Það bar næst til tíðinda að Björn andaðist, faðir Þrándar. Og er það frétti Grímur hersir fór hann til móts við Öndótt kráku og kallaði til fjárins eftir Björn en Öndóttur kvað Þránd eiga arf eftir föður sinn. Grímur kvað Þránd fyrir vestan haf en Björn
gauskan að ætt og kvað konung eiga að erfa alla útlenda menn. Öndóttur kvaðst halda mundu fénu til handa Þrándi dóttursyni sínum. Fór Grímur við það á brott og fékk ekki af fjárheimtum.
Þrándur spurði nú lát föður síns og bjóst þegar af
Suðureyjum og Önundur tréfótur með honum en þeir Ófeigur grettir og Þormóður skafti fóru út til
Íslands með skuldalið sitt og komu út á
Eyrum fyrir sunnan landið og voru hinn fyrsta vetur með Þorbirni laxakarli. Síðan námu þeir
Gnúpverjahrepp. Ófeigur nam hinn ytra hlut, á milli
Þverár og
Kálfár. Hann bjó á
Ófeigsstöðum hjá
Steinsholti. En Þormóður nam hinn eystra hlut og bjó hann í Skaftaholti. Dætur Þormóðar voru þær Þórvör, móðir Þórodds goða á
Hjalla, og Þórvé, móðir Þorsteins goða, föður Bjarna hins spaka.
Nú er að segja frá þeim Þrándi og Önundi að þeir sigldu vestan um haf til
Noregs og fengu svo mikið hraðbyri að engi njósn fór um ferð þeirra fyrr en þeir komu til Öndótts kráku.
Hann tók vel við Þrándi og sagði honum frá tilkalli því er Grímur hersir hafði haft um arf Bjarnar "
líst mér betur komið frændi að þú erfir föður þinn en konungsþrælar. Hefir þér og gæfusamlega til tekist er engi maður veit um ferðir þínar. En grunar mig að Grímur stefni að öðrum hvorum okkrum ef hann má. Vil eg að þú takir arfinn undir þig og hafir þig til annarra landa."
Þrándur kveðst svo gera mundu. Tók hann þá við fénu og bjóst sem skyndilegast í brott úr
Noregi.
Áður Þrándur sigldi á haf þá spurði hann Önund tréfót hvort hann vildi ekki leita til
Íslands. Önundur kveðst áður vilja finna frændur sína og vini suður í landi.
Þrándur mælti: "
Þá munum við nú skilja. Vildi eg að þú sinnaðir frændum mínum því að þangað mun hefndum snúið ef eg kemst undan. Mun eg fara út til Íslands og svo vildi eg að þú færir."
Önundur hét því. Skildu þeir með kærleikum. Fór Þrándur út til
Íslands. Tóku þeir Ófeigur og Þormóður skafti vel við honum. Þrándur bjó í Þrándarholti. Það er fyrir vestan Þjórsá.