Það sumar er Búi fór utan gekk Ólöf hin væna með barni. Fæddi hún um haustið mey er hún kenndi Búa og var kölluð Þuríður. Esja bauð meynni til fósturs til sín og það þágu þau Kolli.
En það sumar er Búi var í
Þrándheimi fóru til
Íslands Helgi og Vakur. Sögðu þeir út þau tíðindi að Búi væri látinn og Haraldur konungur hefði sent hann forsending þá er engi hefði aftur komið. En er það spurðist fór Kolfinnur til
Kollafjarðar og tók þaðan á brott Ólöfu hina vænu nauðga og að óvilja fölur hennar. Kolfinnur fór þá með Ólöfu út til
Vatns. Var hún þar sumar og veturinn eftir.
En um sumarið eftir kom skip suður á
Eyrarbakka í höfn þá er heitir í
Einarshöfn. Spurðist það þar af að þar var á Búi Andríðsson. Og þegar þetta spurðist ofan yfir heiði hélt Kolfinnur til njósnum um ferðir Búa og spurði er hann kom í Ölfus. Þá reið Kolfinnur heiman upp til
Öxnaskarðs við tólfta mann. Þar var með honum Grímur frændi hans og tíu menn aðrir. Þeir sátu þar fyrir Búa.
Í því bili reið Búi ofan úr skarðinu. Hann sá mennina vopnaða. Hann hugsar hverjir vera mundu. Búi hafði öll góð vopn. Hann var í skyrtu sinni Esjunaut. Búi reið til steins eins mikils er stóð undir skarðinu og sté þar af hesti sínum. Þeir hlupu þá þangað til. Búi hafði haft snarspjót lítið í hendi. Fleygði hann því til þeirra. Það kom í skjöld Gríms neðanverðan. Þá brast út úr skildinum. Hljóp þá spjótið í fót Grími fyrir ofan kné og þar í gegnum. Var Grímur þegar óvígur. Búi sneri þá baki að steininum því að hann er svo mikill sem hamar. Mátti þá framan aðeins að honum ganga.
Kolfinnur mælti þá: "
Vel er það Búi að vér höfum hér mæst. Mun nú eigi hlífa hellir Esju tröllsins sem næst."
Búi segir: "
Ekki kann eg að kasta löstum á það. Hafa þeir einir orðið fundir okkrir er þú munt svo lítið hafa í unnið. Vænti eg að svo muni enn vera. Er það nú drengsverk að einn gangi að einum."
Kolfinnur mælti: "
Þess skulum vér nú njóta að vér erum fleiri."
Búi mælti: "
Þá skal vel við því taka."
Þá veittu þeir honum atsókn en hann varðist prúðlega. Kolfinnur eggjaði sína menn en hlífðist sjálfur við því að hann ætlaði sér afburð. En þeim var Búi torsóttur því að þótt þeir kæmu höggum eða lögum á hann þá varð hann ekki sár þar er skyrtan tók en hver sem hann kom höggum á þá þurfti eigi um að binda. Var þá svo komið að sex menn voru látnir af Kolfinni en hinir allir sárir. Búi var sár á fæti.
Kolfinnur mælti þá: "
Mikið tröll ertu Búi," sagði hann, "
er þú verst svo lengi jafnmörgum mönnum."
Búi mælti: "
Þú hefir í leikandi einni haft og er það klækilegt að þora eigi að sækja að mér."
Kolfinnur mælti: "
Það mundi eg vilja að þú ættir það að segja að eg hlífist eigi við áður en lúki."
Hljóp Kolfinnur þá að Búa með brugðið sverð og hjó hvert að öðru. Búi hlífði sér með skildinum. Kolfinnur hjó hart og tíðum og sótti alldrengilega. Hjóst þá allmjög skjöldur Búa. En er Kolfinni rénaði hin mesta atsókn og hann mæðist þá herti Búi að honum og gekk þá fram frá steininum. Hann hjó þá eigi mörg högg áður hann ónýtti skjöld Kolfinns. Síðan veitti hann Kolfinni það slag að hann tók í sundur í miðju. Búi var þá og sár nokkuð bæði á höndum og fótum þar sem eigi hafði skyrtan hlíft en ákaflega var hann vígmóður. Búi gekk þá þangað til sem Grímur var son Korpúlfs og spurði hvort hann vildi grið hafa. Hann kveðst það vildu.
"
Þá skaltu það sverja," segir Búi, "
að vera mér trúr héðan af."
Grímur kvað svo vera skyldu. Förunautar Kolfinns tóku þá og grið af Búa. Bað hann þá taka lík Kolfinns og sjá fyrir því.
Búi tók þá hest sinn. Reið hann þar til er hann kom ofan til
Elliðavatns. Ólöf var úti og heilsaði Búa. Hann bað hana taka klæði sín og fara með sér. Hún gerði svo. Reið hún með Búa til
Kollafjarðar. Kolli var úti og fagnaði vel Búa og bauð honum þar að vera. Búi kveðst mundu eiga þar dvöl nokkura við laugina og binda sár sín. Var nú svo gert.
Búi mælti þá til Kolla: "
Nú er svo Kolli," sagði Búi, "
sem þér er kunnigt um skipti okkar Ólafar. Hefi eg launað Kolfinni sína djörfung. En nú skal Ólöf dóttir yður vera með þér þar til henni býðst forlag því að eg vil nú þó ekki elska hana síðan Kolfinnur hefir spillt henni."
Nú varð svo að vera sem Búi vildi.