Hrafnkels Saga Freysgoða

15. kafli

Sámur setti bú á Aðalbóli eftir Hrafnkel, og síðan efnir hann veislu virðulega og býður til öllum þeim, sem verið höfðu þingmenn hans. Sámur býðst til að vera yfirmaður þeirra í stað Hrafnkels. Menn játuðust undir það og hugðu þó enn misjafnt til. Þjóstarssynir réðu honum það, að hann skyldi vera blíður og góður fjárins og gagnsamur sínum mönnum, styrktarmaður hvers, sem þeir þurfa við. "Þá eru þeir eigi menn, ef þeir fylgja þér eigi vel, hvers sem þú þarft við. En því ráðum við þér þetta, að við vildum, að þér tækist allt vel, því að þú virðist okkur vaskur maður. Gættu nú vel til, og vertu var um þig, af því að vant er við vondum að sjá."

Þjóstarssynir létu senda eftir Freyfaxa og liði hans og kváðust vilja sjá gripi þessa, er svo gengu miklar sögur af. Þá voru hrossin heim leidd. Þeir bræður líta á hrossin. Þorgeir mælti:

"Þessi hross lítast mér þörf búinu. Er það mitt ráð, að þau vinni slíkt er þau mega til gagnsmuna, þangað til er þau mega eigi lifa fyrir aldurs sökum. En hestur þessi sýnist mér eigi betri en aðrir hestar, heldur því verri, að margt illt hefir af honum hlotist. Vil eg eigi, að fleiri víg hljótist af honum en áður hafa af honum orðið. Mun þar nú maklegt, að sá taki við honum, er hann á."

Þeir leiða nú hestinn ofan eftir vellinum. Einn hamar stendur niður við ána, en fyrir framan hylur djúpur. Þar leiða þeir nú hestinn fram á hamarinn. Þjóstarssynir drógu fat eitt á höfuð hestinum, taka síðan háar stengur og hrinda hestinum af fram, binda stein við hálsinn og týndu honum svo. Heitir þar síðan Freyfaxahamar. Þar ofan frá standa goðahús þau, er Hrafnkell hafði átt. Þorkell vildi koma þar. Lét hann fletta goðin öll. Eftir það lætur hann leggja eld í goðahúsið og brenna allt saman.

Síðan búast boðsmenn í brottu. Velur Sámur þeim ágæta gripi báðum bræðrum, og mæla til til fullkominnar vináttu með sér og skiljast allgóðir vinir; ríða nú rétta leið vestur í fjörðu og koma heim í Þorskafjörð með virðingu.

En Sámur setti Þorbjörn niður að Leikskálum; skyldi hann þar búa. En kona Sáms fór til bús með honum á Aðalból, og býr Sámur þar um hríð.
Hér er lýsing á kortinu...