Nú er frá Höskuldi að segja að ráð hans er virðulegt. Var hann höfðingi mikill. Hann varðveitti mikið fé er átti Hrútur Herjólfsson bróðir hans. Margir menn mæltu það að nokkuð mundu ganga skorbíldar í fé Höskulds ef hann skyldi vandlega út gjalda móðurarf hans.
Hrútur er hirðmaður Haralds konungs Gunnhildarsonar og hafði af honum mikla virðing. Hélt það mest til þess að hann gafst best í öllum mannraunum. En Gunnhildur drottning lagði svo miklar mætur á hann að hún hélt engin hans jafningja innan hirðar hvorki í orðum né öðrum hlutum. En þó að mannjafnaður væri hafður og til ágætis manna talað þá var það öllum mönnum auðsætt að Gunnhildi þótti hyggjuleysi til ganga eða öfund ef nokkurum manni var til Hrúts jafnað.
Með því að Hrútur átti að vitja til
Íslands fjárhlutar mikils og göfugra frænda þá fýsist hann að vitja þess, býr nú ferð sína til
Íslands. Konungur gaf honum skip að skilnaði og kallaðist hann reynt hafa að góðum dreng.
Gunnhildur leiddi Hrút til skips og mælti: "
Ekki skal þetta lágt mæla að eg hefi þig reyndan að miklum ágætismanni því að þú hefir atgervi jafnfram hinum bestum mönnum hér í landi en þú hefir vitsmuni langt umfram."
Síðan gaf hún honum gullhring og bað hann vel fara, brá síðan skikkjunni að höfði sér og gekk snúðigt heim til bæjar.
En Hrútur stígur á skip og siglir í haf. Honum byrjaði vel og tók Breiðafjörð. Hann siglir inn að eyjum. Síðan siglir hann inn Breiðasund og lendir við Kambsnes og bar bryggjur á land. Skipkoman spurðist og svo það að Hrútur Herjólfsson var stýrimaður. Ekki fagnar Höskuldur þessum tíðindum og eigi fór hann á fund hans.
Hrútur setur upp skip sitt og býr um. Þar gerði hann bæ er síðan heitir á Kambsnesi. Síðan reið Hrútur á fund Höskulds og heimtir móðurarf sinn. Höskuldur kvaðst ekki fé eiga að gjalda, kvað eigi móður sína hafa farið félausa af
Íslandi þá er hún kom til móts við Herjólf. Hrúti líkar illa og reið í brott við svo búið. Allir frændur Hrúts gera sæmilega til hans, aðrir en Höskuldur.
Hrútur bjó þrjá vetur á Kambsnesi og heimtir jafnan fé að Höskuldi á þingum eða öðrum lögfundum og var vel talaður. Kölluðu það flestir að Hrútur hefði rétt að mæla. En Höskuldur flutti það að Þorgerður var eigi að hans ráði gift Herjólfi en lést vera lögráðandi móður sinnar og skilja við það.
Það sama haust eftir fór Höskuldur að heimboði til Þórðar godda. Þetta spyr Hrútur og reið hann á Höskuldsstaði við tólfta mann. Hann rak á brott naut tuttugu. Jafnmörg lét hann eftir. Síðan sendi hann mann til Höskulds og bað segja hvert eftir fé var að leita. Húskarlar Höskulds hlupu þegar til vopna og voru ger orð þeim er næstir voru og urðu þeir fimmtán saman. Reið hver þeirra svo sem mátti hvatast. Þeir Hrútur sáu eigi fyrr eftirreiðina en þeir áttu skammt til garðs á Kambsnesi. Stíga þeir Hrútur þegar af baki og binda hesta sína og ganga fram á mel nokkurn og sagði Hrútur að þeir mundu þar við taka, kvaðst það hyggja þótt seint gengi fjárheimtan við Höskuld að eigi skyldi það spyrjast að hann rynni fyrir þrælum hans. Förunautar Hrúts sögðu að liðsmunur mundi vera. Hrútur kvaðst það ekki hirða, kvað þá því verrum förum fara skyldu sem þeir væru fleiri. Þeir Laxdælir hljópu nú af hestum sínum og bjuggust nú við. Hrútur bað þá ekki meta muninn og hleypur í móti þeim. Hann hafði hj álm á höfði en sverð brugðið í hendi en skjöld í annarri. Hann var vígur allra manna best. Svo var Hrútur þá óður að fáir gátu fylgt honum. Börðust vel hvorirtveggju um hríð en brátt fundu þeir Laxdælir það að þeir áttu þar eigi við sinn maka sem Hrútur var því að þá drap hann tvo menn í einu athlaupi. Síðan báðu Laxdælir sér griða. Hrútur kvað þá víst hafa skyldu grið. Húskarlar Höskulds voru þá allir sárir, þeir er upp stóðu, en fjórir voru drepnir. Hrútur fór heim og var nokkuð sár en förunautar hans lítt eða ekki því að hann hafði sig mest frammi haft. Er það kallaður Orustudalur síðan þeir börðust þar. Síðan lét Hrútur af höggva féið.
