Eiríks saga rauða

9. kafli

Nú ræða þeir um ferð sína og hafa tilskipan. Vill Þórhallur veiðimaður fara norður um Furðustrandir og fyrir Kjalarnes og leita svo Vínlands en Karlsefni vill fara suður fyrir land og fyrir austan og þykir land því meira sem suður er meir og þykir honum það ráðlegra að kanna hvorttveggja. Nú býst Þórhallur út undir eynni og urðu eigi meir í ferð með honum en níu menn. En með Karlsefni fór annað liðið þeirra.

Og einn dag er Þórhallur bar vatn á skip sitt þá drakk hann og kvað vísu þessa:

Hafa kváðu mig meiðar
málmþings, er kom eg hingað,
mér samir láð fyr lýðum
lasta, drykk hinn basta.
Bílds hattar verðr byttu
beiði-Týr að reiða.
Heldr er svo að eg krýp að keldu,
komat vín á grön mína.

Láta þeir út síðan og fylgir Karlsefni þeim undir eyna. Áður þeir drógu seglið upp kvað Þórhallur vísu:

Förum aftr þar er órir
eru sandhimins landar,
látum kenni-Val kanna
knarrar skeið hin breiðu.
Meðan bilstyggir byggja
bellendr og hval vella
Laufa veðrs, þeir er leyfa
lönd, á Furðuströndum.

Síðan skildu þeir og sigldu norður fyrir Furðustrandir og Kjalarnes og vildu beita þar fyrir vestan. Kom þá veður á móti þeim og rak þá upp við Írland og voru þar mjög þjáðir og barðir. Þá lét Þórhallur líf sitt.
Hér er lýsing á kortinu...