Grettis saga

48. kafli

Einn veðurdag góðan reið Grettir vestur yfir hálsa til Þóroddsstaða. Hann kom þar nærri hádegi og drap á dyr. Konur gengu út og heilsuðu honum. Þær kenndu hann ekki. Hann spurði að Þorbirni. Þær sögðu hann farinn á engjar að binda hey og með honum son hans sextán vetra gamlan er Arnór hét. Þorbjörn var starfsmaður mikill og var nær aldrei iðjulaus. Og er Grettir hafði þetta spurt bað hann þær vel lifa og reið á burt og fram á veginn til Reykja.

Þar gengur ein mýri ofan úr hálsinum og var þar á slátta mikil og hafði Þorbjörn látið slá þar mikið hey og var þá fullþurrt. Ætlaði hann það heim að binda og sveinninn með honum en kona tók rökin. Grettir reið nú neðan á teiginn en þeir feðgarnir voru ofar og höfðu bundið eina klyf en voru þá að annarri. Þorbjörn hafði sett skjöld sinn og sverð við klyfina en sveinninn hafði handöxi hjá sér.

Þorbjörn sá manninn og mælti við sveininn: "Maður ríður þar að okkur og skulum við hætta að binda heyið og vita hvað hann vill" og svo gerðu þeir.

Grettir steig af baki. Hann hafði hjálm á höfði og gyrður saxinu og spjót mikið í hendi og öngvir krókarnir á og var silfurrekinn falurinn á. Hann settist niður og drap úr geirnaglann því að hann vildi eigi að Þorbjörn mætti aftur senda.

Þá mælti Þorbjörn: "Þetta er mikill maður og eigi kann eg mann á velli að sjá ef það er eigi Grettir Ásmundarson og mun hann eiga ærnar sakir við oss. Og verðum við rösklega og látum öngvan bilbug á okkur sjá. Skulum við fara að með ráðum og mun eg ganga að honum framan og sjá hversu til tekst með okkur því að eg treysti mér við hvern mann ef eg á einum að mæta. En þú gakk á bak honum og högg tveim höndum í milli herða honum með öxinni. Þarftu eigi að varast að hann geri þér mein síðan er hann snýr baki að þér."

Öngvan hafði Þorbjörn hjálm og hvorgi þeirra. Grettir gekk á mýrina og þegar hann kemur í skotmál við þá skaut hann spjóti að Þorbirni. En það var lausara á skaftinu en hann ætlaði og geigaði á flauginni og hljóp af skaftinu og niður í jörðina. Þorbjörn tók skjöldinn og setti fyrir sig en brá sverðinu og sneri á móti Gretti er hann kenndi hann. Grettir brá þá saxinu og sveipaði því til nokkuð svo að hann sá hvar pilturinn stóð á baki honum og því hafði hann sig lausan við. Er hann sá að pilturinn var kominn í höggfæri við sig þá reiddi hann hátt saxið. Laust hann bakkanum saxins í höfuð Arnóri svo hart að hausinn brotnaði og var það hans bani. Þá hljóp Þorbjörn mót Gretti og hjó til hans en hann brá við buklara hinni vinstri hendi og bar af sér en hann hjó fram saxinu og klauf skjöldinn af Þorbirni og kom saxið í höfuðið honum svo hart að í heilanum stóð og féll hann af þessu dauður niður. Ekki veitti Grettir þeim fleiri áverka. Leitaði hann þá að spjóti sínu og fann eigi. Gekk hann þá til hests síns og reið út til Reykja og lýsti þar vígunum.

Kona sú er var á engiteignum sá á vígin. Hljóp hún þá heim felmsfull og sagði að Þorbjörn var veginn og þeir báðir feðgar. Þetta kom mjög á þá óvara er heima voru því að engi vissi um ferðir Grettis. Var þá sent eftir mönnum á næstu bæi. Kom þar brátt margt manna, færðu líkin til kirkju. Þóroddur drápustúfur tók við eftirmáli um vígin og hafði hann þegar flokk uppi.

Grettir reið heim til Bjargs og fann móður sína og sagði þenna atburð.

Hún varð glöð við þetta og kvað hann nú hafa líkst í ætt Vatnsdæla "en þó mun þetta upphaf og undirrót sekta þinna. Veit eg það víst að þú mátt ekki hér langvistum vera sakir frænda Þorbjarnar en þó mega þeir nú vita að þér kann mikið að þykja."

Grettir kvað þá vísu:

Varð í Veðrafirði
vopnsóttr í byr Þróttar,
æst fór arfs og gneista
afl, fangvinr Hafla.
Nú er ósjötlað Atla
andrán þegar hánum,
dauðr hné hann fyrr að fríðri
fold, maklega goldið.

Ásdís húsfreyja kvað satt vera "en eigi veit eg hvað er þú ætlar nú til ráða að taka."

Grettir kvaðst nú mundu leita til vina sinna og frænda vestur til sveita "en engi vandræði skal þér af mér leiða," segir hann.

Bjóst hann þá til ferðar og skildu þau mæðgin með kærleikum. Fór hann fyrst til Mela í Hrútafjörð og sagði Gamla mági sínum allt það sem til hafði borið um vígið Þorbjörns.

Gamli bað að hann skyldi flýta sér úr Hrútafirði "meðan þeir halda flokkinum, frændur Þorbjarnar. En veita skulum vér þér að eftirmáli um víg Atla slíkt er vér megum."

Eftir það reið Grettir vestur yfir Laxárdalsheiði og létti eigi fyrri en hann kom í Ljárskóga til Þorsteins Kuggasonar og dvaldist þar lengi um haustið.
Hér er lýsing á kortinu...