Snorri Þorgrímsson gerði bú að Helgafelli og var móðir hans fyrir innan stokk. Már Hallvarðsson, föðurbróðir Snorra, réðst þangað með mart búfé og tók forráð fyrir búi Snorra. Hafði hann þá hið mesta rausnarbú og fjölmennt.
Snorri var meðalmaður á hæð og heldur grannlegur, fríður sýnum, réttleitur og ljóslitaður, bleikhár og rauðskeggjaður. Hann var hógvær hversdaglega. Fann lítt á honum hvort honum þótti vel eða illa. Hann var vitur maður og forspár um marga hluti, langrækur og heiftúðigur, heilráður vinum sínum en óvinir hans þóttust heldur kulda af kenna ráðum hans. Hann varðveitti þá hof. Var hann þá kallaður Snorri goði. Hann gerðist þá höfðingi mikill en ríki hans var mjög öfundsamt því að þeir voru margir er eigi þóttust til minna um komnir fyrir ættar sakir en áttu meira undir sér fyrir afls sakir og prófaðrar harðfengi.
Börkur digri og Þórdís Súrsdóttir áttu þá dóttur er Þuríður hét og var hún þá gift Þorbirni digra er bjó á Fróðá. Hann var sonur Orms hins mjóva er þar hafði búið og numið Fróðárland. Þuríði, dóttur Ásbrands frá Kambi úr Breiðavík, hafði hann áður átta. Hún var systir Bjarnar Breiðvíkingakappa, er enn kemur síðar við þessa sögu, og Arnbjarnar hins sterka. Synir þeirra Þorbjarnar voru þeir Ketill kappi og Gunnlaugur og Hallsteinn. Þorbjörn var mikill fyrir sér og ósvífur við sér minni menn.
Þá bjó í Mávahlíð Geirríður, dóttir Þórólfs bægifótar, og Þórarinn svarti sonur hennar. Hann var mikill maður og sterkur, ljótur og hljóðlyndur, vel stilltur hversdaglega. Hann var kallaður mannasættir. Hann var eigi fémikill og hafði þó bú gagnsamt. Svo var hann maður óhlutdeilinn að óvinir hans mæltu að hann hefði eigi síður kvenna skap en karla. Hann var kvongaður maður og hét Auður kona hans. Guðný var systir hans er átti Vermundur mjóvi.
Í Holti út frá Mávahlíð bjó ekkja sú er Katla hét. Hún var fríð kona sýnum en eigi var hún við alþýðuskap. Oddur hét sonur hennar. Hann var mikill maður og knár, hávaðamaður mikill og málugur, slysinn og rógsamur.
Gunnlaugur sonur Þorbjarnar digra var námgjarn. Hann var oft í Mávahlíð og nam kunnáttu að Geirríði Þórólfsdóttur því að hún var margkunnig.
Það var einn dag er Gunnlaugur fór í Mávahlíð að hann kom í Holt og talaði mart við Kötlu en hún spurði hvort hann ætlar þá enn í Mávahlíð "og klappa um kerlingarnárann?"
Gunnlaugur kvað eigi það sitt erindi "en svo að eins ertu ung, Katla, að eigi þarftu að bregða Geirríði elli."
Katla svarar: "Eigi hugði eg að það mundi líkt vera en engu skiptir það," segir hún. "Engi þykir yður nú kona nema Geirríður ein en fleiri konur kunna sér enn nokkuð en hún ein."
Oddur Kötluson fór oft með Gunnlaugi í Mávahlíð. En er þeim varð síð aftur farið bauð Katla Gunnlaugi oft þar að vera en hann fór jafnan heim.