Um vorið fór Grettir norður í Voga með byrðingsmönnum. Skildu þeir Þorkell með vináttu en Björn fór vestur til
Englands og var fyrir skipi Þorkels því er þangað fór. Hafðist Björn þar við um sumarið og keypti til handa Þorkeli þá hluti sem hann hafði honum um boðið. Sigldi hann vestan er á leið haustið.
Grettir var í Vogum til þess er flotinn leysti. Síðan sigldi hann norðan með byrðingsmönnum nokkurum þar til er þeir komu í höfn þá er í Görtum heitir, það er fyrir Þrándheimsmynni, og tjölduðu þar yfir sig. Og er þeir höfðu um búist sigldi skip sunnan fyrir land. Þeir kenndu brátt að það var Englandsfar. Þessir lögðu að utar við ströndina, gengu á land.
Grettir og hans félagar viku til móts við þá. En er þeir fundust sér Grettir að Björn er þar í liði og mælti: "
Það er vel að við höfum hér fundist. Munum við nú taka til hinna fornu greina okkarra. Vil eg nú reyna hvor okkar meira má."
Björn kvað sér það fornt vera "
en ef það hefir nokkuð verið þá vil eg bæta svo að þú þykist vel haldinn af."
Grettir kvað þá vísu:
Íugtanna gat eg unnið,
orð lék á því forðum.
Feld reif hart af höldi
hugstríðr meginsíðan.
Baugs olli því bellinn
Baldr en nú skal gjalda.
Oft þykjumst eg ekki
allhælinn kappmælum.
Björn sagði bætt hafa verið stærri sakir fé en þessar.
Grettir kvað fá til hafa orðið að gera sér öfundarbrögð enda lést hann aldrei fé hafa á tekið og sagði að enn mundi svo fara "
skulum við báðir eigi héðan heilir ganga ef eg má ráða. Legg eg nú bleyðiorð á bak þér ef þú þorir eigi að berjast."
Björn sá nú að honum tjáði ekki undan að mælast, tók nú vopn sín og gekk á land. Síðan hlupust þeir að og börðust og ekki lengi áður en Björn varð sár og því næst féll hann dauður niður á jörð en það sáu fylgdarmenn Bjarnar. Gengu þeir á skip sitt, sneru norður með landi til móts við Þorkel og sögðu honum þennan atburð. Hann kvað það eigi fyrr hafa fram komið en von var að.
Brátt eftir þetta fór Þorkell suður til Þrándheims, fann þar Svein jarl.
Grettir fór á Mæri eftir víg Bjarnar og hitti Þorfinn vin sinn og sagði honum þetta sem til hafði borið.
Þorfinnur tók vel við honum "
og er það gott," sagði hann, "
að þú ert vinþurfi. Skaltu með mér vera þar til er lýkur þessum málum."
Grettir þakkaði honum fyrir boð sitt og kvaðst það nú þiggja mundu.
Sveinn jarl sat inn í Þrándheimi að Steinkerum þá er hann spurði víg Bjarnar. Þá var þar með honum Hjarrandi, Bjarnar bróðir. Hann var hirðmaður jarls. Hann varð við reiður mjög er hann spurði víg Bjarnar og beiddi jarl liðveislu til málsins. Jarl hét honum því. Sendi hann þá mann til Þorfinns og stefndi þeim Gretti báðum á sinn fund. Bjóst hann þegar og þeir Grettir báðir eftir boði jarls og fóru inn í Þrándheim á hans fund. Átti jarl þá stefnu að málinu og bað Hjarranda hjá vera.
Hjarrandi kvaðst eigi mundu bera bróður sinn í sjóði. "
Skal eg annaðhvort fara slíka fór sem hann ella hefna hans," segir hann.
Nú er málið var skoðað fannst jarli sem margar sakir hefði Björn gert við Gretti en Þorfinnur bauð fébætur eftir því sem jarli þætti erfingjar sæmdir af og talaði um það langt erindi hvert frelsi að Grettir hefði unnið mönnum norður í landi þá er hann drap berserkina sem áður var sagt.
Jarl svaraði: "
Satt segir þú það Þorfinnur. Það var hin mesta landhreinsun og vel samir oss að taka fébætur fyrir þín orð. Er og Grettir frægur maður fyrir sakir afls og hreysti."
Hjarrandi vildi eigi sættum taka og skildu þeir málstefnuna. Þorfinnur fékk til Arnbjörn, frænda sinn, að ganga með Gretti hvern dag því að hann vissi að Hjarrandi sat um líf hans.