Og um sumarið áður þessi tíðindi spurðust út hingað til
Íslands þá dreymdi Illuga svarta og var hann þá heima á
Gilsbakka. Honum þótti Gunnlaugur að sér koma í svefninum og var blóðugur mjög og kvað vísu þessa fyrir honum í svefninum. Illugi mundi vísuna er hann vaknaði og kvað síðan fyrir öðrum:
Vissi eg Hrafn, en Hrafni
hvöss kom egg í leggi,
hjaltugguðum höggva
hrynfiski mig brynju,
þá er hræskærri hlýrra
hlaut fen ari benja.
Klauf gunnsproti Gunnar
Gunnlaugs höfuð runna.
Sá atburður varð suður að
Mosfelli hina sömu nátt að Önund dreymdi að Hrafn kæmi að honum og var allur alblóðugur.
Hann kvað vísu þessa:
Roðið sverð en sverða
sverð-Rögnir mig gerði.
Voru reynd í röndum
randgálkn fyrir ver handan.
Blóðug hygg eg í blóði
blóðgögl of skör stóðu.
Sárfíkinn hlaut sára
sárgammr enn á þramma.
Og um sumarið annað eftir á alþingi mælti Illugi svarti til Önundar að Lögbergi: "
Hverju viltu bæta mér son minn," sagði hann, "
er Hrafn son þinn sveik hann í tryggðum?"
Önundur svarar: "
Fjarkominn þykist eg til þess," sagði hann, "
að bæta hann svo sárt sem eg hélt á þeirra fundi. Mun eg og öngra bóta beiða þig fyrir minn son."
Illugi svarar: "
Kenna skal þá nakkvar að skauti, þinn frændi eða þinna ættmanna."
Og eftir þingið um sumarið var Illugi jafnan dapur mjög.
Það var sagt um haustið að Illugi reið heiman af
Gilsbakka með þrjá tigu manna og kom til
Mosfells snemma morguns. Önundur komst í kirkju og synir hans en Illugi tók frændur hans tvo. Hét annar Björn en annar Þorgrímur. Hann lét drepa Björn en fóthöggva Þorgrím. Reið Illugi heim eftir það og varð þessa engi rétting af Önundi.
Hermundur Illugason undi lítt eftir Gunnlaug bróður sinn og þótti ekki hans hefnt að heldur þótt þetta væri að gert.
Maður hét Hrafn og var bróðurson Önundar að
Mosfelli. Hann var farmaður mikill og átti skip er uppi stóð í
Hrútafirði. Og um vorið reið Hermundur Illugason heiman einn samt og norður Holtavörðuheiði og svo til
Hrútafjarðar og út á Borðeyri til skips kaupmannanna. Kaupmenn voru þá búnir mjög. Hrafn stýrimaður var á landi og mart manna hjá honum. Hermundur reið að honum og lagði í gegnum hann spjótinu og reið þegar í brott. En þeim varð öllum bilt félögum Hrafns við Hermund. Öngar komu bætur fyri víg þetta og með þessu skilur skipti þeirra Illuga svarta og Önundar að
Mosfelli.
Þorsteinn Egilsson gifti Helgu dóttur sína er stundir liðu fram þeim manni er Þorkell hét og var Hallkelsson. Hann bjó út í Hraunsdal og fór Helga til bús með honum og varð honum lítt unnandi því að hún verður aldrei afhuga Gunnlaugi þótt hann væri dauður. En Þorkell var þó vaskur maður að sér og auðigur að fé og skáld gott. Þau áttu börn saman eigi allfá. Þórarinn hét son þeirra og Þorsteinn og enn fleiri börn áttu þau.
Það var helst gaman Helgu að hún rekti skikkjuna Gunnlaugsnaut og horfði þar á löngum. Og eitt sinn kom þar sótt mikil á bæ þeirra Þorkels og Helgu og krömdust margir lengi. Helga tók þá og þyngd og lá þó eigi. Og einn laugaraftan sat Helga í eldaskála og hneigði höfuð í kné Þorkatli bónda sínum og lét senda eftir skikkjunni Gunnlaugsnaut. Og er skikkjan kom til hennar þá settist hún upp og rakti skikkjuna fyrir sér og horfði á um stund. Og síðan hné hún aftur í fang bónda sínum og var þá örend.
Þorkell kvað þá vísu þessa:
Lagði eg orms að armi
armgóða mér tróðu,
guðbrá Lofnar lífi
líns, andaða mína.
Þó er beiðendum bíða
bliks þungara miklu.
Helga var til kirkju færð en Þorkell bjó þar eftir og þótti allmikið fráfall Helgu sem von var að.
Og lýkur þar nú sögunni.