Ketill flatnefur hét maður son Bjarnar bunu. Hann var hersir ríkur í
Noregi og kynstór. Hann bjó í Raumsdal í Raumsdælafylki. Það er milli Sunnmærar og Norðmærar. Ketill flatnefur átti Yngvildi dóttur Ketils veðurs, ágæts manns. Þeirra börn voru fimm. Hét einn Björn hinn austræni, annar Helgi bjólan. Þórunn hyrna hét dóttir Ketils er átti Helgi hinn magri son Eyvindar austmanns og Raförtu dóttur Kjarvals Írakonungs. Unnur hin djúpúðga var enn dóttir Ketils er átti Ólafur hvíti Ingjaldsson Fróðasonar hins frækna er Svertlingar drápu. Jórunn manvitsbrekka hét enn dóttir Ketils. Hún var móðir Ketils hins fiskna er nam land í Kirkjubæ. Hans son var Ásbjörn faðir Þorsteins, föður Surts, föður Sighvats lögsögumanns.