Vatnsdæla saga - 9. kafli

Lestrarhraði
(orð á mínútu)
Eftir þetta kváðu við lúðrar um allan herinn og bjuggust menn til, hver eftir sínum efnum. Þenna bardaga átti Haraldur konungur mestan. Þá var með honum Rögnvaldur af Mæri og margir aðrir stórir höfðingjar og þeir berserkir er úlfhéðnar voru kallaðir. Þeir höfðu vargstakka fyrir brynjur og vörðu framstafn á konungsskipinu en konungur sjálfur varði lyftingina með hinni mestu prýði og karlmennsku. Mátti þar sjá mörg högg bæði og stór. Nú gerðust brátt mörg tíðindi og stór á skammri stundu í höggum og spjótalögum með grimmlegri grjótflaug. Gerðist nú skjótt mikið mannfall af hvorumtveggjum. Ingimundur fylgdi vel Haraldi konungi og aflaði sér góðs orðs. Fundinum lauk svo sem mörgum er kunnigt og fullfrægt er orðið að Haraldur konungur fékk ágætan sigur og varð síðan einvöldugur yfir öllum Noregi. Hann launaði höfðingjum öllum þeim er honum fylgdu og svo hverjum öðrum með hinni mestu stórmennsku.

Rögnvaldi gaf hann jarldóm og mælti: "Þú hefir sýnt mikinn manndóm í fylgd þinni við mig. Þú hefir og látið son þinn fyrir mínar sakir og má hann eigi aftur gjalda en hitt má eg að launa þér sæmdum, fyrst því að verða jarl og þar með eyjar þær er liggja fyrir vestan haf er Orkneyjar heita. Þær skaltu hafa í sonarbætur. Margan annan sóma skaltu þiggja af mér" og það efndi konungur.

Rögnvaldur sendi vestur Hallað son sinn og gat hann eigi haldið ríkinu fyrir víkingum. Þá sendi hann Torf-Einar son sinn og lést vænta að hann mundi halda ríkinu. Hann var jarl fyrstur á Orkneyjum og af honum eru komnir allir Orkneyjajarlar sem segir í ævi þeirra.

Haraldur konungur gaf mörgum stór lén fyrir sína fylgd og virti svo mikils við menn hvort með honum höfðu verið eða móti að alla gæddi hann þá að nokkurum hlutum en hina sem honum höfðu mótsnúnir verið rak hann úr landi, meiddi eða drap svo að engir fengu nokkura viðréttu.

Síðan mælti konungur til Ingimundar: "Mikla vináttu hefir þú við mig sýnt en aukið sjálfum þér frama. Skal eg ávallt þinn vin vera en hlutskipti þitt skulu vera þrjár skipshafnir. Þar með skaltu hafa herbúnað allan þeirra víkinga er þú barðist við og til marks að þú hefir verið í Hafursfirði skaltu eignast að gjöf hlut þann er átt hefir Ásbjörn kjötvi sem hann hafði mestar mætur á. Nú er það meir til sanninda þessa fundar en það sé mikið fé en þó sæmd í að þiggja af oss. En þá er vér höfum skipað ríki vort skal eg launa þér liðsemdina með heimboði og vingjöfum."

Ingimundur þakkar konungi gjafir og góð orð og skildust með því. Konungur sagðist og minnugur vera skyldi Sæmundar fyrir sínar tiltekjur og drottinssvik við sig.
Leturstærð
Valinn leshraði: 250 orð á mínútu

Vatnsdæla saga - 9. kafli: 445 orð
Tími : 2 mínútur

Vatnsdæla saga: 29.308 orð
Lesin: 5.348 orð
Tími eftir: 96 mínútur
Hér er lýsing á kortinu...