Nú skal segja frá Snorra goða að hann tók við eftirmáli um víg Þorbjarnar mágs síns. Hann lét og Þuríði systur sína fara heim til Helgafells því að sá orðrómur lék á að Björn, sonur Ásbrands frá Kambi, vendi þangað komur sínar til glapa við hana. Snorri þóttist og sjá allt ráð þeirra Arnkels, þegar hann spurði skipbúnaðinn, að þeir mundu eigi ætla fébótum uppi að halda eftir vígin við það að engar voru sættir boðnar af þeirra hendi. En þó var kyrrt allt framan til stefnudaga.
En er sá tími kom safnar Snorri mönnum og reið inn í Álftafjörð með átta tigu manna því að það voru þá lög að stefna heiman vígsök svo að vegendur heyrðu eða að heimili þeirra og kveðja eigi búa til fyrr en á þingi.
En er ferð þeirra Snorra var sén af Bólstað þá ræddu menn um hvort þegar skyldi sæta áverkum við þá því að fjölmennt var fyrir.
Arnkell segir að eigi skal það vera "
og skal þola Snorra lög," segir hann og kvað hann það eitt að gera svo búið er nauðsyn rak til.
Og er Snorri kom á Bólstað voru þar engi áköst með mönnum. Síðan stefndi Snorri Þórarni til
Þórsnessþings og þeim öllum er að vígum höfðu verið. Arnkell hlýddi vel stefnunni. Eftir það riðu þeir Snorri í brott og upp til Úlfarsfells.
Og er þeir voru á brott farnir kvað Þórarinn vísu:
Erat sem gráps fyr glæpi,
grund fagrvita mundar,
fúra fleygiáru
frænings lögum ræni
ef sannvitendr sunnu,
sé eg þeira lið meira,
oss megni goð gagni,
Gauts þekju mig sekja.
Snorri goði reið upp um háls til Hrísa og svo til Drápuhlíðar og um morguninn út til Svínavatns og svo til Hraunsfjarðar og þaðan, sem leið liggur, út til Tröllaháls og létti eigi ferðinni fyrr en við Salteyrarós. En er þeir komu þar varðveittu sumir Austmennina en sumir brenndu skipið og riðu þeir Snorri goði svo heim, að þetta allt var gert.
Arnkell spyr þetta, að Snorri hefir brennt skipið. Þá gengu þeir á skip Vermundur og Þórarinn með nokkura menn og reru vestur um fjörð til Dögurðarness. Þar stóð skip uppi er Austmenn áttu. Þeir Arnkell og Vermundur keyptu það skip og gaf Arnkell Þórarni hálft skipið en Vermundur bjó sinn hluta. Þeir fluttu skipið út í Dímun og bjuggu þar. Sat Arnkell þar við til þess er þeir voru búnir og fór síðan með þeim út um Elliðaey og skildu þar með vináttu. Sigldu þeir Þórarinn á haf en Arnkell fór heim til bús síns og lagðist sá orðrómur á að þessi liðveisla þætti hin skörulegasta.
Snorri goði fór til
Þórsnessþings og hélt fram málum sínum. Varð Þórarinn þar sekur og allir þeir er að vígum höfðu verið en eftir þingið heimti Snorri sér slíkt er hann fékk af sektarfé og lauk svo þessum málum.