Fóstbræðra saga

6. kafli

Þorkell hét maður er bjó í Gervidal. Hann var vel fjáreigandi en lítill í þegnskap en eirinn í skaplyndi, huglaus í hjarta. Hann var kvongaður maður og hafði eigi fleiri hjón en þrjú. Griðkona var hið þriðja hjón.

Maður hét Butraldi. Hann var einhleypingur, mikill maður vexti, rammur að afli, ljótur í ásjónu, harðfengur í skaplyndi, vígamaður mikill, nasbráður og heiftúðigur. Hann hafði vistir um sumrum og tók kaup en lét reiðast yfir á vetrum með þriðja mann og settist á bæi nokkurum nóttum saman. Hann var nokkuð skyldur að frændsemi Vermundi í Vatnsfirði og því var honum eigi skjótt goldið það verkkaup sem hann gerði til.

Butraldi kom með þriðja mann til gistingar í Gervidal til Þorkels um kveld og þótt Þorkeli væri sár matur þorði hann þó eigi að synja þeim gistingar og er þeim til stofu fylgt og kveikt ljós. Sitja þeir þar með vopnum sínum en heimamenn voru fram í skála. Þá var nokkuð kominn snjór á fjöll í skafla en mjög snjólaust í héraðinu, vötnin upp gengin en þá var frostviðri. Var þá og fjúk nokkuð.

Þorkell kom í stofu að spyrja þeirra hluta er honum var forvitni á að vita. Hann spyr Butralda hvert hann ætlar að fara. Hann kveðst fara skyldu suður yfir Breiðafjörð. Þorkeli þótti eigi víst hvort honum mundi veður gefa hinn næsta dag yfir heiðina. Þá drap stall úr hjarta hans og þótti ill seta þeirra því að í hans hjarta mættist sínka og lítilmennska.

Og í því bili heyrir hann að drepið er á dyr og batnar honum ekki við það. Gengur hann fram og til dyra og lýkur upp hurðunni og sér einn mikinn mann standa með vopnum fyrir dyrunum. Þorkell spyr þann mann að nafni. Hann nefndist Þorgeir. Þorkell spyr hvers son hann væri. Hann kveðst vera Hávarsson. Þá kemur æðra í brjóst Þorkeli og dattaði hjarta hans við.

Þorkell mælti þá: "Hér er kominn Butraldi við þriðja mann og veit eg eigi hvern frið hann býður þér. Hygg eg að hann hafi illan hug á þér því að hann er vinur Vermundar, óvinar yðvars, en eg má eigi manns blóð sjá og mun eg í öngvit falla ef þér berist á."

Þorgeir segir: "Ekki mun til skaða bóndi þótt vér séum hér komnir."

Gengur Þorgeir inn og til stofu. Þorkell kemur og í stofu og kerling hans. Hann tekur borð og setur fyrir Butralda.

"Skammur er skutill minn," segir Þorkell, "og gakk þú hingað Þorgeir og sit hjá Butralda."

Þorgeir gerir svo, gengur um þvert gólf og sest niður hjá Butralda undir borðs endann. Frá verðgetum er sagt vandlega. Tveir diskar voru fram bornir. Þar var eitt skammrifsstykki fornt á diskinum hvorum og forn ostur til gnættar. Butraldi signdi skamma stund, tekur upp skammrifið og sker og neytir og leggur eigi niður fyrr en allt var rutt af rifjum. Þorgeir tók upp ostinn og skar af slíkt er honum sýndist. Var hann harður og torsóttur. Hvorgi þeirra vildi deila við annan kníf né kjötstykki. En þó að þeim væri lítt verður vandaður þá fóru þeir þó eigi til sjálfir að skepja sér mat því að þeim þótti það skömm sinnar karlmennsku. Þá var matur fram settur fyrir Þorkel og kerlingu hans. Þau mötuðust við eld. Þau komu stundum í stofu og luku upp hurðu og skyggndu í stofuna allóframlega.

Og er gestir voru mettir þá kom Þorkell í stofu og kerling hans og tekur hún mat af borði en Þorkell tók til orða: "Þau gistingarlaun vildi eg hafa að þér ættust ekki illt við meðan þér eruð hér á mínum bæ því að mér orkar það margra vandræða ef þér berist hér á. Sýnist mér það ráð að Þorgeir sofi fram hjá oss í skála en Butraldi og hans förunautar sofi hér í stofunni."

Svo gera þeir, sofa nú af nóttina. Og er lýsa tók var Butraldi snemma á fótum og Þorkell. Þorgeir var og snemma á fótum. Þá var kveikt ljós í stofu og borð fram sett og matur á borinn með sama hætti og um kveldið hafði verið. Þá tekur Þorgeir upp skammrifið og sker en Butraldi býr þá við ostinn.

Og er þeir voru mettir þá fer Butraldi á brott og hans förunautar. Hann fer upp eftir dalnum svo sem leið liggur. Nokkuru síðar fer Þorgeir. Hann fer og upp eftir dalnum. Á fellur ofan eftir dalnum. Brött heiðarbrekka var upp úr dalnum Gervidal þar sem þjóðleið liggur. Í brekkunni var þá skafl mikill og harður.

Þorgeir sér þá hvar þeir Butraldi fara og þykist vita að þeir muni eiga harðfenni mikið í heiðarbrekkunni og torvelda leið, snýr yfir ána og fer upp öðrum megin árinnar, en þeir fóru upp á brekkuna, og snýr þá aftur á þjóðleiðina. Butraldi kom að skaflinum og skorar með exi sinni fyrir sér. Þorgeir sér þá hvar Butraldi fór en Þorgeir var uppi á brekkunni.

Butraldi mælti þá: "Rann kappinn nú?"

Þorgeir segir: "Eigi rann eg. Því fór eg aðra leið að eg þurfti eigi að skora fönn fyrir mér en nú mun eg eigi renna undan yður."

Þorgeir stendur þá á brekkubrúninni en Butraldi skorar fönnina. Og er hann kom í miðja brekkuna þá setur Þorgeir spjótskefti sitt undir sig og snýr fram oddinum en hefir exina reidda um öxl, rennir fönnina ofan að Butralda. Hann heyrir hvininn af för Þorgeirs og lítur upp og finnur eigi fyrr en Þorgeir hjó framan í fang honum og þar á hol. Fellur hann á bak aftur. En Þorgeir rennir fram yfir hann, til þess að hann kemur á jöfnu, svo hart að förunautar Butralda hrjóta frá í brott. Um þenna atburð er þetta erindi ort:

Vel dugir verk að telja
vopna hreggs fyr seggjum,
oft flýgr gránn frá gunni
gjóðr, Butralda hljóðan,
þótt kynni mun minni
margrjóðanda þjóðir,
né hnekki eg því, þakkar
þess vígs fetils stíga.

Förunautar Butralda þora eigi að hefna hans né ráða á Þorgeir því að þeim þótti illt að eiga náttból undir vopnum Þorgeirs. Styrma þeir yfir Butralda en Þorgeir snýr upp á heiðina og fer til þess er hann kemur suður á Reykjahóla. Hann hefir þar góðar viðtökur, var þar um veturinn í góðu yfirlæti.

Vetrarríki var mikið víða um héruð og féll fé fyrir mönnum, búin óhæg. Sóttu margir menn norður á Strandir til hvalfanga.
Hér er lýsing á kortinu...