Bræður tveir bjuggu í Garpsdal. Hét annar Kálfur en annar Steinólfur. Þeir voru á ungum aldri og vel fjáreigandi og vinsælir menn.
Þórdís hét kona er bjó í Ólafsdal. Hún var ekkja, góð húsfreyja og gagnsöm. Son hennar hét Eyjólfur er átti bú með henni. Hann var gervilegur maður og vinsæll. Þorgeir hét frændi Þórdísar er hún hafði upp fætt og fóstrað. Hann var knálegur maður. Hann átti það kenningarnafn að hann var kallaður Þorgeir hófleysa en það kenningarnafn hlaut hann af því að hann hafði til alls meira en hann þurfti þegar hann átti nokkuð fé fyrir að ráða.
Með þeim fóstbræðrum Eyjólfi og Þorgeiri var vingott á unga aldri. Þeir voru báðir knáir menn og ólátir og var löngum mikið um þá. En framfærslukerling Þórdísar amaðist oft við þá og glímur þeirra en þeir glettust því meir við kerlingu sem hún angraðist meir við.
Einn dag er þeir glímdu á gólfi, og var mikið um þá, komu þar jafnan niður er kerling var og drógu verk hennar á fótum sér, þá mælti kerling: "Lítil fremd er ykkur í því að spilla verki fyrir mér eða glettast við mig. En spá mun eg ykkur spá. Svo vel sem nú er með ykkur þá munuð þið verst skilja ykkart vinfengi."
Þeir segja: "Furðu óspáleg sýnist okkur þú vera."
Kerling mælti: "Hversu sem ykkur sýnist það þá mun það eftir ganga sem eg mæli nú."
Um vorið eftir er þeir Illugi og Þorgeir höfðu um veturinn verið á Reykjahólum beiddi Þorgeir Illuga að hann skyldi veita honum far um Íslandshaf. Illugi veitti honum það sem hann bað. Kálfur og Steinólfur úr Garpsdal tóku sér fari með Illuga.
Nú er menn fóru til skips um vorið þá mælti Illugi við Þorgeir: "Það vildi eg frændi að þú færir norður til skips með mönnum mínum og búið skipið um þingið en eg á erindi til þings að hitta vini mína. Mun eg ríða norður af þingi. Vildi eg að skip væri albúið þá er eg kem norður."
Þorgeir segir svo vera skulu sem hann vildi. Þá réðst Þorgeir norður til skipsins á Sléttu en Illugi bjóst til þings. Steinólfur og Kálfur og Helgi selseista voru í ferð með Þorgeiri en vara þeirra hafði fyrr farið. Þorgils Arason og Ari son hans og Illugi bróðir hans riðu með flokki til þings úr Breiðafirði.
Þá er Þorgeir kom norður í höfnina setti hann fram skipið og bjó. Gautur Sleituson var til skips kominn og hafði annað mötuneyti en Þorgeir. Þar var illt til eldiviðar og fóru sinn dag hvorir að afla eldibranda, Þorgeir og hans förunautar, Gautur og hans förunautar.
Einn dag fór Þorgeir að afla eldibranda en Gautur var heima. Matsveinar Gauts höfðu ketil uppi og er vella var komin á ketil þeirra þá var lokið eldiviði þeirra. Sögðu þeir Gauti til sinna vandræða. Gautur gengur til búðar Þorgeirs og tekur ofan spjót hans og höggur af skafti spjótið og kastar í rúm hans og hefir með sér skaftið. Hann tekur og skjöld Þorgeirs og hefir með sér, gengur síðan til eldsstóarinnar. Hann klýfur í sundur skjöldinn og spjótskaftið og eldir undir katlinum. Verður þá vel matbúið.
Þorgeir kom heim um kveldið. Hann saknar skjótt vopna sinna. Hann spyr hver sveina hafi á brott borið "skjöld minn og spjót."
Gautur segir: "Eg tók skjöld þinn og spjótskefti og klauf eg undir ketil vorn. En áður mátti eigi vel matbúa því að lokið var eldiviði vorum en oss þótti illt hrátt að eta."
Nú fann ekki á Þorgeiri að honum mislíkaði sjá tiltekja Gauts.
Annan dag fór Gautur og hans förunautar að fá eldibranda en Þorgeir var heima og bjó skip. Matsveinar Þorgeirs höfðu eldiviðarfátt. Og er þeir skyldu matbúa sögðu þeir Þorgeiri. Hann fór til tjalds Gauts og tók spjót hans og skjöld og hjó af skafti spjótið en klauf skjöldinn undir ketil. Þá skorti eigi eldivið til þess að vella mat þeirra.
Gautur kom heim um kveldið og spurði hvað menn vissu til skjaldar hans eða spjótskeftis.
Þorgeir svarar: "Skjöld þinn og spjótskefti klauf eg undir ketil í dag því að matsveinum varð eldiviðarfátt."
Gautur segir: "Seint lætur þú af að auka oss skapraunir."
Þorgeir svarar: "Svo er leikur hver sem heiman er ger."
Gautur hjó þá til Þorgeirs en hann laust við exi sinni og bar af sér höggið, skeindist þó lítt á fæti. Þá hljópu menn í milli þeirra og tóku þá og héldu.
Þorgeir mælti: "Eigi þurfið þér að halda mér því að eg mun mig nú til engis ófriðar líklegan gera."
Nú voru þeir skildir og fara hvorirtveggju til síns tjalds, hafa síðan náttverð og leggjast síðan til svefns. Og er menn voru sofnaðir þá rís Þorgeir upp og tekur exi sína í hönd sér og gengur til tjalds þess er Gautur var í og sprettir tjaldskörum og gengur inn í tjaldið og að rúmi Gauts og vekur hann. Gautur vaknar og spratt upp og vildi taka til vopna. Og í því bili höggur Þorgeir til Gauts og klýfur hann í herðar niður. Fékk Gautur af því sári bana. Þorgeir gengur á brott og til búðar sinnar. Búðunautar Gauts vakna við brestinn er hann var veginn. Styrmdu þeir yfir líki hans og bjuggu um. Um þenna atburð orti Þormóður vísu þessa:
Gaut veit eg að son Sleitu
snarfengr með lið drengja
höldr við harðar deildir
hjördjarfan nam fjörvi.
Ófeigum varð eigi
álmþings í gný málma,
oft verðr rík, þeim er rækir,
raun, stynfullu launað.