Fljótsdæla saga

14. kafli

Þess er getið eitt sumar að skip kom af hafi í Gautavík í Berufirði. Skipi þessu fylgdu þrænskir menn og vistuðust hér um veturinn.

Á því sama vori eftir vetur afliðinn beiddi Þiðrandi Geitisson fóstra sinn fararefna: "Vil eg kynna mér siðu annarra manna."

Hróar svarar: "Það þykir mér mikið ef þú vilt fara af landi í burt því að eg gerist mjög hrumur af elli og veit eg eigi hvort þú kemur aftur. En allt að einu þá skal eg sæma þig að því sem eg hefi föng á. En biðja vil eg að þú komir sem fyrst aftur. En þú munt ráða."

Hróar Tungugoði fékk Þiðranda mikið fé. Honum þótti mikið er þeir skildu og öllum þótti mikil hans fráför. Réðst Þiðrandi til ferðar og fer suður yfir heiði, ræður sig í skip, fer utan um sumarið. Þeim byrjaði vel og skjótt. Þeir komu skipinu í Þrándheim í Niðarós. Þá réð Hákon hinn ríki fyrir Noregi. Hann hafði aðsetu að Hlöðum. Þá sýndist hverja menning Þiðrandi hafði hlotið því að öllum mönnum fundust orð um að eigi hefði þvílíkur maður komið í manna minnum sem Þiðrandi var. Hann fer á fund Hákonar jarls. Jarl tók við honum vel og setti hann í hásæti hjá sér og veitir honum af mikilli blíðu um veturinn. Hann virti öngvan sinna manna jafnan Þiðranda. Þeir töluðu löngum. Þiðrandi sýndi slíkt af sér að unni honum hver maður hugástum. En er vor kom þá beiddi Þiðrandi sér fararleyfis út til Íslands.

Jarl spurði hví hann vildi svo litla stund dvelja við þar "því að eg ann þér hér allvel vistar. Hefur hér enginn sá maður komið að mér þyki svo mikil eftirsjá að sem um þig ef þú ferð á burt."

"Vel hefur þú til mín gert þessa stund en þó má eg eigi nýta að vera hér lengur því að eg ann móður minni svo mikið að eg hlýt að fara nú fyrst. Má yður það segja því að eru þar enn þeir menn að létu sem best þætti að eg kæmi fyrr aftur en síðar."

Jarl svarar: "Svo skal nú vera."

Þiðrandi kaupir sér skip og lætur í koma mikið fé. Hann þiggur af jarli góðar gjafir. Eftir það láta þeir úr landfestum og sigla í haf. Það hafa margir menn fyrir satt að Þiðrandi hafi ónýtt skaplyndi jarls fyrir sumar greinir og vildi af því eigi lengur vera með honum.

Þiðrandi fékk það sumar góða byri og kom skipi sínu í Skálavík í Vopnafirði og bar af skipinu og flutti heim varninginn. Eftir það býr hann um skipið og setur upp. Hann fór heim í Krossavík. Þar var tekið við honum forkunnar vel og með allri blíðu. Verður þar og fagnafundur mikill með þeim Þiðranda og Hróari.

Hann er þar fáar nætur áður en Hróar lýsir því að hann vill að Þiðrandi fari austur með honum til eigna sinna og ríkis "því að eg má eigi annað en vera ásamt við Þiðranda, svo ann eg honum mikið, og hver stund þykir mér löng ef hann er eigi hjá mér."

Þiðrandi segir að það skuli þegar vera er hann vildi "því að eg vil þess njóta meðan kostur er."

Býr Þiðrandi ferð sína, fer með Hróari austur til Hofs í Hróarstungu. Urðu frændur hans honum fegnir þar sem þeir komu í Vopnafirði. Allir frændur Þiðranda sýndu á sér mikinn feginsþokka er hann var aftur kominn með virðingu.

Ketill þrymur sendi orð Þiðranda systursyni sínum að hann skuli koma í Njarðvík til heimboðs og segir að hann skuli eigi til einskis fara "því að hann er sá einn minna frænda að mér er mest aufúsa að eiga mart við og gott."

Þiðrandi heitir ferðinni er á liði sumarið og heyverkum er lokið en kvaðst eigi tóm eiga að því að hann hafði fyrr heitið öðrum. Ketill segir að Þiðranda færi vel.
Hér er lýsing á kortinu...