Eyrbyggja saga

14. kafli

Á vorþingi um sumarið heimti Snorri föðurarf sinn af Berki. Börkur svarar svo að hann mundi gjalda honum föðurarf sinn "en eigi nenni eg," segir hann, "að skipta Helgafelli sundur. En eg sé að okkur er eigi hent að eiga saman tvíbýli og vil eg leysa landið til mín."

Snorri svarar: "Það þykir mér jafnlegast að þú leggir land svo dýrt sem þér líkar en eg kjósi hvor okkar leysa skal."

Börkur hugsar þetta mál og hugðist svo að Snorri mundi eigi lausafé hafa að gefa við landinu ef skjótt skyldi gjalda og lagði hálft landið fyrir sex tigu silfurs og tók þó af áður eyjarnar því að hann hugðist litlu verði þær mundu fá en Snorri fengi aðra staðfestu. Það fylgdi og að þá skyldi þegar upp gjalda féið og leita eigi láns undir aðra menn til þess fjár "og kjós þú nú Snorri," sagði Börkur, "þegar í stað hvort þú vilt."

Snorri svarar: "Þess kennir nú að, Börkur frændi, að þér þykir eg févani er þú leggur svo ódýrt Helgafellsland en undir mig kýs eg föðurleifð mína að þessu verði og rétt fram höndina og handsala mér landið."

"Eigi skal það fyrr," segir Börkur, "en hver peningur er fyrir goldinn."

Snorri mælti til Þorbrands fóstra síns: "Hvort seldi eg þér sjóð nokkurn á hausti?"

"Já," segir Þorbrandur og brá sjóðnum undan kápu sinni.

Var þá talið silfrið og goldið fyrir landið hver peningur og var þá eftir í sjóðnum sex tigir silfurs.

Börkur tók við fénu og handsalar Snorra landið.

Síðan mælti Börkur: "Silfurdrjúgari hefir þú nú orðið frændi en vér hugðum. Vil eg nú að við gefum upp óþokka þann er millum hefir farið og mun eg það til leggja til hlunninda við þig að við skulum búa báðir samt þessi misseri að Helgafelli er þú hefir kvikfjár fátt."

Snorri svarar: "Þú skalt njóta kvikfjár þíns og verða í brottu frá Helgafelli."

Svo varð að vera sem Snorri vildi.

En er Börkur var í brott búinn frá Helgafelli gekk Þórdís fram og nefndi sér votta að því að hún sagði skilið við Börk bónda sinn og fann það til foráttu að hann hafði lostið hana og hún vildi eigi liggja undir höggum hans. Var þá skipt fé þeirra og gekk Snorri að fyrir hönd móður sinnar því að hann var hennar erfingi. Tók þá Börkur þann kost, er hann hafði öðrum ætlað, að hafa lítið fyrir eyjarnar.

Eftir það fór Börkur í brott frá Helgafelli og vestur á Meðalfellsströnd og bjó fyrst á Barkarstöðum milli Orrahvols og Tungu. Síðan fór hann í Glerárskóga og bjó þar til elli.
Hér er lýsing á kortinu...