Gísla saga Súrssonar

5. kafli

Þorbjörn hét maður og var kallaður selagnúpur; hann bjó í TálknafirðiKvígandafelli; Þórdís hét kona hans en Ásgerður dóttir. Þessarar konu biður Þorkell Súrsson og getur hana að eiga en Gísli Súrsson bað systur Vésteins, Auðar Vésteinsdóttur, og fékk hana; búa nú báðir saman í Haukadal.

Eitthvert vor átti Þorkell hinn auðgi Þórðarson, Víkingssonar, för suður til Þórsnessþings og fylgdu honum Súrssynir. Í Þórsnesi bjó þá Þorsteinn þorskabítur, Þórólfsson Mostraskeggs; hann átti Þóru Ólafsdóttur, Þorsteinssonar, börn þeirra voru þau Þórdís og Þorgrímur og Börkur hinn digri. Þorkell lauk málum sínum á þinginu.

En eftir þingið bauð Þorsteinn heim Þorkatli auðga og Súrssonum og gaf þeim góðar gjafir að skilnaði en þeir buðu heim Þorsteinssonum vestur þangað annað vor til þings. Og nú fara þeir heim. En að öðru vori fara þeir vestur þangað, Þorsteinssynir, tólf saman, til Hvolseyrarþings og hittast þeir þar, Súrssynir. Bjóða þeir þá Þorsteinssonum heim af þinginu en áður skyldu þeir vera að heimboði hjá Þorkatli auðga, eftir það fara þeir til Súrssona og þiggja þar veislu góða.

Þorgrími líst systir þeirra bræðra væn og biður hennar og því næst er hún honum föstnuð og er þá þegar gert brúðkaupið og fylgir henni heiman Sæból og réðst Þorgrímur vestur þangað en Börkur er eftir í Þórsnesi og hjá honum systursynir hans, Saka-Steinn og Þóroddur.

Nú býr Þorgrímur á Sæbóli en þeir Súrssynir fara á Hól og reisa þar góðan bæ og liggja þar saman garðar á Hóli og Sæbóli. Nú búa þeir þar hvorir og er vinfengi þeirra gott. Þorgrímur hefur goðorð og er þeim bræðrum að honum styrkur mikill.

Þeir fara nú til vorþings eitt vor með fjóra tugi manna og voru allir í litklæðum. Þar var í för Vésteinn, mágur Gísla, og allir Sýrdælir.
Hér er lýsing á kortinu...