Laxdæla Saga

13. kafli

Eftir þetta tók konungur með allri blíðu Höskuldi og bað hann ganga á sitt skip "og ver með oss meðan þú vilt í Noregi vera."

Höskuldur svarar: "Hafið þökk fyrir boð yðvart en nú á eg þetta sumar margt að starfa. Hefir það mjög til haldið er eg hefi svo lengi dvalið að sækja yðvarn fund að eg ætlaði að afla mér húsaviðar."

Konungur bað hann halda skipinu til Víkurinnar. Höskuldur dvaldist með konungi um hríð. Konungur fékk honum húsavið og lét ferma skipið.

Þá mælti konungur til Höskulds: "Eigi skal dvelja þig hér með oss lengur en þér líkar en þó þykir oss vandfengið manns í stað þinn."

Síðan leiddi konungur Höskuld til skips og mælti: "Að sómamanni hefi eg þig reyndan og nær er það minni ætlan að þú siglir nú hið síðasta sinn af Noregi svo að eg sé hér yfirmaður."

Konungur dró gullhring af hendi sér, þann er vó mörk, og gaf Höskuldi og sverð gaf hann honum annan grip, það er til kom hálf mörk gulls. Höskuldur þakkaði konungi gjafirnar og þann allan sóma er hann hafði fram lagið.

Síðan stígur Höskuldur á skip sitt og siglir til hafs. Þeim byrjaði vel og komu að fyrir sunnan land, sigldu síðan vestur fyrir Reykjanes og svo fyrir Snæfellsnes og inn í Breiðafjörð. Höskuldur lenti í Laxárósi, lætur þar bera farm af skipi sínu en setja upp skipið fyrir innan Laxá og gerir þar hróf að og sér þar tóftina sem hann lét gera hrófið. Þar tjaldaði hann búðir og er það kallaður Búðardalur.

Síðan lét Höskuldur flytja heim viðinn og var það hægt því að eigi var löng leið. Ríður Höskuldur eftir það heim við nokkura menn og fær viðtökur góðar sem von er. Þar hafði og fé vel haldist síðan. Jórunn spyr hver kona sú væri er í för var með honum.

Höskuldur svarar: "Svo mun þér þykja sem eg svari þér skætingu. Eg veit eigi nafn hennar."

Jórunn mælti: "Það mun tveimur skipta að sá kvittur mun loginn er fyrir mig er kominn eða þú munt hafa talað við hana jafnmargt sem spurt hafa hana að nafni."

Höskuldur kvaðst þess eigi þræta mundu og segir henni hið sanna og bað þá þessi konu virkta og kvað það nær sínu skapi að hún væri heima þar að vistafari.

Jórunn mælti: "Eigi mun eg deila við frillu þína þá er þú hefir flutt af Noregi þótt hún kynni góðra návist en nú þykir mér það allra sýnst ef hún er bæði dauf og mállaus."

Höskuldur svaf hjá húsfreyju sinni hverja nótt síðan hann kom heim en hann var fár við frilluna. Öllum mönnum var auðsætt stórmennskumót á henni og svo það að hún var engi afglapi.

Og á ofanverðum vetri þeim fæddi frilla Höskulds sveinbarn. Síðan var Höskuldur þangað kallaður og var honum sýnt barnið. Sýndist honum sem öðrum að hann þóttist eigi séð hafa vænna barn né stórmannlegra. Höskuldur var að spurður hvað sveinninn skyldi heita. Hann bað sveininn kalla Ólaf því að þá hafði Ólafur feilan andast litlu áður, móðurbróðir hans. Ólafur var afbragð flestra barna. Höskuldur lagði ást mikla við sveininn.

Um sumarið eftir mælti Jórunn að frillan mundi upp taka verknað nokkurn eða fara í brott ella. Höskuldur bað hana vinna þeim hjónum og gæta þar við sveins síns. En þá er sveinninn var tvævetur þá var hann almæltur og rann einn saman sem fjögurra vetra gömul börn.

Það var til tíðinda einn morgun er Höskuldur var genginn út að sjá um bæ sinn. Veður var gott. Skein sól og var lítt á loft komin. Hann heyrði mannamál. Hann gekk þangað til sem lækur féll fyrir túnbrekkunni. Sá hann þar tvo menn og kenndi. Var þar Ólafur son hans og móðir hans. Fær hann þá skilið að hún var eigi mállaus því að hún talaði þá margt við sveininn. Síðan gekk Höskuldur að þeim og spyr hana að nafni og kvað henni ekki mundu stoða að dyljast lengur. Hún kvað svo vera skyldu. Setjast þau niður á túnbrekkuna.

Síðan mælti hún: "Ef þú vilt nafn mitt vita þá heiti eg Melkorka."

Höskuldur bað hana þá segja lengra ætt sína.

Hún svarar: "Mýrkjartan heitir faðir minn. Hann er konungur á Írlandi. Eg var þaðan hertekin fimmtán vetra gömul."

Höskuldur kvað hana helsti lengi hafa þagað yfir svo góðri ætt.

Síðan gekk Höskuldur inn og sagði Jórunni hvað til nýlundu hafði gerst í ferð hans. Jórunn kvaðst eigi vita hvað hún segði satt, kvað sér ekki um kynjamenn alla og skilja þau þessa ræðu. Var Jórunn hvergi betur við hana en áður en Höskuldur nokkuru fleiri.

Og litlu síðar er Jórunn gekk að sofa togaði Melkorka af henni og lagði skóklæðin á gólfið. Jórunn tók sokkana og keyrði um höfuð henni. Melkorka reiddist og setti hnefann á nasar henni svo að blóð varð laust. Höskuldur kom að og skildi þær.

Eftir það lét hann Melkorku í brott fara og fékk henni þar bústað uppi í Laxárdal. Þar heitir síðan á Melkorkustöðum. Þar er nú auðn. Það er fyrir sunnan Laxá. Setur Melkorka þar bú saman. Fær Höskuldur þar til bús allt það er hafa þurfti og fór Ólafur son þeirra með henni. Brátt sér það á Ólafi er hann óx upp að hann mundi verða mikið afbragð annarra manna fyrir vænleiks sakir og kurteisi.
Hér er lýsing á kortinu...