Bræður tveir eru nefndir; hét annar Einar en annar Árni, synir Skeggja úr Söxu; þeir bjuggu á Flyðrunesi, norður frá Þrándheimi. Þeir eflast að liði eftir um vorið og fara í
Súrnadal til Kolbjarnar og bjóða honum tvo kosti, hvort hann vill heldur fara með þeim og brenna inni Þorbjörn og sonu hans eða láta þar líf. Hann kjöri heldur að fara.
Fara þeir nú þaðan sex tugir manna og koma á Stokka um nótt og bera eld að húsum. En þau voru öll í svefni í skemmu einni, Þorbjörn og synir hans og Þórdís. Þar voru inni sýruker tvö í því húsi. Nú taka þeir Gísli hafurstökur tvær og drepa þeim í sýrukerin og verjast svo eldinum og slökkva svo þrisvar þar fyrir þeim eldinn og þá eftir fengu þeir Gísli brotið vegginn og komast svo á brott, tíu saman, og fylgdu reyk til fjalls og komust svo brott úr hunda hljóðum; en tólf menn brunnu þar inni. En þeir þykjast öll þau inni hafa brennt er til komu.
En þau Gísli fara uns þau koma í
Friðarey til Styrkárs og eflast þaðan að liði og fá fjóra tugi manna og koma á óvart til Kolbjarnar og brenna hann inni við tólfta mann; selja nú lönd sín og kaupa sér skip og voru á sex tugir manna og fara á brott með allt sitt og koma við eyjar þær er
Æsundir heita og liggja þar til hafs.
Nú fara þeir þaðan á tveimur bátum fjórir tugir manna og koma norður til Flyðruness. Þeir bræður, Skeggjasynir, voru þá á leið komnir við níunda mann að heimta landskyldir sínar. Þeir Gísli snúa til móts við þá og drepa þá alla; Gísli vó þrjá menn en Þorkell tvo. Eftir það ganga þeir til bæjar og taka þaðan á brott mikið fé. Gísli hjó þá höfuð af Hólmgöngu-Skeggja því að hann var þá þar hjá sonum sínum.