Þá voru þeir Eyvindur komnir upp á heiðina. Eyvindur ríður þar til, er hann kom vestur á miðja heiðina. Þar heita Bersagötur. Þar er svarðlaus mýri, og er sem ríði í efju eina fram, og tók jafnan í kné eða miðjan legg, stundum í kvið; þá er undir svo hart sem hölkn. Þá er hraun stórt fyrir vestan, og er þeir koma á hraunið, þá lítur sveinninn aftur og mælti til Eyvindar:
"Menn ríða þar eftir oss," segir hann, "eigi færri en átján. Er þar mikill maður á baki í bláum klæðum, og sýnist mér líkt Hrafnkeli goða. Þó hefi eg nú lengi eigi séð hann."
Eyvindur svarar: "Hvað mun oss skipta? Veit eg mér einskis ótta vonir af reið Hrafnkels. Eg hefi honum ekki í móti gert. Mun hann eiga erindi vestur til dals að hitta vini sína."
Sveinninn svarar: "Það býður mér í hug, að hann muni þig hitta vilja."
"Ekki veit eg," segir Eyvindur, "til hafa orðið með þeim Sámi, bróður mínum, síðan þeir sættust."
Sveinninn svarar: "Það vildi eg, að þú riðir undan vestur til dals. Muntu þá geymdur. Eg kann skapi Hrafnkels, að hann mun ekki gera oss, ef hann náir þér eigi. Er þá alls gætt, ef þín er, en þá er eigi dýr í festi, og er vel, hvað sem af oss verður."
Eyvindur sagðist eigi mundu brott undan ríða, - "því að eg veit eigi, hverjir þessir eru. Mundi það mörgum manni hlægilegt þykja, ef eg renn að öllu óreyndu."
Þeir ríða nú vestur af hrauninu. Þá er fyrir þeim önnur mýri, er heitir Oxamýri. Hún er grösug mjög. Þar eru bleytur, svo að nálega er ófært yfir. Af því lagði Hallfreður karl hinar efri götur, þó að þær væri lengri. Eyvindur ríður vestur á mýrina. Lá þá drjúgum í fyrir þeim. Dvaldist þá mjög fyrir þeim. Hina bar skjótt eftir, er lausu riðu. Ríða þeir Hrafnkell nú leið sína á mýrina. Þeir Eyvindur eru þá komnir af mýrinni. Sjá þeir þá Hrafnkel og sonu hans báða. Þeir báðu Eyvind þá undan að ríða. "Eru nú af allar torfærur. Muntu ná til Aðalbóls, meðan mýrin er á millum."
Eyvindur svarar: "Eigi mun eg flýja undan þeim mönnum, er eg hefi ekki til miska gert."
Þeir ríða þá upp á hálsinn. Þar standa fjöll lítil á hálsinum. Utan í fjallinu er meltorfa ein, blásin mjög. Bakkar háir voru umhvefis. Eyvindur ríður að torfunni; þar stígur hann af baki og bíður þeirra.
Eyvindur segir: "Nú munum vér skjótt vita þeirra erindi."
Eftir það gengu þeir upp á torfuna og brjóta þar upp grjót nokkurt. Hrafnkell snýr þá af götunni og suður að torfunni. Hann hafði engi orð við Eyvind og veitti þegar aðgöngu. Eyvindur varðist vel og drengilega. Skósveinn Eyvindar þóttist ekki kröftugur til orrustu og tók hest sinn og ríður vestur yfir háls til Aðalbóls og segir Sámi, hvað leika er. Sámur brá skjótt við og sendi eftir mönnum. Urðu þeir saman tuttugu. Var þetta lið vel búið. Ríður Sámur austur á heiðina og að þar, er vettfangið hafði verið. Þá er umskipti á orðið með þeim. Reið Hrafnkell þá austur frá verkunum. Eyvindur var þá fallinn og allir hans menn.
Sámur gerði það fyrst, að hann leitaði lífs með bróður sínum. Var það trúlega gert. Þeir voru allir líflátnir, fimm saman. Þar voru og fallnir af Hrafnkeli tólf menn, en sex riðu brott. Sámur átti þar litla dvöl, bað menn ríða þegar eftir. Ríða þeir nú eftir þeim og hafa þó mædda hesta. Þá mælti Sámur: "Ná megum vér þeim, því að þeir hafa mædda hesta, en vér höfum alla hvílda, og mun nálægt verða, hvort vér náum þeim eða eigi, áður en þeir komast af heiðinni."
Þá var Hrafnkell kominn austur yfir Oxamýri. Ríða nú hvorirtveggju allt til þess, að Sámur kemur á heiðarbrúnina. Sá hann þá, að Hrafnkell var kominn lengra ofan í brekkurnar. Sér Sámur, að hann mun undan taka ofan í héraðið. Hann mælti þá:
"Hér munum vér aftur snúa, því að Hrafnkeli mun gott til manna verða."
Snýr Sámur þá aftur við svo búið, kemur þar til, er Eyvindur lá, tekur til og verpur haug eftir hann og félaga hans. Er þar og kölluð Eyvindartorfa og Eyvindarfjöll og Eyvindardalur.