Laxdæla Saga

24. kafli

Þau Ólafur og Þorgerður voru á Höskuldsstöðum og takast þar ástir miklar. Auðsætt var það öllum mönnum að hún var skörungur mikill en fáskiptin hversdaglega. En það varð fram að koma er Þorgerður vildi til hvers sem hún hlutaðist. Ólafur og Þorgerður voru ýmist þann vetur á Höskuldsstöðum eða með fóstra hans. Um vorið tók Ólafur við búi á Goddastöðum. Það sumar tók Þórður goddi sótt þá er hann leiddi til bana. Ólafur lét verpa haug eftir hann í nesi því er gengur fram í Laxá er Drafnarnes heitir. Þar er garður hjá og heitir Haugsgarður. Síðan drífa menn að Ólafi og gerðist hann höfðingi mikill. Höskuldur öfundaði það ekki því að hann vildi jafnan að Ólafur væri að kvaddur öllum stórmálum. Þar var bú risulegast í Laxárdal er Ólafur átti. Þeir voru bræður tveir með Ólafi er hvortveggi hét Án. Var annar kallaður Án hinn hvíti en annar Án svarti. Beinir hinn sterki var hinn þriðji. Þessir voru sveinar Ólafs og allir hraustir menn. Þorgerður og Ólafur áttu dóttur er Þuríður hét.

Lendur þær er Hrappur hafði átt lágu í auðn sem fyrr var ritað. Ólafi þóttu þær vel liggja, ræddi fyrir föður sínum eitt sinn að þeir mundu gera menn á fund Trefils með þeim erindum að Ólafur vill kaupa að honum löndin á Hrappsstöðum og aðrar eignir þær er þar fylgja. Það var auðsótt og var þessu kaupi slungið því að Trefill sá það að honum var betri ein kráka í hendi en tvær í skógi. Var það að kaupi með þeim að Ólafur skyldi reiða þrjár merkur silfurs fyrir löndin en það var þó ekki jafnaðarkaup því að það voru víðar lendur og fagrar og mjög gagnauðgar. Miklar laxveiðar og selveiðar fylgdu þar. Voru þar og skógar miklir nokkuru ofar en Höskuldsstaðir eru fyrir norðan Laxá. Þar var höggvið rjóður í skóginum og þar var nálega til gers að ganga að þar safnaðist saman fé Ólafs hvort sem veður voru betri eða verri.

Það var á einu hausti að í því sama holti lét Ólafur bæ reisa og af þeim viðum er þar voru höggnir í skóginum en sumt hafði hann af rekaströndum. Þessi bær var risulegur. Húsin voru auð um veturinn.

Um vorið eftir fór Ólafur þangað byggðum og lét áður saman reka fé sitt og var það mikill fjöldi orðinn því að engi maður var þá auðgari að kvikfé í Breiðafirði. Ólafur sendir nú orð föður sínum að hann stæði úti og sæi ferð hans þá er hann fór á þenna nýja bæ og hefði orðheill fyrir. Höskuldur kvað svo vera skyldu.

Ólafur skipar nú til, lætur reka undan fram sauðfé það er skjarrast var. Þá fór búsmali þar næst. Síðan voru rekin geldneyti. Klyfjahross fóru í síðara lagi. Svo var skipað mönnum með fé þessu að það skyldi engan krók rísta. Var þá ferðarbroddurinn kominn á þenna bæ hinn nýja er Ólafur reið úr garði af Goddastöðum og var hvergi hlið í milli. Höskuldur stóð úti með heimamenn sína.

Þá mælti Höskuldur að Ólafur son hans skyldi þar velkominn og með tíma á þenna hinn nýja bólstað "og nær er það mínu hugboði að þetta gangi eftir að lengi sé hans nafn uppi."

Jórunn húsfreyja segir: "Hefir ambáttarson sjá auð til þess að uppi sé hans nafn."

Það var mjög jafnskjótt að húskarlar höfðu ofan tekið klyfjar af hrossum og þá reið Ólafur í garð.

Þá tekur hann til orða: "Nú skal mönnum skeyta forvitni um það er jafnan hefir verið um rætt í vetur hvað sjá bær skal heita. Hann skal heita í Hjarðarholti."

Þetta þótti mönnum vel til fundið af þeim atburðum er þar höfðu orðið.

Ólafur setur nú bú saman í Hjarðarholti. Það varð brátt risulegt. Skorti þar og engi hlut. Óxu nú mjög metorð Ólafs. Báru til þess margir hlutir. Var Ólafur manna vinsælstur því að það er hann skipti sér af um mál manna þá undu allir vel við sinn hlut. Faðir hans hélt honum mjög til virðingar. Ólafi var og mikil efling að tengdum við Mýramenn. Ólafur þótti göfgastur sona Höskulds.

Þann vetur er Ólafur bjó fyrst í Hjarðarholti hafði hann margt hjóna og vinnumanna. Var skipt verkum með húskörlum. Gætti annar geldneyta en annar kúneyta. Fjósið var brott í skóg eigi allskammt frá bænum.

Eitt kveld kom sá maður að Ólafi er geldneyta gætti og bað hann fá til annan mann að gæta nautanna "en ætla mér önnur verk."

Ólafur svarar: "Það vil eg að þú hafir hin sömu verk þín."

Hann kvaðst heldur brott vilja.

"Ábóta þykir þér þá vant," segir Ólafur. "Nú mun eg fara í kveld með þér er þú bindur inn naut og ef mér þykir nokkur vorkunn til þessa þá mun eg ekki að telja ella muntu finna á þínum hlut í nokkuru."

Ólafur tekur í hönd sér spjótið gullrekna, konungsnaut, gengur nú heiman og húskarl með honum. Snjór var nokkur á jörðu. Koma þeir til fjóssins og var það opið. Ræddi Ólafur að húskarl skyldi inn ganga "en eg mun reka að þér nautin en þú bitt eftir."

Húskarl gengur að fjósdurunum.

Ólafur finnur eigi fyrr en hann hleypur í fang honum. Spyr Ólafur hví hann færi svo fæltilega.

Hann svarar: "Hrappur stendur í fjósdurunum og vildi fálma til mín en eg er saddur á fangbrögðum við hann."

Ólafur gengur þá að durunum og leggur spjótinu til hans. Hrappur tekur höndum báðum um fal spjótsins og snarar af út svo að þegar brotnar skaftið. Ólafur vill þá renna á Hrapp en Hrappur fór þar niður sem hann var kominn. Skilur þar með þeim. Hafði Ólafur skaft en Hrappur spjótið. Eftir þetta binda þeir Ólafur inn nautin og ganga heim síðan. Ólafur sagði nú húskarli að hann mun honum eigi sakir á gefa þessi orðasemi.

Um morguninn eftir fer Ólafur heiman og þar til er Hrappur hafði dysjaður verið og lætur þar til grafa. Hrappur var þá enn ófúinn. Þar finnur Ólafur spjót sitt. Síðan lætur hann gera bál. Er Hrappur brenndur á báli og er aska hans flutt á sjá út. Héðan frá verður engum manni mein að afturgöngu Hrapps.
Hér er lýsing á kortinu...