Óleifur hét herkonungur er kallaður var Óleifur hvíti. Hann var son Ingjalds konungs Helgasonar, Ólafssonar, Guðröðarsonar, Hálfdanarsonar hvítbeins Upplendingakonungs.
Óleifur herjaði í vesturvíking og vann
Dyflinni á Írlandi og Dyflinnarskíri og gerðist konungur yfir. Hann fékk Auðar djúpúðgu dóttur Ketils Flatnefs Bjarnarsonar bunu, ágæts manns úr
Noregi. Þorsteinn rauður hét son þeirra.
Óleifur féll á Írlandi í orustu en Auður og Þorsteinn fóru þá í
Suðureyjar. Þar fékk Þorsteinn Þuríðar dóttur Eyvindar austmanns, systur Helga hins magra. Þau áttu mörg börn.
Þorsteinn gerðist herkonungur. Hann réðst til lags með Sigurði jarli hinum ríka syni Eysteins glumru. Þeir unnu Katanes og Suðurland, Ross og Meræfi og meir en hálft Skotland. Gerðist Þorsteinn þar konungur yfir áður Skotar sviku hann og féll hann þar í orustu.
Auður var þá á Katanesi er hún spurði fall Þorsteins. Hún lét þá gera knörr í skógi á laun en er hún var búin hélt hún út í
Orkneyjar. Þar gifti hún Gró dóttur Þorsteins rauðs. Hún var móðir Grélaðar er Þorfinnur jarl hausakljúfur átti.
Eftir það fór Auður að leita
Íslands. Hún hafði á skipi tuttugu karla frjálsa. Auður kom til
Íslands og var hinn fyrsta vetur í Bjarnarhöfn með Birni bróður sínum. Síðan nam Auður öll Dalalönd milli Dögurðarár og Skraumuhlaupsár og bjó í
Hvammi. Hún hafði bænahald í Krosshólum. Þar lét hún reisa krossa því að hún var skírð og vel trúuð. Með henni komu út margir göfgir menn þeir er herteknir höfðu verið í vesturvíking og voru kallaðir ánauðgir.
Einn af þeim hét Vífill. Hann var ættstór maður og hafði verið hertekinn fyrir vestan haf og var kallaður ánauðigur áður Auður leysti hann. Og er Auður gaf bústað skipverjum sínum þá spurði Vífill hví Auður gæfi honum öngvan bústað sem öðrum mönnum. Auður kvað eigi mundu skipta, kvað hann þar göfgan mundu þykja sem hann væri. Honum gaf Auður Vífilsdal og bjó hann þar. Hann átti konu. Þeirra synir voru þeir Þorgeir og Þorbjörn. Þeir voru efnilegir menn og óxu upp með föður sínum.