Eyrbyggja saga

5. kafli

Nú skal segja frá Birni Ketilssyni flatnefs að hann sigldi vestur um haf þá er þeir Þórólfur Mostrarskegg skildu sem fyrr segir. Hann hélt til Suðureyja.

En er hann kom vestur um haf þá var andaður Ketill faðir hans en hann fann þar Helga bróður sinn og systur sínar og buðu þau honum góða kosti með sér.

Björn varð þess vís að þau höfðu annan átrúnað og þótti honum það lítilmannlegt er þau höfðu hafnað fornum sið, þeim er frændur þeirra höfðu haft og nam hann þar eigi yndi og enga staðfestu vildi hann þar taka. Var hann þó um veturinn með Auði systur sinni og Þorsteini syni hennar.

En er þau fundu að hann vildi eigi áhlýðast við frændur sína þá kölluðu þau hann Björn hinn austræna og þótti þeim illa er hann vildi þar ekki staðfestast.
Hér er lýsing á kortinu...