Eiríks saga rauða

14. kafli

Annað sumar eftir fór Karlsefni til Íslands og Guðríður með honum og fór hann heim til bús síns í Reynines. Móður hans þótti sem hann hefði lítt til kostar tekið og var hún eigi heima þar hinn fyrsta vetur. En er hún reyndi að Guðríður var skörungur mikill fór hún heim. Og voru samfarar þeirra góðar.

Dóttir Snorra Karlsefnissonar var Hallfríður móðir Þorláks byskups Runólfssonar. Þau áttu son er Þorbjörn hét. Hans dóttir hét Þórunn, móðir Bjarnar byskups. Þorgeir hét sonur Snorra Karlsefnissonar, faðir Yngveldar, móður Brands byskups hins fyrra.

Og lýkur þar þessi sögu.
Hér er lýsing á kortinu...