Grettis saga

2. kafli

Í þenna tíma var ófriður mikill í Noregi. Braust þar til ríkis Haraldur lúfa son Hálfdanar svarta. Hann var áður konungur á Upplöndum. Síðan fór hann norður í land og átti hann margar orustur. Herjaði hann svo suður eftir landinu og lagði undir sig hvar sem hann fór. En er hann kom upp á Hörðaland kom í móti honum múgur og margmenni. Voru þar formenn Kjötvi hinn auðgi og Þórir haklangur og þeir Suður-Rygirnir og Súlki konungur.

Geirmundur heljarskinn var þá fyrir vestan haf og var hann ekki við þenna bardaga og þó átti hann ríki á Hörðalandi.

Þetta haust komu þeir vestan um haf, Önundur og hans félagar. En er þeir fréttu það, Þórir haklangur og Kjötvi konungur, þá sendu þeir menn til móts við þá og báðu þá liðs og hétu þeim sæmdum. Réðust þeir þá í lið með Þóri því að þeim var mikil forvitni á að reyna sig og sögðust þeir vildu þar vera sem ströngust væri orustan.

Fundur þeirra Haralds konungs varð á Rogalandi, í firði þeim er heitir í Hafursfirði. Höfðu þeir hvorirtveggju mikið lið. Þessi orusta hefir einhver verið mest í Noregi. Koma hér og flestar sögur við, því að frá þeim er flest sagt er þá segir helst frá. Kom þar og lið um allt landið og margt úr öðrum löndum og fjöldi víkinga.

Önundur lagði skip sitt á annað borð skipi Þóris haklangs. Var það mjög í miðjum hernum. Haraldur konungur lagði að skipi Þóris haklangs því að Þórir var hinn mesti berserkur og fullhugi. Var þar hin harðasta orusta af hvorumtveggjum. Þá hét konungur á berserki sína til framgöngu. Þeir voru kallaðir úlfhéðnar en á þá bitu engi járn. En er þeir geystust fram þá hélst ekki við. Þórir barðist alldjarflega og féll á skipi sínu með mikilli hreysti. Var þá hroðið með stöfnum skipið og höggvið úr tengslum skipið. Seig það þá aftur milli skipanna. Lögðu konungsmenn þá að skipi Önundar. Hann var fram á skipið og barðist djarflega.

Þá mæltu konungsmenn: "Þessi gengur fast fram í söxin. Látum hann hafa nokkurar vorar minjar að hann hafi komið í nokkurn háska."

Önundur stóð út á borðið öðrum fæti og hjó til manns og í því var lagið til hans. Og er hann bar af sér lagið kiknaði hann við. Þá hjó einn af stafnbúum konungs á fót Önundar fyrir neðan kné og tók af fótinn. Önundur varð þegar óvígur. Féll þá mestur hluti liðs hans.

Önundi varð komið á skip til þess manns er Þrándur hét. Hann var Bjarnarson, bróðir Eyvindar austmanns. Hann var á móti Haraldi konungi og lá á annað borð skipi Önundar.

Þessu næst brast sjálfur meginflóttinn. Þeir Þrándur og aðrir víkingar höfðu sig þá í burt hver sem mátti, sigldu síðan vestur um haf. Önundur fór með honum og Bálki og Hallvarður súgandi.

Önundur varð græddur og gekk við tréfót síðan alla ævi. Var hann af því kallaður Önundur tréfótur meðan hann lifði.
Hér er lýsing á kortinu...