Laxdæla Saga

11. kafli

Þórður goddi hét maður er bjó í Laxárdal fyrir norðan á. Sá bær heitir síðan á Goddastöðum. Hann var auðmaður mikill. Engi átti hann börn. Keypt hafði hann jörð þá er hann bjó á. Hann var nábúi Hrapps og fékk oft þungt af honum. Höskuldur sá um með honum svo að hann hélt bústað sínum.

Vigdís hét kona hans og var Ingjaldsdóttir, Ólafssonar feilans. Bróðurdóttir var hún Þórðar gellis en systurdóttir Þórólfs rauðnefs frá Sauðafelli. Þórólfur var hetja mikil og átti góða kosti. frændur hans gengu þangað jafnan til trausts. Vigdís var meir gefin til fjár en brautargengis.

Þórður átti þræl þann er út kom með honum. Sá hét Ásgautur. Hann var mikill maður og gervilegur en þótt hann væri þræll kallaður þá máttu fáir taka hann til jafnaðar við sig þótt frjálsir hétu og vel kunni hann að þjóna sínum meistara. Fleiri átti Þórður þræla þó að þessi sé einn nefndur.

Þorbjörn hét maður. Hann bjó í Laxárdal hið næsta Þórði, upp frá bæ hans, og var kallaður skrjúpur. Auðigur var hann að fé. Mest var það í gulli og silfri. Mikill maður var hann vexti og rammur að afli. Engi var hann veifiskati við alþýðu manns.

Höskuldi Dala-Kollssyni þótti það ávant um rausn sína að honum þótti bær sinn húsaður verr en hann vildi. Síðan kaupir hann skip að hjaltneskum manni. Það skip stóð uppi í Blönduósi. Það skip býr hann og lýsir því að hann ætlar utan en Jórunn varðveitir bú og börn þeirra.

Nú láta þeir í haf og gefur þeim vel og tóku Noreg heldur sunnarlega, komu við Hörðaland þar sem kaupstaðurinn í Björgvin er síðan. Hann setur upp skip sitt og átti þar mikinn frænda afla þótt eigi séu hér nefndir. Þá sat Hákon konungur í Víkinni. Höskuldur fór ekki á fund Hákonar konungs því að frændur hans tóku þar við honum báðum höndum. Var kyrrt allan þann vetur.
Hér er lýsing á kortinu...