Hrafnkels Saga Freysgoða

2. kafli

Hrafnkell lagði það í vanda sinn að ríða yfir á heiðar á sumarið. Þá var Jökulsdalur albyggður upp að brúm. Hrafnkell reið upp eftir Fljótsdalsheiði og sá, hvar eyðidalur gekk af Jökulsdal. Sá dalur sýndist Hrafnkatli byggilegri en aðrir dalir, þeir sem hann hafði áður séð. En er Hrafnkell kom heim, beiddi hann föður sinn fjárskiptis, og sagðist hann bústað vilja reisa sér. Þetta veitti faðir hans honum, og hann gerir sér bæ í dal þeim og kallar á Aðalbóli.

Hrafnkell fékk Oddbjargar Skjöldólfsdóttur úr Laxárdal. Þau áttu tvo sonu. Hét hinn eldri Þórir, en hinn yngri Ásbjörn.

En þá er Hrafnkell hafði land numið á Aðalbóli, þá efldi hann blót mikil. Hrafnkell lét gera hof mikið. Hrafnkell elskaði eigi annað goð meira en Frey, og honum gaf hann alla hina bestu gripi sína hálfa við sig. Hrafnkell byggði allan dalinn og gaf mönnum land, en vildi þó vera yfirmaður þeirra og tók goðorð yfir þeim. Við þetta var lengt nafn hans og kallaður Freysgoði, og var ójafnaðarmaður mikill, en menntur vel. Hann þröngdi undir sig Jökulsdalsmönnum til þingmanna. Hann var linur og blíður við sína menn, en stríður og stirðlyndur við Jökulsdalsmenn, og fengu þeir af honum öngvan jafnað. Hrafnkell stóð mjög í einvígum og bætti öngvan mann fé, því að engi fékk af honum neinar bætur, hvað sem hann gerði.

Fljótsdalsheiði er yfirferðarill, grýtt mjög og blaut, en þó riðu þeir feðgar jafnan hvorir til annarra, því að gott var í frændsemi þeirra. Hallfreði þótti sú leið torsótt og leitaði sér leiðar fyrir ofan fell þau, er standa í Fljótsdalsheiði. Fékk hann þar þurrari leið og lengri, og heitir þar Hallfreðargata. Þessa leið fara þeir einir, er kunnugastir eru um Fljótsdalsheiði.
Hér er lýsing á kortinu...