Öndverðan vetur þá er snjó lagði á fjöll sneri Búi ferð sinni upp í byggðina. Dvaldist hann þá í ofanverðri byggðinni um hríð með bónda þeim er Rauður hét. Búi spurði Rauð ef hann kynni nokkuð ráð til að leggja með honum að hann kæmi fram ferðinni.
Rauður mælti: "
Marga menn hefir konungur sent þessa erindis og hefir engi aftur komið og auðsýnt er mér að konungur vill þig feigan. En öngra manna veit eg þeirra von að viti hvar Dofri ræður fyrir nema Haraldur konungur. En þar þú hefir mig sóttan þá skal eg til leggja nokkuð. Eg mun vísa þér leið til Dofrafjalls og svo gnípu þeirrar er flestir menn ætla að hellir Dofra muni í vera. Haga þú og svo til að þú kom undir þá gnípu jólaaftan en síðan verður þú að leitast um. Ekki kann eg meira að að gera."
Búi bað hann hafa þökk fyrir og gaf Rauð fingurgull gott og mikið.
Rauður þakkaði honum gjöfina "
og kom hér Búi," sagði hann, "
ef svo ólíklega er að þú komir aftur."
Búi kvað svo vera skyldu.
Hann háttar nú svo öllu sem Rauður hafði mælt, kom jólaaftan undir þessa gnípu og dvaldist þar um hríð og sá þar ekki líklegt til dyra.
Búi drap þá hjöltum sínum á hamrinum og mælti: "
Þú Dofri," sagði hann, "
lúk upp þú höll þína og lát inn farmóðan mann og langt að kominn. Þar byrjar þinni tign."
En er Búi hafði þetta mælt þrem sinnum þá lét í hamrinum sem er gengur reið og í því spratt í sundur hamarinn og urðu á dyr og því næst gekk kona í dyrnar. Hún var mikil á allan vöxt. Hún var fögur að áliti og vel búin, í rauðum kyrtli og allur hlöðum búinn, og digurt silfurbelti um sig. Hún hafði slegið hár sem meyja siður er. Var það mikið og fagurt. Hún hafði fagra hönd og mörg gull á og sterklegan handlegg og öll var hún listuleg að sjá. Hún heilsaði hinum komna. Hann tók því vel. Hún spurði hann að nafni.
Hann sagði henni "
eða hvert er þitt nafn eða kyn?"
Hún segir: "
Eg heiti Fríður dóttir Dofra konungs eða því berð þú maður um herbergi vor?" sagði hún.
"
Eg vil hitta föður þinn og biðja hann jólavistar. Hann er einn frægastur konungur."
Fríður mælti: "
Ekki ertu ólíklegur maður að sjá. Kalla eg ráð að þú gangir inn með mér."
Búi gerði svo. Fríður bað þá aftur lúkast hellinn og svo var. Þau gengu þá um stund og lýsti af eldi. Hún sneri þá út að bjarginu í einum stað. Var þar fyrir hurð og önnur og þá komu þau í lítið herbergi. Það var allt tjaldað og ágæta vel um búið.
Fríður mælti: "
Hér skaltu Búi setjast niður og hvíla þig og leggja af þér vopn þín og vosklæði."
Hann gerði svo. Síðan skaut hún fyrir þau fögru borði og bjó það, bar síðan að honum munnlaug af silfri og dýran dúk. Því næst bað hún hann sitja og snæða. Tók hún þá góða vist og ágætan drykk. Allur borðbúnaður var þar af silfri og við gull búinn, diskar og ker og spænir. Fríður settist þá niður hjá Búa og snæddu og drukku bæði saman. Hún bað hann þá segja sér allt af sínum ferðum. Búi gerði nú svo að hann sagði henni allt af þarkomu sinni.
"
Nú hefir þú vel gert," sagði hún, "
að þú hefir ekki dult mig hins sanna. Má vera að þér verði ekki mein að því. En vita þóttist eg áður. En marga menn hefir Haraldur konungur sent eftir tafli þessu og hefir faðir minn öllum tortímt en nú mun eg ganga að finna hann og segja honum hvað komið er."
Fríður gekk þá á braut og var á brott um hríð. Búi fagnaði henni vel er hún kom aftur og spurði hvað þau faðir hennar hefðu við talast. Hún kveðst hafa sagt honum að skeggbarn eitt lítið væri komið. Hann lést vilja sjá það.
"
Eg sagði að það varð að hvílast í nótt. Skaltu nú hér sofa í nótt í mínu herbergi."
Hann lét sér það vel líka. Skemmtu þau sér þar um kveldið.