Grettis saga

29. kafli

Um sumarið var lagið hestaþing fjölmennt á Langafit ofan frá Reykjum. Kom þar margt manna. Atli að Bjargi átti hest góðan, móálóttan, af Kengálu kyni. Höfðu þeir feðgar mætur miklar á hestinum. Þeir bræður Kormákur og Þorgils á Mel áttu brúnan öruggan hest til vígs. Þeir skyldu etja saman og Atli frá Bjargi. Margir voru þar aðrir góðir hestar.

Oddur ómagaskáld frændi Kormáks skyldi fylgja hesti þeirra frænda sinna um daginn. Oddur gerðist sterkur maður og lét um sig mikið, ódæll og ófyrirleitinn. Grettir spurði Atla bróður sinn hver fylgja skyldi hans hesti.

"Eigi er mér það svo glöggt," sagði hann.

"Viltu að eg standi hjá?" sagði Grettir.

"Vertu vel stilltur þá frændi," sagði Atli, "því að hér er við metnaðarmenn um að eiga."

"Gjaldi þeir sjálfir ofstopa síns," sagði Grettir, "ef þeir hafa hann eigi í hófi."

Nú eru hestarnir fram leiddir en hrossin stóðu framarlega á árbakkanum og voru bundin saman. Hylur mikill var fyrir framan bakkann. Hestarnir bitust allvel og var það hin mesta skemmtan. Oddur fylgdi með kappi en Grettir lét hefjast við og tók í taglið annarri hendi en hélt með annarri stafnum er hann keyrði með hestinn. Oddur stóð framarlega hjá sínum hesti og eigi traust að hann styngi eigi hest Atla af takinu. Eigi lét Grettir sem hann sæi það. Bárust hestarnir fram að ánni. Þá stingur Oddur stafinum til Grettis og kom á herðarblaðið því að Grettir horfði öxlinni að honum. Það var mikið tilræði svo að undan hljóp holdið en lítt skeindist Grettir. Í því bili risu hestarnir hátt upp. Grettir hljóp undir hömina á hesti sínum en rak stafinn á síðu Oddi svo hart að þrjú rifin brotnuðu í honum en Oddur hraut út á hylinn og svo hestur hans og hrossin öll þau er bundin voru. Var þá lagist til hans og dreginn af ánni.

Þá var óp mikið gert að þessu. Þeir Kormákur hlupu til vopna en Bjargsmenn í öðrum stað. En er það sáu Hrútfirðingar og Vatnsnesmenn gengu þeir í milli og urðu þeir þá skildir og fóru heim og höfðu hvorir ill heit við aðra og sátu þó um kyrrt um hríð. Atli var fátalaður um þetta en Grettir var heldur ósvífur og kvað þá finnast skyldu annan tíma ef hann mætti ráða.
Hér er lýsing á kortinu...