Eftir það gefur Unnur fleirum mönnum af landnámi sínu. Herði gaf hún Hörðadal allan út til Skrámuhlaupsár. Hann bjó á Hörðabólstað og var mikill merkismaður og kynsæll. Hans son var Ásbjörn auðgi er bjó í
Örnólfsdal á Ásbjarnarstöðum. Hann átti Þorbjörgu dóttur Miðfjarðar-Skeggja. Þeirra dóttir var Ingibjörg er átti Illugi hinn svarti. Þeirra synir voru þeir Hermundur og Gunnlaugur ormstunga. Það er kallað Gilsbekkingakyn.
Unnur mælti við sína menn: "
Nú skuluð þér taka ömbun verka yðvarra. Skortir oss nú og eigi föng til að gjalda yður starf yðvart og góðvilja. En yður er það kunnigt að eg hefi frelsi gefið þeim manni er Erpur heitir, syni Melduns jarls. Fór það fjarri um svo stórættaðan mann að eg vildi að hann bæri þræls nafn."
Síðan gaf Unnur honum Sauðafellslönd á millum Tunguár og Miðár. Hans börn voru þau Ormur og Ásgeir, Gunnbjörn og Halldís er átti Dala-Álfur. Sökkólfi gaf hún Sökkólfsdal og bjó hann þar til elli. Hundi hét lausingi hennar. Hann var skoskur að ætt. Honum gaf hún Hundadal. Vífill hét þræll Unnar hinn fjórði. Hún gaf honum Vífilsdal.
Ósk hét hin fjórða dóttir Þorsteins rauðs. Hún var móðir Þorsteins surts hins spaka er fann sumarauka. Þórhildur hét hin fimmta dóttir Þorsteins. Hún var móðir Álfs í Dölum. Telur margt manna kyn sitt til hans. Hans dóttir var Þorgerður, kona Ara Mássonar á Reykjanesi, Atlasonar, Úlfssonar hins skjálga, og Bjargar Eyvindardóttur, systur Helga hins magra. Þaðan eru komnir Reyknesingar. Vigdís hét hin sétta dóttir Þorsteins rauðs. Þaðan eru komnir Höfðamenn í Eyjafirði.