Það er sagt frá Höskuldi að hann kippir mönnum að sér er hann spyr ránið og reið hann heim. Það var mjög jafnskjótt að húskarlar hans koma heim. Þeir sögðu sínar ferðir ekki sléttar. Höskuldur verður við þetta óður og kvaðst ætla að taka eigi oftar af honum rán og manntjón, safnar hann mönnum þann dag allan að sér.
Síðan gekk Jórunn húsfreyja til tals við hann og spyr að um ráðagerð hans.
Hann segir: "
Litla ráðagerð hefi eg stofnað en gjarna vildi eg að annað væri oftar að tala en um dráp húskarla minna."
Jórunn svarar: "
Þessi ætlun er ferleg ef þú ætlar að drepa slíkan mann sem bróðir þinn er. En sumir menn kalla að eigi sé sakleysi í þótt Hrútur hefði fyrr þetta fé heimt. Hefir hann það nú sýnt að hann vill eigi vera hornungur lengur þess er hann átti, eftir því sem hann átti kyn til. Nú mun hann hafa eigi fyrr þetta ráð upp tekið, að etja kappi við þig, en hann mun vita sér nokkurs trausts von af hinum meirum mönnum því að mér er sagt að farið muni hafa orðsendingar í hljóði milli þeirra Þórðar gellis og Hrúts. Mundi mér slíkir hlutir þykja ísjáverðir. Mun Þórði þykja gott að veita að slíkum hlutum er svo brýn eru málaefni. Veistu og það Höskuldur síðan er mál þeirra Þórðar godda og Vigdísar urðu að ekki verður slík blíða á með ykkur Þórði gelli sem áður þótt þú kæmir í fyrstu af þér með fégjöfum fjandskap þeirra frænda. Hygg eg og það Höskuldur," segir hún, "
að þeim þykir þú þar raunmjög sitja yfir sínum hlut og son þinn Ólafur. Nú þætti oss hitt ráðlegra að þú byðir Hrúti bróður þínum sæmilega því að þar er fangs von af frekum úlfi. Vænti eg þess að Hrútur taki því vel og líklega því að mér er maður sagður vitur. Mun hann það sjá kunna að þetta er hvorstveggja ykkar sómi."
Höskuldur sefaðist mjög við fortölur Jórunnar. Þykir honum þetta vera sannlegt.
Fara nú menn í milli þeirra er voru beggja vinir og bera sættarorð af Höskulds hendi til Hrúts en Hrútur tók því vel, kvaðst að vísu vilja semja við Höskuld, kvaðst þess löngu hafa verið búinn að þeir semdu sína frændsemi eftir því sem vera ætti ef Höskuldur vildi honum rétts unna. Hrútur kvaðst og Höskuldi vilja unna sóma fyrir afbrigð þau er hann hafði gert af sinni hendi. Eru nú þessi mál sett og samið í milli þeirra bræðra Höskulds og Hrúts. Taka þeir nú upp frændsemi sína góða héðan í frá.
Hrútur gætir nú bús síns og gerist mikill maður fyrir sér. Ekki var hann afskiptinn um flesta hluti en vildi ráða því er hann hlutaðist til. Hrútur þokaði nú bústað sínum og bjó þar sem nú heitir á Hrútsstöðum allt til elli. Hof átti hann í túni og sér þess enn merki. Það er nú kallað Tröllaskeið. Þar er nú þjóðgata.
Hrútur kvongaðist og fékk konu þeirrar er Unnur hét, dóttir Marðar gígju. Unnur gekk frá honum. Þar af hefjast deilur þeirra Laxdæla og Fljótshlíðinga. Aðra konu átti Hrútur þá er Þorbjörg hét. Hún var Ármóðsdóttir. Átt hefir Hrútur hina þriðju konu, og nefnum vér hana eigi. Sextán sonu átti Hrútur og tíu dætur við þessum tveim konum. Svo segja menn að Hrútur væri svo á þingi eitt sumar að fjórtán synir hans væru með honum. Því er þessa getið að það þótti vera rausn mikil og afli því að allir voru gervilegir synir hans.