Eyrbyggja saga

9. kafli

Þórólfur Mostrarskegg andaðist á Hofsstöðum. Þá tók Þorsteinn þorskabítur föðurleifð sína. Hann gekk að eiga Þóru, dóttur Ólafs feilans, systur Þórðar gellis er þá bjó í Hvammi. Þórólfur var heygður í Haugsnesi út frá Hofsstöðum.

Í þenna tíma var svo mikill ofsi Kjalleklinga að þeir þóttust fyrir öðrum mönnum þar í sveit. Voru þeir og svo margir ættmenn Bjarnar að engi frændbálkur var þá jafnmikill í Breiðafirði.

Þá bjó Barna-Kjallakur, frændi þeirra, á Meðalfellsströnd þar sem nú heitir á Kjallaksstöðum. Hann átti marga sonu og vel mennta. Þeir veittu allir frændum sínum fyrir sunnan fjörðinn á þingum og mannfundum.

Það var eitt vor á Þórsnessþingi að þeir mágar, Þorgrímur Kjallaksson og Ásgeir á Eyri, gerðu orð á að þeir mundu eigi leggja drag undir ofmetnað Þórsnesinga og það að þeir mundu ganga þar örna sinna sem annars staðar á mannfundum á grasi þótt þeir væru svo stolts að þeir gerðu lönd sín helgari en aðrar jarðir í Breiðafirði. Lýstu þeir þá yfir því að þeir mundu eigi troða skó til að ganga þar í útsker til álfreka.

En er Þorsteinn þorskabítur varð þessa var vildi hann eigi þola að þeir saurguðu þann völl er Þórólfur faðir hans hafði tignað umfram aðra staði í sinni landeign. Heimti hann þá að sér vini sína og ætlaði að verja þeim vígi völlinn ef þeir hygðust að saurga hann. Að þessu ráði hurfu með honum Þorgeir kengur, sonur Geirröðar á Eyri, og Álftfirðingar, Þorfinnur og Þorbrandur sonur hans, Þórólfur bægifótur og margir aðrir þingmenn Þorsteins og vinir.

En um kveldið er Kjalleklingar voru mettir tóku þeir vopn sín og gengu út í nesið. En er þeir Þorsteinn sáu að þeir sneru af þeim veg er til skersins lá þá hljópu þeir til vopna og runnu eftir þeim með ópi og eggjan. Og er Kjalleklingar sáu það hljópu þeir saman og vörðu sig. En Þórsnesingar gerðu svo harða atgöngu að Kjalleklingar hrukku af vellinum og í fjöruna. Snerust þeir þá við og varð þar hinn harðasti bardagi með þeim. Kjalleklingar voru færri og höfðu einvalalið.

Nú verða við varir Skógstrendingar, Þorgestur hinn gamli og Áslákur úr Langadal. Þeir hljópu til og gengu í milli, en hvorirtveggju voru hinir óðustu, og fengu eigi skilið þá áður en þeir hétu að veita þeim er þeirra orð vildu heyra til skilnaðarins, og við það urðu þeir skildir og þó með því móti að Kjalleklingar náðu eigi að ganga upp á völlinn og stigu þeir á skip og fóru brott af þinginu.

Þar féllu menn af hvorumtveggjum og fleiri af Kjalleklingum en fjöldi varð sár. Griðum varð engum á komið því að hvorgir vildu þau selja og hétu hvorir öðrum aðförum þegar því mætti við koma. Völlurinn var orðinn alblóðugur þar er þeir börðust og svo þar er Þórsnesingar stóðu meðan barist var.
Hér er lýsing á kortinu...