðist í mót landshöfðingjum og átti þann hinn síðasta bardaga áður hann ynni allt land undir sig er hann barðist í Hafursfirði, sem víða getur í sögum. Og í því bili komu þeir Ingimundur og Sæmundur í land, sem sagt var áður, þar nær sem herinn var saman kominn.

Þá mælti Ingimundur: "Hér horfist nú til mikilla tíðinda því að hér eiga hlut í allir hinir stærstu menn innanlands þótt eg telji Harald konung mest verðan og sá maður er mér vel að skapi og vil eg honum bjóða mitt lið því að eigi er það við hvoriga muni."

Sæmundur kvaðst eigi mundu hætta lífi sínu fyrir hans sakir. Kom hann og eigi í þann bardaga.

Ingimundur svarar: "Sjá máttu fóstbróðir að mikill er afli konungs eða hvort þeim gegnir betur er með honum eru eða hinum er í mót honum standa að því er eg hygg. Mun hann það og góðu launa þeim er honum veita nú sæmd og eftirgöngu. En mér mundi þykja óvíst hvað fyrir lægi ef eigi er hans vilji ger og mun það skilja með okkur."

Síðan sigldi Sæmundur frá og inn eftir Sognsjó með sitt lið en Ingimundur sigldi inn í Hafursfjörð og leggur að skipaflota Haralds konungs. Þessir höfðingjar voru mestir í mót Haraldi konungi: Þórir haklangur og Ásbjörn kjötvi. Þeir höfðu allmikið lið og harðsnúið.

Ingimundur lagði að við lyftinguna á konungsskipinu og kvaddi konung á þessa leið: "Heill, heill, herra."

Konungur svarar: "Vel fagnar þú eða hver ertu?"

"Ingimundur heiti eg og er Þorsteinsson og því hér kominn að eg vil bjóða yður mitt lið og hyggjum vér þá betur hafa er yður veita en hina er við rísa. Er eg nýkominn úr hernaði með nokkurum skipum."

Konungur tók vel hans máli og kvaðst hans heyrt hafa getið að góðum hlutum "og það mundi eg vilja að þér yrði launað þitt starf því að eg skal allan Noreg undir mig leggja. Og mikinn mun á eg að gera þeirra er mér vilja þjóna eða þeirra er nú hlaupast á braut í flokka fjandmanna vorra eða til eigna sinna sem eg hefi spurt að Sæmundur hefir gert félagi þinn og kalla eg meira manndóm sýnast í slíkum tiltektum sem þú hefir haft."

Ingimundur segir Sæmundi mart þjóðvel gefið.
Leturstærð
Valinn leshraði: 250 orð á mínútu

Vatnsdæla saga - 8. kafli: 430 orð
Tími : 2 mínútur

Vatnsdæla saga: 29.308 orð
Lesin: 4.918 orð
Tími eftir: 98 mínútur
Hér er lýsing á kortinu...