Hrafnkels Saga Freysgoða

4. kafli

Þorbjörn hét maður. Hann var bróðir Bjarna og bjó á þeim bæ í Hrafnkelsdal, er að Hóli hét, gegnt Aðalbóli fyrir austan. Þorbjörn átti fé lítið, en ómegð mikla. Sonur hans hét Einar hinn elsti; hann var mikill og vel mannaður.

Það var á einu vori, að Þorbjörn mælti til Einars, að hann mundi leita sér vistar nokkurrar, - "því að eg þarf eigi meira forvirki en þetta lið orkar, er hér er, en þér mun verða gott til vista, því að þú ert mannaður vel. Eigi veldur ástleysi þessari brottkvaðning við þig, því að þú ert mér þarfastur barna minna; meir veldur því efnaleysi mitt og fátækt; en önnur börn mín gerast verkmenn. Mun þér þó verða betra til vista en þeim."

Einar svarar: "Of síð hefir þú sagt mér til þessa, því að nú hafa allir ráðið sér vistir, þær er bestar eru, en mér þykir þó illt að hafa úrval af."

Einn dag tók Einar hest sinn og reið á Aðalból. Hrafnkell sat í stofu. Hann heilsar honum vel og glaðlega. Einar leitar til vistar við Hrafnkel. Hann svaraði:

"Hví leitaðir þú þessa svo síð, því að eg mundi við þér fyrstum tekið hafa. En nú hefi eg ráðið öllum hjónum nema til þeirrar einnar iðju, er þú munt ekki hafa vilja." Einar spurði, hver sú væri. Hrafnkell kvaðst eigi mann hafa ráðið til smalaferðar, en lést mikils við þurfa. Einar kvaðst eigi hirða, hvað hann ynni, hvort sem það væri þetta eða annað, en lést tveggja missera björg hafa vilja.

"Eg geri þér skjótan kost," sagði Hrafnkell. "Þú skalt reka heim fimm tigu ásauðar í seli og viða heim öllum sumarviði. Þetta skaltu vinna til tveggja missera vistar. En þó vil eg skilja á við þig einn hlut sem aðra smalamenn mína: Freyfaxi gengur í dalnum fram með liði sínu; honum skaltu umsjá veita vetur og sumar. En varnað býð eg þér á einum hlut: Eg vil, að þú komir aldrei á bak honum, hversu mikil nauðsyn sem þér er á, því að eg hefi hér allmikið um mælt, að þeim manni skyldi eg að bana verða, sem honum riði. Honum fylgja tólf hross. Hvert sem þú vilt af þeim hafa á nótt eða degi, skulu þér til reiðu. Ger nú sem eg mæli, því að það er forn orðskviður, að eigi veldur sá, er varar annan. Nú veistu, hvað eg hefi um mælt."

Einar kvað sér eigi mundu svo meingefið að ríða þeim hesti, er honum var bannað, ef þó væri mörg önnur til.
Hér er lýsing á kortinu...