Barði Guðmundarson og bræður hans riðu heim í Ásbjarnarnes þá er þeir skildust Grettir. Þeir voru synir Guðmundar Sölmundarsonar. Móðir Sölmundar var Þorlaug dóttir Sæmundar hins suðureyska, fóstbróður Ingimundar hins gamla. Barði var göfugmenni mikið. Hann reið nú brátt að finna Þórarin hinn spaka fóstra sinn. Hann fagnaði Barða vel og spurði hvað hann hefði þá um árnað liðveisluna því að þeir höfðu áður gert ráð um ferð Barða. Barði svarar að hann hefði fengið þann mann til fylgdar við sig er honum þætti betra hans lið en tveggja annarra.
Þórarinn þagnaði við og mælti: "
Það mun vera Grettir Ásmundarson."
"
Spá er spaks geta," sagði Barði, "
sá er maður hinn sami fóstri minn."
Þórarinn svarar: "
Satt er það að mikið afbragð er Grettir annarra manna, þeirra er nú er kostur á voru landi, og seint mun hann sóttur vopnum verða ef hann er heill. En grunar mig um hversu heilladrjúgur hann verður og muntu þess þurfa að eigi séu allir ógæfumenn í þinni ferð og nóg mun að gert þó eigi fari hann með. Skal hann hvergi fara ef eg ræð."
"
Eigi varði mig þess fóstri minn," segir hann, "
að þú mundir fyrirmuna mér hins vaskasta manns hvað sem í gerist. Má ekki fyrir öllu sjá þá er menn verða svo neyddir til sem eg þykist vera."
"
Duga mun þér," segir Þórarinn, "
þó að eg sjái fyrir."
Varð nú svo að vera sem Þórarinn vildi að Gretti voru engi orð send en Barði fór suður til
Borgarfjarðar og urðu þá Heiðarvígin.
Grettir var að Bjargi er hann frétti að Barði var suður riðinn. Hann brást við reiður er honum voru engin orð ger og kvað þá eigi svo búið skilja skyldu. Hafði hann þá spurn af nær þeirra væri sunnan von og reið hann þá ofan til Þóreyjargnúps og ætlaði að sitja þar fyrir þeim Barða þá þeir riðu sunnan. Hann fór frá bænum í hlíðina og beið þar.
Þenna sama dag riðu þeir Barði sunnan af Tvídægru frá Heiðarvígum. Þeir voru sex saman og allir sárir mjög.
Og er þeir komu fram fyrir bæinn þá mælti Barði: "
Maður er þar uppi í hlíðinni, mikill, með vopnum eða hvern kennið þér þar?"
Þeir sögðust eigi vita hver var.
Barði mælti: "
Það hygg eg," sagði hann, "
að þar sé Grettir Ásmundarson og ef svo er þá mun hann vilja oss finna. Get eg honum hafa mislíkað er hann hefir ekki farið með oss en mér þykir vér nú ekki vel við látnir ef hann gerir nokkura óvissu af sér. Mun eg nú senda eftir mönnum heim til Þóreyjargnúps og eiga ekki undir ójafnaði hans."
Þeir segja það allráðlegt og svo gerðu þeir. Síðan riðu þeir Barði veg sinn. Grettir sá ferð þeirra og sneri þegar fyrir þá og er þeir fundust heilsa hvorir öðrum. Grettir spurði að tíðindum en Barði segir ófelmtlega slík sem voru. Grettir spurði hvað manna væri í ferð með honum. Barði kvað þar vera bræður sína og Eyjólf mág sinn.
"
Af þér hefir þú rekið ámælið nú," sagði Grettir, "
enda er nú og næst að við reynum með okkur hvor hér má meira."
Barði mælti: "
Legið hafa mér andvirki nær garði en að berjast við þig fyrir sakleysi og þykist eg nú hafa rekið það af mér."
Grettir svarar: "
Bleyðast þykir mér þú Barði," sagði Grettir, "
ef þú þorir eigi að berjast við mig."
"
Kalla þú það sem vilt," segir Barði, "
en í öðrum stað vildi eg að þú kæmir fram ójafnaði þínum en við mig. Er það eigi ólíklegt því að nú gengur úr hófi offors þitt."
Gretti þóttu illar spár hans og efar nú fyrir sér hvort hann skyldi ráða til einhvers þeirra og sýnist honum það óforsjálegt er þeir voru sex en hann einn. Og í því bili komu menn heiman frá Þóreyjargnúpi til liðs við þá Barða. Lætur Grettir þá dragast sundur með þeim og snýr til hests síns en Barði og hans félagar fóru leiðar sinnar og varð ekki af kveðjum með þeim að skilnaði. Ekki áttust þeir Barði og Grettir fleira við svo þess sé getið.
Svo hefir Grettir sagt að hann þóttist öruggur til vígs við flesta menn þó að þrír væru saman en hann mundi eigi flýja fyrir fjórum að óreyndu en því að eins berjast við fleiri nema ætti hann hendur sínar að verja sem segir í þessari vísu:
Treysti eg mér við, Mistar
mótkennandi, þrenna,
hvað er í Hildar veðri
heiftminnigt skal vinna.
Vil eg eigi fleiri en fjórum
fársætöndum mæta
að gnýfengnum Gungnis
gráð ef eg skal ráða.
Eftir skilnað þeirra Barða fór Grettir aftur til Bjargs. Þá þótti Gretti mikið mein er hann mátti hvergi prófa afl sitt og fréttist fyrir ef nokkuð væri það er hann mætti við fást.