Grettis saga

8. kafli

Þeir Önundur og Ásmundur létu í haf er þeir voru búnir og höfðu samflota.

Þá kvað Önundur þetta:

Þótti eg hæfr að Hrotta
hreggvindi fyrr seggjum,
þá er geirhríðar gnúði
grand hvasst, Og Súgandi.
Nú verðr á skæ skorðu,
skáldi sígr, að stíga
út með einum fæti
Íslands á vit, þvísa.

Þeir höfðu útivist harða og veður þver mjög af suðri. Bar þá norður í haf. Þeir fundu Ísland og voru þá komnir fyrir norðan Langanes er þeir kenndust við. Þá var svo skammt í milli þeirra að þeir töluðust við. Sagði Ásmundur að þeir mundu sigla til Eyjafjarðar og því játuðu hvorirtveggju. Beittu þeir þá undir landið. Þá tók veðrið að styrma af landsuðri. En er þeir Önundur lögðu í nauðbeitu þá lestist ráin. Felldu þeir þá seglið og í því rak þá til hafs undan. Ásmundur komst undir Hrísey og beið til þess er honum byrjaði inn á Eyjafjörð. Honum gaf Helgi hinn magri Kræklingahlíð alla. Hann bjó að Glerá hinni syðri.

Ásgrímur bróðir hans kom út nokkurum vetrum síðar. Hann bjó að Glerá hinni nyrðri. Hann var faðir Elliða-Gríms, föður Ásgríms.
Hér er lýsing á kortinu...