Eyrbyggja saga

3. kafli

Hrólfur var höfðingi mikill og hinn mesti rausnarmaður. Hann varðveitti þar í eyjunni Þórshof og var mikill vinur Þórs og af því var hann Þórólfur kallaður. Hann var mikill maður og sterkur, fríður sýnum og hafði skegg mikið. Því var hann kallaður Mostrarskegg. Hann var göfgastur maður í eyjunni.

Um vorið fékk Þórólfur Birni langskip gott og skipað góðum drengjum og fékk Hallstein son sinn til fylgdar við hann og héldu þeir vestur um haf á vit frænda Bjarnar.

En er Haraldur konungur spurði að Þórólfur Mostrarskegg hafði haldið Björn Ketilsson, útlaga hans, þá gerði hann menn til hans og boðaði honum af löndum og bað hann fara útlægan sem Björn vin hans nema hann komi á konungs fund og leggi allt sitt mál á hans vald.

Það var tíu vetrum síðar en Ingólfur Arnarson hafði farið að byggja Ísland og var sú ferð allfræg orðin því að þeir menn er komu af Íslandi sögðu þar góða landakosti.
Hér er lýsing á kortinu...